Þórey Sveinsdóttir fæddist á Akureyri 16. september 1929. Hún lést á líknardeild Landspítalans 31. maí 2013.

Þórey var dóttir hjónanna Sveins Tómassonar, f. 31. júlí 1904, d. 7. nóvember 1998, og Helgu Gunnlaugsdóttur, f. 24. maí 1906, d. 8. september 2006. Bræður Þóreyjar eru Gunnlaugur Búi Sveinsson, f. 24. febrúar 1932, og Tómas Heiðar Sveinsson, f. 13. febrúar 1941, d. 11. mars 2012.

Þórey giftist Hreini Hreinssyni 16. september 1950. Börn þeirra eru Lena María, f. 13. apríl 1949, Helga Kolbrún, f. 14. október 1952, Hreinn Andres, f. 25. febrúar 1955, Sveinn Birgir, f. 23. maí 1960, og Erna Bára, f. 4. október 1966.

Þórey ólst upp á Akureyri, hún lauk gagnfræðaskólaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar. Þórey og Hreinn fluttust til Reykjavíkur árið 1958. Þórey vann lengstum á heimili sínu við að sinna stórum hópi barna.

Þórey Sveinsdóttir verður jarðsungin frá Garðakirkju í dag, 11. júní 2013, kl. 13.

Margs er að minnast og margt að þakka þegar leiðir skilur. Þórey tengdamóðir mín hefur nú kvatt í hinsta sinn. Eftir skilur hún yndislegar minningar hjá okkur um góða og hlýja konu sem vildi allt fyrir aðra gera. Það var ekki erfitt fyrir mig fyrir 30 árum að koma inn í fjölskyldu mannsins míns þar sem mér var tekið með mikilli hlýju og væntumþykju. Þannig var Þórey alla tíð, með hugann við það hvernig fólkinu hennar liði og alltaf tilbúin að hjálpa og gefa af sér. Síðustu dagar hennar báru vitni um það.

Þórey var falleg kona bæði að utan og innan. Ég man þegar ég sá hana fyrst hvað ég var upp með mér að svona glæsileg kona skyldi vera tilvonandi tengdamóðir mín. Ég er enn upp með mér því með tímanum fékk ég að kynnast hennar innri manni sem var ekki síðri.

Þórey var mikil hannyrðakona. Það var alltaf gaman, þegar við fjölskyldan komum til þeirra í heimsókn, að fá að skoða það sem hún hafði verið að búa til. Hún hafði yndi af því að gefa það sem hún hafði gert sjálf. Hún prjónaði flíkur á fjölskyldumeðlimina, bjó til marga fallega hluti úr bútasaumi, málaði á postulín o.fl. Alls þessa höfum við fengið að njóta og erum mjög þakklát fyrir það.

Amma Þórey eins og synir mínir kalla hana alltaf er ímynd hinnar sönnu ömmu. Ef til er uppskrift að ömmum eins og þær eiga að vera þá vitum við hvernig hún er. Þeir elskuðu að fá að vera hjá ömmu og afa því hjá þeim var alltaf tími fyrir þá. Þar var spjallað um heima og geima, sagðar sögur, sungið, spilað, lesið og ekki síst var maturinn og kaffibrauðið hennar ömmu sem heillaði alltaf. Amma Þórey var óþreytandi að láta allar þeirra óskir rætast. Henni verður seint þakkað það nægilega vel.

Elsku þórey. Ég er þakklát fyrir allt sem þú hefur verið fyrir okkur Svenna og strákana og að við skyldum öll hafa fengið að segja þér það sjálf og kveðja þig vel.

Ég kveð þig með ást og virðingu og fallegum minningum.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Þín tengdadóttir,

Björg.

Þegar ég hugsa til „ömmu Þóreyjar“ eins og börnin mín kölluðu hana, kemur margt skemmtilegt og ljúft upp í hugann.

Þegar ég var lítil stelpa eyddi ég talsverðum tíma hjá ömmu minni og nöfnu í Laugargötunni. Þar var alltaf nóg að gera, mikill gestagangur, líf og fjör. Það allra skemmtilegasta var samt þegar frændfólkið frá Reykjavík kom í heimsókn. Ég bókstaflega elskaði þegar Þórey og Hreinn mættu norður með hópinn sinn. Ég leit alltaf upp til Þóreyjar, ekki bara vegna þess að hún var hávaxin, glæsileg og falleg heldur líka vegna þess að það var alltaf einhver dýrðarljómi yfir henni. Hún var glaðleg, góð og sagði svo skemmtilega frá. Ég man hversu stolt ég var þegar vinkona mín sagði að ég líktist Þóreyju.

Þegar ég varð sjálf móðir og við fluttum í höfuðborgina þá tóku Þórey og Hreinn að sér ömmu- og afahlutverk gagnvart syni mínum og seinna þegar dætur mínar fæddust þá þekktu þær þau ekki öðruvísi en sem ömmu og afa. Það var yndislegur tími og ég veit ekki hvernig við hefðum spjarað okkur í Reykjavíkinni ef ég hefði ekki haft ömmu Þóreyju og góðu ættingjana að leita til. Ég gat alltaf leitað til hennar og treyst henni fyrir leyndarmálum mínum. Hún var t.d. sú fyrsta sem vissi að ég átti von á mínu öðru barni. Það var samt ekki af því ég sagði henni það, hún vissi það bara. Tók á móti mér í eitt skiptið þegar ég heimsótti hana, horfði í augun mín og spurði brosandi hvort ég ætti von á barni.

Heimili þeirra stóð okkur alltaf opið og við eigum þaðan mjög margar og góðar minningar.

Þórey hafði gaman af handavinnu og ófá liggja verkin eftir hana á heimilum ættingjanna. Það var alltaf svo gaman að fá að sjá hvað hún var með á prjónunum og hvaða nýja handverk hún væri nú búin að læra. Hún var full af áhuga og hæfileikum.

Þórey og Hreinn höfðu mjög gaman af að ferðast og það var dásamlegt að fá að ferðast með þeim. Dætur mínar minnast oft á ferðalag sem við fórum í með þeim á Suðurlandið. Við dvöldum í bústað við Laugarvatn og flökkuðum um nágrennið. Ég vildi ég gæti látið myndir fylgja þessum minningarbrotum mínum frá þeirri ferð því þær segja svo miklu meira frá þessari ferð.

Eftir Reykjavíkurárin lá leið minnar fjölskyldu norður á ný en alltaf þegar höfuðborgin var heimsótt var farið til ömmu Þóreyjar og afa Hreins. Stundum fengum við meira að segja að gista og áttum með þeim góðar stundir.

Síðasta heimsókn mín til þeirra var á Hrafnistu. Þó að Þórey væri orðin veik og lægi í rúminu sínu þá var dýrðarljóminn enn til staðar.

Ég er svo þakklát fyrir þessa stund og ég veit að pabbi minn, litli bróðir hennar er það líka. Mér þótti svo vænt um að geta setið með henni í örstutta stund og spjallað. Ég settist á rúmstokkinn hennar, trúði henni fyrir einu leyndarmálinu enn, sem gladdi hana svo mikið að við fengum báðar tár í augun.

Guð blessi þig, elsku Þórey mín.

Elsku Hreinn, Lena, Helga, Andrés, Svenni, Erna og fjölskyldur,

Guð styrki ykkur í sorginni.

Helga H. Gunnlaugsdóttir.

Mig langar að segja nokkur orð um Þóreyju föðursystur mína sem var mér svo kær. Hún var hávaxin og falleg kona, viðkvæm og hlý. Það var alltaf gott að koma til hennar og Hreins. Mér leið alltaf eins og ég væri komin á mitt annað heimili, ég var alltaf velkomin og mér leið eins og ég væri ein af hópnum hennar. Ég heimsótti Þóreyju og Hrein nokkuð oft eftir að þau fluttu suður, fyrst með foreldrum mínum og seinna fékk ég að fara ein og búa hjá þeim nokkra daga í senn. Það voru alltaf dásamlegir dagar, krakkar á öllum aldri, bæði þeirra eigin börn og svo vinir þeirra sem ég kynntist líka. Þarna kynntist ég nýjum leikjum, siðum, mat og fleiru. Hjá þeim borðaði ég hvalkjöt og fékk kakó í morgunmat.

Við krakkarnir fórum í Vatnagarðana að leika okkur í skeljasandinum og lækjunum sem komu þegar Sandey dældi sandi í land og stundum fengum við að fara um borð. Eitt sinn fékk ég meira að segja að gista þar með einu af börnum þeirra hjóna. Þetta var allt eins og besti skóli fyrir krakka utan af landi.

Þórey og Hreinn ferðuðust mikið og fórum við fjölskyldan stundum með þeim og það var mitt fyrsta stóra ferðaævintýri að fá að sofa í „Hótelinu“, en það var húsbíll af frumlegri gerð, algjör forngripur og væri gaman að sjá hann í dag.

Þetta voru frábærar ferðir um landið vítt og breitt og einni ferð man ég sérstaklega vel eftir en þá var farið upp á hálendi, yfir ár og vegleysur til að veiða í fjallavötnum.

Þegar ég stálpaðist og var farin að vinna á sumrin tók Þórey að sér að fara með mér í verslunarleiðangur í borginni, búð úr búð til að fata mig upp fyrir veturinn fyrir hluta af sumarlaununum. Eftir á að hyggja held ég að það hafi krafist mikillar þolinmæði og umhyggju þar sem ég hafði ekki mjög ákveðnar skoðanir.

Þegar ég fór í nám til Reykjavíkur og svo þegar við hjónin hófum búskap þar, leituðum við mikið til Þóreyjar og Hreins. Það var alltaf notalegt og bara rétt eins og að koma til ömmu og afa. Það var alltaf tími fyrir spjall, tími fyrir okkur.

Þórey var afskaplega lagin í höndunum, hún málaði á postulín, prjónaði og saumaði svo eitthvað sé nefnt. Fyrir mig sem hef áhuga á slíku var dásamlegt að kíkja í heimsókn og sjá hvað var verið að gera í það og það skiptið.

Ég sakna Þóreyjar mjög sárt og það er skrítið þegar einhver fellur frá hvað ótrúlegir hlutir snerta tilfinningar manns. Einu sinni frétti ég að fjallið Kaldbakur væri fjallið hennar en hún saknaði alltaf norðurslóðanna. Síðan hugsa ég alltaf um frænku mína þegar birtan er falleg á Kaldbaknum.

Elsku Hreinn, börn, tengdabörn, ömmubörn, langömmubörn, pabbi og allir sem hafa misst dásamlega konu, ykkur öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Halla, Haukur

og fjölskylda.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besta amma, ég mun sakna þín endalaust.
Án þín væri ég ekkert.
Þú varst eins og önnur mamma mín og dekraðir alla alveg út í eitt. Þú sást alltaf ef manni leið illa og gast alltaf lagað það. Fimm börn og fimmtán barnabörn og ég yngst. Er svo glöð yfir því að hafa kynnst þér svona vel og að við höfum átt svona góð ár saman. Núna líður þér betur og átt eftir að fylgjast með okkur í lífinu. En eins og þú sagðir, þá ætlarðu samt ekki að trufla okkur.
Elska þig svo mikið. Þú varst besta amma í heimi.
Litla sólin þín,
Tinna Sól Ásgeirsdóttir.