Stöðva varð smíði Porsche Cayenne í Leipzig vegna flóðanna.
Stöðva varð smíði Porsche Cayenne í Leipzig vegna flóðanna.
Hin miklu flóð í Mið-Evrópu hafa ekki einungis neytt fólk til að flýja heimili sín í þúsundavís og valdið gríðarlegu eigna- og uppskerutjóni, heldur hafa þau einnig bitnað á bílaframleiðslu.

Hin miklu flóð í Mið-Evrópu hafa ekki einungis neytt fólk til að flýja heimili sín í þúsundavís og valdið gríðarlegu eigna- og uppskerutjóni, heldur hafa þau einnig bitnað á bílaframleiðslu.

Þannig stöðvaði Porsche smíði á Cayenne-jeppanum í bílsmiðju sinni í Leipzig í Þýskalandi á dögunum og hefur ekki enn getað tekið þráðinn upp þar sem frá var horfið.

Vegna flóðanna hafa lestarsamgöngur meðal annars gengið úr skorðum og því hefur reynst útilokað að senda flutningalestir frá íhlutasmiðju í Bratislava í Slóvakíu til Leipzig.

Var smíði Cayenne því eiginlega sjálfhætt vegna partaskorts en í smiðjunni í Leipzig eru að öllu jöfnu smíðaðir um 450 jeppar á dag. Í smiðju þessari eru Panamera bílar Porsche einnig settir saman og hefur ekki þurft að stöðva smíði þeirra.

BMW rekur einnig bílsmiðju í Leipzig og hefur birgðastaða hennar verið öllu betri en í tilviki Porsche því þar hefur framleiðsla verið með eðlilegum hætti þrátt fyrir flóðin.

agas@mbl.is