— Morgunblaðið/Ómar
„Það er óraunhæft verkefni að ætla að fara að eyða lúpínunni,“ segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkur.

„Það er óraunhæft verkefni að ætla að fara að eyða lúpínunni,“ segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkur. „Jafnvel þó að við myndum setja allan okkar kraft og alla sumarstarfsmennina í það verk að uppræta lúpínuna myndi ekki sjá högg á vatni.“

Aðspurður hvaða svæði séu í forgangi nefnir Þórólfur Laugarás og Rauðhóla en bæði svæðin eru á lista Umhverfisstofnunar yfir friðlýst svæði sem talin eru í hættu meðal annars af völdum lúpínu.

„Við höfum slegið lúpínuna nokkuð reglulega í Laugarásnum en jarðminjarnar þar eru að hverfa í alls konar gróðri og er lúpínan þar duglegust. Lúpínan er mjög erfið viðfangs og það er ekki hægt að eyða henni si svona. Við höfum því lagt áherslu á að velja ákveðin svæði þar sem við reynum að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu hennar eins og til dæmis á Rauðhólum. Þangað höfum við farið reglulega og reynt að stöðva framgang lúpínunnar þar.“ Rauðhólar voru friðlýstir árið 1974 en þar er safn gervigíga. Umhverfisstofnun mælist til þess að lúpínunni þar sé haldið í skefju .

mariamargret@mbl.is