Halldóra Ólafsdóttir fæddist á Folafæti undir Hesti við Seyðisfjörð N-Ísafjarðarsýslu 5. júní 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 1. júní 2013.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Hálfdánarson, f. 4.8. 1891, d. 1973 og María Rögnvaldsdóttir, f. 13.1. 1891, d. 1989. María og Ólafur eignuðust 15 börn, 12 börn voru tvíburar og 3 börn einburar. Ósk, f. 1916, d. 2010; Guðrún, f. 1917, d. 2009; Karítas, f. 1919, d. 1919; Einar, f. 1919, d. 2010; Kristín, f. 1920, d. 2009; Rögnvaldur, f. 1920, d. 1964; Lilja, f. 1922, d. 2009; Fjóla, f. 1922; Jónatan, f. 1925; Helga Svana, f. 1926; Hálfdán, f. 1926, d. 1999; tvíburabróðir Halldóru er Haukur, f. 1928; María, f. 1932 og Ólafur Daði, f. 1932, d. 1992. Fósturforeldrar Halldóru voru Rannveig Rögnvaldsdóttir, f. 10.8. 1884, d. 1981 og Elías Ágúst Hálfdánarson, f. 1.8 1894, d. 1968. Uppeldissystkini Halldóru eru Friðgeir Ágústsson, f. 1918, d. 1998; Einar Ágústsson, f. 1923; Halldór Ágústsson, f. 1924, d. 2000, Sigurborg Ágústsdóttir, f. 1926.

Halldóra giftist 23. maí 1959 Jóhannesi Sölva Sigurðssyni, f. á Brekku í Sveinsstaðarhreppi 11. júní 1921, d. 30. apríl 2008, foreldrar hans voru Guðmundur Sigurður Jóhannesson, f. 20. maí 1895, d. 1960 og Kristín J. Jónsdóttir, f. 29. ágúst 1891, d. 1984. Dóttir Halldóru er Jóhanna Lind Ásgeirsdóttir, f. 2.11. 1952. Sambm. Jón Stefánsson, f. 8.11. 1952. Börn Jóhönnu Lindar frá fyrra hjónabandi eru: a) Salóme Halldóra, f. 1969, m.h. Úlfar Þórðarson, f. 1963, börn þeirra: Orri Levi, Gunnar Hlynur og Lára Sólveig. b) Jón Birgir, f. 1971, k.h. Edda Svanhildur Holmberg, f. 1962, börn þeirra: Heiðar Hólmberg og María Lind. c) Baldur Smári, f. 1976, sambk. Ingveldur Oddný Jónsdóttir, f. 1979, dætur hans: Máney Dís, Sóldís Eva og uppeldisdóttir Helga Marý. Börn Halldóru og Jóhannesar Sölva eru: Guðmundur Sigurður, f. 7.9.1958. Björn, f. 2.8. 1960, sambk. Eva Hjaltadóttir, f. 26.2. 1958, börn þeirra: a) Bjarkey, f. 1980, sambm. Trausti Guðmundsson, f. 1971, börn hennar Efemía Rún og Þóra Berglind, b) Logi, f. 1985, c) Perla Dögg, f. 1988, sambm. David Isaac Ryan, f. 1986, d) Hjalti, f. 1994. Rannveig María, f. 10.6. 1961, m. Árni Guðni Einarsson, f. 12.3. 1955, börn þeirra eru: a) Jóhannes Ingi, f. 1982, sambk. hans Rakel Ósk Halldórsdóttir, f. 1982, synir þeirra Ýmir Nói og Askur Áki, b) Einar Ágúst, f. 1984, sambk. Viktória Koczka, f. 1989, barn hans er Ísak Smári, c) Guðrún Dóra, f. 1992. Guðbjörg Sólveig, f. 27.8. 1963, synir hennar: a) Pétur Friðrik, f. 1989, sambk. Josefin Nyman, f. 1987, b) Sölvi Þór, f. 1993. Ólafur Ágúst, f. 7.2. 1967, k.h. Kirsten Winum Hansen, f. 15.7. 1967, synir þeirra: a) Sigurd Olaf, f. 1999, b) Peter August, f. 2000, c) Tomas Björn, f. 2004. Ingimar Þór, f. 3.9. 1969, k.h. Tinna Manswell Stefánsdóttir, f. 13.3. 1973, börn þeirra: a) Stefán Ólafur, f. 1997, b) Dagur, f. 2002, c) Freyr, f. 2005, dóttir Ingimars Rebecka Dóra, f. 1992 og uppeldisdóttir Hrafnhildur Ása, f. 1991.

Fimm daga gömul fer Halldóra í fóstur til systkina foreldra sinna sem þá bjuggu að Hesti í Hestfirði en fluttist með fósturforeldrum sínum á fardögum árið 1933, að Eyri við Seyðisfjörð. Hún naut barnafræðslu, sem var þá á Eyri. Síðar fór hún veturlangt í gagnfræðaskólann að Núpi í Dýrafirði, undi ekki lengur þar, hún vildi vera heima á Eyri að hjálpa til við búið því hún saknaði samvista við Rannveigu mömmu sína sem og hún gerði alla tíð. Um tvítugt fer Halldóra í húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði og brautskráðist þaðan. Veturinn 1951 til 1952 fór hún í vist til Reykjavíkur, fer því næst aftur heim að Eyri. Sumarið 1957 var örlagaríkt í lífi Halldóru því þá kynnist hún lífsförunaut sínum, Jóhannesi Sölva sem kemur vestur í Ísafjarðadjúp til vinnu. Leið þeirra lá að Gilsstöðum í Vatnsdal þar sem hún var ráðskona og hann ráðsmaður í eitt ár. Árið 1960 hófu þau búskap á Hellu á Ársskógsströnd þar sem þau bjuggu til ársins 1967 en þá festu þau kaup á jörðinni Skálá í Sléttuhlíð, Skagafirði. Vegna veikinda hennar brugðu þau búskap árið 1980 og fluttu búferlum í Kópavog. Halldóra tók virkan þátt í félagsstörfum kvenfélaga í sínum heimasveitum. Eftir fráfall Jóhannesar Sölva fer Halldóra að hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum og síðar flytur hún í hjúkrunarheimilið Mörk.

Útför Halldóru fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 11. júní 2013, og hefst kl. 13.

Elsku mamma mín, nú er þrautum þínum lokið, þú hefur kvatt þennan jarðneska heim.

Það kemur upp í huga minn draumurinn sem mig dreymdi mjög ung, þegar við áttum heima á Hellu á Árskógsströnd. Draumurinn var þannig að það kom stór tröllkerling og setti risastóran pott á hlóðir á túnið á næsta bæ. Tröllkerlingin klófesti þig og hélt þér á milli fingra sinna yfir pottinum. Við systkinin stóðum við pottinn sem gnæfði langt yfir höfðum okkar og grátandi reyndum við að bjarga þér úr klóm kerlingar. Þessi draumur greypti sig það í huga mér að í mörg ár vaknaði ég upp með andfælum og kallaði á þig til að vera viss um að tröllkerlingin væri ekki búin að ná þér. Ég man að þú varst orðin ansi þreytt á þessum uppákomum, en ég gat ekki sagt þér hvað olli þessum martröðum. Þegar ég komst til vits og ára gerði ég mér grein fyrir að þessi draumur táknaði að þarna var Parkinsonsjúkdómurinn kominn í líki tröllkerlingar, en við systkinin höfum horft á þennan hryllilega sjúkdóm halda þér í heljargreipum sínum. Það var fermingarárið mitt sem þú greindist með sjúkdóminn, þá varst þú aðeins 47 ára gömul. Það var svo fimm árum síðar að þið pabbi brugðuð búi og fluttuð suður á mölina til að þú gætir verið nær læknishendi. Það var erfitt fyrir ykkur að yfirgefa sveitina þar sem ykkur leið vel og voruð búin að byggja upp ykkar tilveru. En eins og ávallt horfðir þú brosandi fram á breyttar forsendur og gerðir gott úr.

Þú varst mikið náttúrubarn og naust þess að fara í berjamó og ganga um náttúru landsins. Þegar þú fórst í berjamó fylltir þú allar fötur og box, sem þér datt í hug að hafa meðferðis, af berjum sem þú svo hreinsaðir og bjóst til saft og sultur, en best þótti þér þau með sykri og rjóma. Þú elskaðir að fara í berjamó en bestu berin þóttu þér aðalbláberin úr Breiðinni heima. Þér leið vel í nálægð dýra og voru þau öll bestu vinir þínir, ég minnist þess að þú talaðir alltaf við ketti á sérstakan hátt og sagðir að kýrnar væru blessaðar skepnurnar þínar. Þú hafðir yndi af því að ferðast og lést sjúkdóminn ekki stoppa þig við að fara út meðal fólks.

Þrátt fyrir þín erfiðu veikindi varst þú alltaf undursamlega bjartsýn og geislaðir af afar sterkum lífsvilja. Nú ert þú frjáls úr þínum veika líkama og getur ferðast óþvingað um allar heimsins náttúrperlur.

Elsku mamma mín, þú ert í mínum hug fallegasta og besta manneskja sem gengið hefur á þessari jörð og ég mun ávallt minnast þín sem brosandi, orkumikillar, lífsglaðrar konu, því það varst þú. Ég mun ávallt elska þig mamma mín, hvíl í friði.

Daga röðull dapurt skín,

dvínar krafar þrútnir.

Sárt ég einatt sakna þín,

sem mér gleði veittir.

(höf. ókunnur)

Þín einlæg dóttir,

Rannveig María (Veiga Maja).

Elsku mamma mín. Ég var á ferðalagi í útlöndum þegar mér barst sú fregn að þú værir lögð upp í þína hinstu ferð. Þótt vitað væri um skeið að hverju drægi hjá þér er það alltaf jafnóvænt þegar kallið kemur. Mér fannst gott að það hittist svo á að ég var stödd hjá Óla „litla“ bróður þá og honum fannst líka gott að hafa mig hjá sér á þeirri stundu. Mín fyrsta hugsun var að drífa mig strax heim til Íslands, en við nánari umhugsun varð mér ljóst að það hefðir þú ekki viljað. Þú varst þannig gerð að þér fannst allt umstang þín vegna vera óþarfi. Aftur á móti var engin manneskja viljugri að snúast í kringum aðra en þú.

Í þessari stuttu grein ætla ég ekki að rekja lífshlaup þitt mamma mín. Það yrði of langt mál; væri efni í heila bók. Eitt verð ég þó að nefna sem var líkt og rauður þráður í gegnum lífsbók þína. Þú varst svo góð manneskja að því verður ekki með orðum lýst; gast alltaf fundið málsbætur fyrir öllu sem miður fór og máttir ekkert aumt sjá. Og hvað þú varst sterk og stóðst alltaf keik og kát í gegnum þitt stormasama líf þar sem örlögin hrifsuðu svo oft af þér völdin. Það held ég að fáir leiki eftir.

Í mínum huga eru það ekki kóngar og víkingar sem eru mikilmenni, það eru alþýðuhetjur eins og þú.

Þú sagðir einhvern tíma í gamla daga, þegar þú bjóst enn í sveitinni fyrir norðan og ég í Keflavík, að það væri gaman að fá bréf frá mér. Nú ætla ég ekki að hafa þessar línur lengri að sinni, en ég ætla að halda áfram að skrifa þér þótt það verði bara í huganum og bara okkar í milli.

Elsku mamma mín:

„Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.“

(Vald. Briem)

Þín dóttir,

Jóhanna Lind.

Þá er Halldóra eða Dóra hans pabba látin eftir baráttu við Parkinson. Hún er jarðsett á afmæli pabba þegar hann hefði orðið 92 ára. Ég gleymi aldrei þessari góðu og fallegu konu að utan sem innan, held að hún hafi aldrei sagt ljótt orð við neinn, hún var alltaf ljúf, en þreytt var hún orðin og er örugglega hvíldinni fegin. Dóra var yndisleg amma við son minn, tengdamamma mannsins míns og mér þótti óendanlega vænt um hana. En nú er Dóra komin til pabba sem hefur tekið á móti henni með opnum örmum. Það verður skrítið að koma til Reykjavíkur og engin Dóra til að heimsækja í Mörkina, ég fór aldrei suður öðruvísi en að heimsækja hana. Ég vil þakka þér mikinn kærleika alla tíð til mín, því aldrei fann ég annað frá þér elsku Dóra mín, sakna þín strax mikið og tárin renna niður kinn þegar ég skrifa þessi fátæklegu orð. Arnar, Sigurjón og ég þakka þér samferðina í gegnum lífið, megi algóður guð styrkja okkur öll. Systkinum mínum öllum, mágum og mágkonum og Jóhönnu sem ég hef alltaf kallað systur og allri fjölskyldu Dóru, barnabörnum, barnabarnabörnum og öðrum ættingjum viljum við fjölskyldan votta okkar dýpstu samúð. Guð blessi minninguna um góða og fallega konu, hvíl í friði elsku Dóra mín og minning mín um þig lifir svo lengi sem ég lifi. Guð styrki systkini mín.

Hvíldu í friði.

Kristín Jóhannesdóttir.

Elsku amma, ég skrifa þessi orð fyrir þig og mig. Ég hélt ég ætti aldrei eftir að skrifa minningargrein en nú hef ég sterka þörf fyrir það til að deila með öðrum hvað mér fannst þú vera mikilvæg og merkileg kona.

Ég á svo ótalmargar góðar minningar um þig, elsku amma, í sveitinni á Skála á ég margar hlýjar og góðar minningar frá mínum yngstu árum og við áttum líka góðar stundir í Engihjallanum t.d. þegar ég kom og við spiluðum. Þegar ég var í sumarvinnu á Eyri og þú komst „heim“, eins og þú kallaðir það, fannst mér þú alltaf fyllast af krafti og yngjast um mörg ár og ég tók út þroska og lærði margt á móti.

Mér finnst svo ótalmargt sem ég get lært af þér og finnst aðdáunarvert í þínu fari. Þú varst alltaf til staðar fyrir alla eins og örugg höfn sem allir vissu að væri til staðar og yrði til staðar, sama hvað á gengi, sama hvað fólk í kringum þig gat orðið á ská og skjön og sama hvað stór mál gengu yfir þig, alltaf til staðar fyrir aðra, hornsteinninn í stórri fjölskyldu.

Ef ég hefði helminginn af eljunni, dugnaðinum og voninni sem þú hefur haft í þínum veikindum yrði ég stoltur, það sama má segja um gestrisnina og fórnfýsina sem hefur alltaf einkennt þig, mér finnst þú alltaf hafa hugsað um aðra á undan sjálfri þér í öllum málum.

Mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina elsku amma mín, það hefur haft mikil áhrif á mig. Eins langar mig líka að þakka þeim sem hafa verið duglegri en ég í að vera þér stoð og stytta á síðustu árum þegar virkilega á reyndi, ég veit að það hefur verið krefjandi.

Ég tek afmælisdaginn hans afa frá og hugsa til þín og tileinka þér daginn þegar þú verður jarðsungin. Ég sakna þess að vera ekki með vinum þínum og ættingjum þann dag en þótt ég verði ekki á staðnum mun ég heiðra minningu þína og þú munt alltaf verða með mér og ég alltaf með þér.

Jón Birgir Gunnarsson (Nonni Biggi).