Sparaksturskappi Júlíus Helgi sigraði nýverið sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu annað árið í röð.
Sparaksturskappi Júlíus Helgi sigraði nýverið sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu annað árið í röð. — Morgunblaðið/Kristinn
Júlíus Helgi Eyjólfsson sigraði nýverið í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu og varði þar með titil sinn síðan í fyrra.

Júlíus Helgi Eyjólfsson sigraði nýverið í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu og varði þar með titil sinn síðan í fyrra. Júlíus, sem starfar sem kerfisstjóri hjá Toyota á Íslandi, segir sáraeinfalt að aka með hagkvæmum hætti og það geti hver sem er tileinkað sér. En hvernig skyldi standa á því að „tölvukallinn“ hjá Toyota er svona slyngur í sparakstri? „Ég hef svo sem alltaf verið áhugamaður um bíla, það vantar ekki,“ svarar Júlíus og hlær við.

Námskeið í sparakstri

Aðspurður hvernig ökumaður öðlist færni í sparakstri bendir Júlíus á að boðið er víða upp á sparakstursnámskeið sem allir geti sótt, bæði hjá aðilum sem starfi við ökukennslu ásamt því að bílaumboðin hafi oft boðið viðskiptavinum sínum upp á slík námskeið. „Við hjá Toyota höfum til dæmis boðið upp á sparakstursnámskeið og þá vorum við með ökuhermi á staðnum og hvaðeina. Ég fór einmitt á það námskeið sjálfur ásamt því að hafa aðeins gruflað í þessu áður,“ útskýrir júlíus. „En aðalatriðið er engu að síður að þegar maður er að fara eitthvert að þá þarf að plana ferðina fram í tímann, hvert maður er að fara og hvernig. Meðan á akstri stendur þarf svo að horfa vel í kringum sig og fram fyrir sig, sjá hvað er í gangi fyrir framan þig og þá gildir að horfa lengra en næstu 20 metrana svo maður sé ekki að keyra á fullri ferð til þess eins að þurfa að negla niður á rauðu ljósi rétt skömmu síðar. Miklu betur fer á því að halda jöfnum hraða, láta sig renna að ljósunum og lágmarka þannig skiptin sem maður þarf að stoppa og taka af stað aftur,“ bendir Júlíus á. „Stór hluti af þessu er að fylgjast með umferðinni framundan og vera meðvitaður um umferðina í kringum sig, ekki síst framundan.“

Að læra á akstursleiðina

Þetta hljóma sáraeinföld vísindi þegar Júlíus útskýrir málið en engu að síður er kunnara en frá þurfi að segja að ótalmargir ökumenn þenja bílinn í yfirsnúning innanbæjar og taka fram úr bílum á tæpasta vaði til þess eins að hitta þá aftur fyrir á næstu ljósum. Slysahættan af slíku háttalagi ætti að vera öllum ljós og að viðbættum eldsneytissparnaði sem næst með því að halda jöfnum hraða blasir við hver ávinningurinn er. „Flest ökum við sömu leið til vinnu frá degi til dags og við ættum því að kunna orðið á það hvernig ljósin virka og í framhaldinu hvernig hraða er best að halda, hvort hér eða þar þarf að hægja á eða gefa í til að gera aksturinn sem hagkvæmastan.“ Júlíus bætir því við að eitt hafi hann lært á sparakstursnámskeiðinu sem sé honum minnisstætt og það sé að ekki sé betra að taka sérstaklega hægt af stað á ljósum. „Því þá ertu bara að tefja alla hina í umferðinni sem eru fyrir aftan þig. Betur fer á því að vera snöggur upp í löglegan hámarkshraða og svo er bara að halda honum.“

Jafn hraði er kjarni málsins

Júlíus bendir á að hugsa beri sparakstur út frá því hvað sé vistvænt fyrir alla, ekki bara viðkomandi ökumanni einan og sér. Um leið séu uppi ranghugmyndir um að sparakstur sé hálfgerður ömmuakstur á lágmarkshraða en Júlíus þvertekur fyrir það. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að þegar hann ók til sigurs í sparaksturskeppninni til Akureyrar hafi verið ekið á löglegum hámarkshraða alla leið, eða 90 km/klst. „Lykilatriði er að halda jöfnum löglegum hámarkshraða og aka í hæsta gír eins og hægt er án þess að bíllinn fari að erfiða. Að halda jöfnum hraða er kjarni málsins.“

jonagnar@mbl.is

Hægt að ferðast um landið án mikilla eldsneytisútgjalda

Fyrir 3.500 kr. milli Reykjavíkur og Akureyrar

Endanleg úrslit í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu, sem fram fór föstudaginn 31. maí, urðu ljós eftir að dómnefnd keppninnar hafði fjallað um álitamál sem upp komu og gögn úr ökuritum keppnisbílanna höfðu verið könnuð. Sigurvegari reyndist vera Júlíus H. Eyjólfsson á Toyota Yaris dísil. Eldsneytiseyðsla bíls Júlíusar að meðtöldum refsistigum fyrir að fara út fyrir tímamörk, reyndist 3,92 lítrar. Það þýðir að eldsneytiskostnaður milli Reykjavíkur og Akureyrar var kr. 3.516.

Úrslitin lágu fyrir eftir að dómnefnd felldi úrskurð í málum þriggja keppenda. Keppnisstjórn hafði vísað tveimur þessara mála til dómnefndarinnar en kæra barst vegna þess þriðja. Úrskurður dómnefndarinnar var á þann veg að öllum bílunum þremur var vísað úr keppni.

Í öðru sæti varð Gunnar Ólason á Kia Rio. Bíllinn fór leiðina á 4,09 lítrum af dísilolíu. Rauneyðslan var sú sama og var eldsneytiskostnaðurinn á leiðinni kr. 3.781. Í þriðja sæti varð Hilmar Þorkelsson á Volkswagen Polo dísil. Rauneyðsla bíls Hilmars var sú minnsta í keppninni eða einungis 3,44 l á hundraðið. En aksturinn var það hægur að Hilmar var talsvert lengur á leiðinni en hann hefði átt að vera samkvæmt tímamörkum keppninnar og hlaut hann því 0,48 l í refsingu og aftur 0,45 l refsingu vegna of skamms hvíldartíma á Gauksmýri. Því varð eyðsla hans 4,36 l að meðtöldum refsistigum (lítrum). Nánar má lesa í úrslitin í töflunni.

Keppnin var með mjög breyttu sniði frá fyrri árum. Leiðin var mun lengri en áður, eða frá Reykjavík til Akureyrar. Keppendum var gert að aka á löglegum hámarkshraða eins og hann er á einstökum köflum leiðarinnar. Tímamörk voru því mun þrengri en áður og keppnin því vandasamari og harðari. Þá var í hverjum keppnisbílanna SAGA búnaður frá Arctic Track og „sjónvarpaði“ búnaðurinn ferð hvers einstaks bíls út á Internetið. Keppninni nú var öðrum þræði ætlað að sýna fram á að hægt sé að ferðast um landið án gífurlegra eldsneytisútgjalda, ef viðhaft er úthugsað ökulag í þeim tilgangi að spara eldsneyti án þess að tapa ferðatíma, að því er fram kemur í tilkynningu.