[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Baksvið

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Þátttaka Hizbollah, samtaka sjíta í Líbanon, í stríðinu í Sýrlandi er vatn á myllu öfgamanna úr röðum súnníta og sjíta og gæti orðið til þess að átökin breiddust út til grannríkjanna, að sögn sérfræðinga í málefnum Mið-Austurlanda.

Hizbollah-samtökin, sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran, tilkynntu í lok maí að þau hefðu sent vopnaða liðsmenn til Sýrlands til að aðstoða stjórnarher landsins í baráttunni við uppreisnarmenn sem eru flestir úr röðum súnníta. Hermt er að sjítar frá Írak berjist einnig með stjórnarhernum í Sýrlandi og að Íranar hafi sent þangað 150 hernaðarráðgjafa til að þjálfa þúsundir hermanna. Sýrlenskir uppreisnarmenn segja að hreyfing sjíta í Jemen hafi einnig barist í Sýrlandi en hún neitar því.

Assad-fjölskyldan tilheyrir íslömskum minnihlutahópi, sem kallast alavítar og tengist sjíta-múslímum, en súnní-múslímar eru í miklum meirihluta í Sýrlandi. Þótt alavítar séu aðeins um 12% af íbúum landsins hafa þeir ráðið lögum og lofum í stjórnkerfinu frá því að Assad-fjölskyldan komst til valda árið 1970.

Súnnítar hvattir til að berjast í Sýrlandi

Súnnítar eru í miklum meirihluta meðal múslíma í heiminum öllum en sjítar eru þó í meirihluta í Írak, Íran og Barein og einnig stór hluti íbúa í Aserbaídsjan, Jemen og Líbanon. Í Katar, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru fjölmennir minnihlutahópar sjíta og einnig í austurhluta Sádi-Arabíu.

Þátttaka Hizbollah í stríðinu í Sýrlandi hefur orðið til þess að áhrifamesti klerkur Sádi-Arabíu hefur hvatt súnníta til að aðstoða uppreisnarmennina í baráttunni við stjórnarherinn. Stjórn Sádi-Arabíu hefur þó ítrekað ráðið þarlendum súnnítum frá því að ganga til liðs við uppreisnarmennina.

Hundruð súnníta frá Líbanon, flestir þeirra liðsmenn Bræðralags múslíma, hafa barist með sýrlensku uppreisnarmönnunum.

Salman Shaikh, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, telur hættu á að átökin í Sýrlandi breiðist út til grannríkjanna. „Við óttumst núna að allt svæðið dragist inn í átök milli trúarhópa og það leiði í raun til nokkurra borgarastyrjalda, meðal annars í Líbanon, Írak og að sjálfsögðu Sýrlandi,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Shaikh.

Líbanski stjórnmálaskýrandinn Hazem Sagheye tekur í sama streng og telur að stjórnin í Sýrlandi geti valdið miklum vandræðum í grannríkjunum með því að notfæra sér stuðning sjíta, meðal annars í Líbanon.

Þótt stjórnin í Líbanon hafi lýst yfir hlutleysi í deilunni styðja flestir súnnítar landsins uppreisnarmennina í Sýrlandi en flestir sjítar stjórn Assads. Deilan hefur einnig leitt til mannskæðra átaka milli súnníta og alavíta í Trípolí, næststærstu borg Líbanons.

Sádi-arabíski stjórnmálaskýrandinn Tariq Alhomayed telur að átökin milli trúarhópanna séu vatn á myllu íslamskra öfgasamtaka á borð við al-Qaeda og geti orðið til þess að ófriðurinn breiðist út. „Við færumst nær glundroða í Arabaríkjunum,“ hefur AFP eftir Alhomayed.

Undirbúa nýja stórsókn

Talið er að stuðningur Hizbollah hafi mikla þýðingu fyrir sýrlenska stjórnarherinn og hafi gert honum kleift að ná hernaðarlega mikilvægum bæ, Qusayr, á sitt vald í vikunni sem leið. Hermt er að stjórnarherinn sé nú að undirbúa mikla sókn gegn uppreisnarmönnum í borginni Aleppo og nágrenni hennar í norðurhluta landsins.

Talið er að yfir 94.000 manns hafi beðið bana í átökunum í Sýrlandi og um 1,6 milljónir manna hafi flúið til grannríkjanna. Embættismenn Sameinuðu þjóðanna spá því að flóttafólkinu fjölgi í minnst 3,45 milljónir fyrir lok ársins.

Helmingurinn talinn þurfa neyðaraðstoð
» Talið er að einn af hverjum þremur Sýrlendingum þurfi á neyðarhjálp að halda núna, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna.
» Þeir spá því að flóttafólkinu stórfjölgi á næstu mánuðum og að í lok ársins þurfi alls 10,25 milljónir Sýrlendinga á hjálp að halda, eða um helmingur þjóðarinnar.
» Allt að fjórar milljónir barna þarfnast neyðaraðstoðar núna, að sögn UNICEF.