Veður Regnhlífin var þarfaþing í höfuðborginni um liðna helgi enda gekk á með skúrum.
Veður Regnhlífin var þarfaþing í höfuðborginni um liðna helgi enda gekk á með skúrum.
Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is Eftir hlýja og sólríka sumardaga á Norður- og Austurlandi í síðustu viku eru margir íbúar á Suður- og Vesturlandi farnir að bíða eftir að sumarið gangi almennilega í garð.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

Eftir hlýja og sólríka sumardaga á Norður- og Austurlandi í síðustu viku eru margir íbúar á Suður- og Vesturlandi farnir að bíða eftir að sumarið gangi almennilega í garð. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eigi að anda rólega, yfirleitt sé sumarið varla byrjað um þetta leyti. „Veður hefur reyndar verið fádæma gott undanfarin ár. En oftast hafa þessir sumardagar sem við höfum fengið ekki komið fyrr en seinna,“ segir Trausti.

Aðspurður hvort íbúar á SV-horninu séu orðnir of góðu vanir eftir góð sumur undanfarin ár segir Trausti það vel geta verið. Þá segir hann að fjöldi sólarstunda í maí hafi verið yfir meðallagi, þó sé hugsanlegt að fjöldinn það sem af er júní sé undir meðallagi en Trausti tekur þó fram að hann hafi ekki séð júnítölurnar.

Nokkuð hár hiti mældist á landinu í gær, t.a.m. 18 gráður í höfuðborginni, þótt væta hafi gert vart við sig. Þá mældist hitinn tæpar 22 gráður í Skaftafelli og á Egilsstöðum um miðjan dag í gær. Í innsveitum sunnan- og vestanlands var hitinn prýðilegur, 16-18 gráður.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir að íbúar sunnan- og vestanlands þurfi vart að kvarta yfir sumrinu hingað til, hitatölurnar segja sitt þótt blautt hafi verið um helgina. Hitinn sé á pari við það sem gengur og gerist á þessum ársíma.

Þungt yfir á Norður- og Austurlandi seinni hluta vikunnar

Eins og áður segir var fremur hlýtt um allt land í gær. Í dag á Elín von á að rigni S-SV-lands en áfram verði tiltölulega hlýtt með austanátt. Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag á Elín von á austan- og norðaustanátt, og einhverri rigningu á Norður- og Austurlandi, þar mun væntanlega kólna einnig með norðanáttinni. Seinni hluta vikunnar á Elín von á að úrkomulítið verði sunnan- og vestantil. „En ég á ekki von á að það verði jafnhlýtt og verið hefur fyrir norðan,“ segir Elín um SV-hornið. Ef horft er til næstu helgar verður hlýjast á Suðurlandi en hins vegar er væta í kortunum N- og NA-lands.