Vignir Gísli Jónsson fæddist í Borgarnesi 29. mars 1943. Hann lést á sjúkrahúsi Akraness 3. júní 2013. Foreldrar hans voru hjónin Jón Sigurðsson, verslunarmaður, f. 11. mars 1904, d. 14. febrúar 2002, og Sigríður Sigurveig Sigurðardóttir, f. 31. maí 1903, d. 5. nóvember 1989. Vignir var næstyngstur fjögurra systkina. Elstur er Þorvaldur, f. 17. júní 1936, Elsa Sigríður, f. 18. júlí 1939, og Gunnar, f. 28. febrúar 1945. Á nýársdag 1967 kvæntist Vignir eftirlifandi eiginkonu sinni Sigríði Eiríksdóttur, f. 18. febrúar 1944. Foreldrar hennar: Eiríkur Þorvaldsson, f. 22. febrúar 1918, d. 19. ágúst 2004, og Guðrún Finnbogadóttir, f. 24. maí 1924. Sonur þeirra er Eiríkur, framkvæmdastjóri og matvælafræðingur, f. 23. apríl 1966. Eiginkona hans er Ólöf Linda Ólafsdóttir, f. 8. febrúar 1972. Börn þeirra eru Katrín Björk, f. 17.6. 1989, sambýlismaður Sindri Már Atlason, sonur þeirra er Ólafur Atli, f. 24. maí 2010. Þau eru nemar við Háskólann á Akureyri. Vignir Gísli, f. 17. desember 1997, nemi og Eiríkur Hilmar, f. 2. september 1999, nemi. Vignir Gísli útskrifaðist frá samvinnuskólanum á Bifröst árið 1962. Hann starfaði í eitt ár hjá KASK, Höfn í Hornafirði. Vignir stundaði nám við London School of Foreign Trade 1963-1964. Hann flutti þá á Akranes og vann hjá Fiskiveri hf. í eitt ár, flutti þá til Bretlands ásamt eiginkonu sinni og starfaði þar við sölu á fiskafurðum. Vignir stofnaði fyrirtækið Vignir G. Jónsson hf. ásamt Sigríði konu sinni í London 1970. Það fluttist síðan til Íslands með staðsetningu á Akranesi, og hefur verið þar síðan. Fyrirtækið er nú í fremstu röð hér á landi í famleiðslu afurða úr hrognum og hefur fengið viðurkenningar hér heima og erlendis fyrir vörur sínar. Vignir greindist ungur, aðeins 37 ára gamall, með Parkinsonsjúkdóminn. Lét hann það ekki aftra sér frá að ferðast með eiginkonu sinni bæði innanlands og utan og hafði hann mikið yndi af. Alltaf var hugur hans við fyrirtækið eins og kraftar leyfðu. Síðustu árin áttu afkomendurnir hug hans allan. Útför Vignis fer fram frá Akraneskirkju í dag, 11. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Árið 1971, í stjórnartíð Magnúsar Kjartanssonar iðnaðarráðherra, var kynnt metnaðarfull áætlun um styrkingu íslensks iðnaðar. Ísland hafði undirritað Fríverslunarsamning EFTA, sem krafðist aukinnar samkeppnishæfni landsins í öllum greinum. Einn liður í því var stofnun Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins og fjölda sérsamtaka hinna ýmsu greina. Ráðgjafar voru fengnir til landsins til að leiðbeina í markaðsmálum. Mikil áhersla var lögð á aukna fullvinnslu sjávarafla en einn þáttur þess var að byggja upp lagmetisiðnaðinn.

Í framhaldi á því samþykkti Alþingi sérstök lög um lagmetisiðnaðinn. Sölustofnun lagmetis var sett á fót, þar sem undirritaður fór um tíma með hlutverk. Stofnendurnir voru 22 niðursuðuverksmiðjur, gamlar og rótgrónar sem einnig minni bílskúrsfyrirtæki.

Um þessar mundir var ungur athafnamaður að hasla sér völl í matvælaiðnaði uppi á Akranesi. Hann hafði komið sér upp tækjum til niðurlagningar  og framleiðslu á grásleppukavíar og hafði nokkra reynslu í útflutningi. Þrátt fyrir nokkurra eftirgöngu hafnaði hann inngöngu í hin nýskipuðu samtök en vildi frekar takast á við verkefnin einn og af eigin rammleik.

Ef við skoðum árangurinn 40 árum síðar er niðurstaðan þessi: Af hinum 22 aðildarverksmiðjum Sölustofnunar lagmetis er einungis ein þeirra enn starfandi á landinu -  litla fyrirtækið á Akranesi hefur haldið áfram að þróast og dafna öll árin frá stofnun og bætt við sig nýjum framleiðslugreinum. Það er nú orðið eitt öflugasta fyrirtæki sinnar tegundar í Evrópu, getur mælt sig við hvert hinna stóru erlendis og er einn af burðarásum bæjarfélagsins. Credit Info veitti því viðurkenninguna sem Framúrskarandi fyrirtæki 2013.

Vignir G. Jónson stofnaði fyrirtæki sitt, sem ber hafn hans, með báðar hendur tómar og var ekki einu sinni Skagamaður. Hann hafði ekki annað með sér að leggja en viljann, gott stjórnunar- og viðskiptavit og svo það, sem mestu máli skipti, gimsteininn hana Sigríði Eiríksdóttur, konu sína.

Ég fylgdist með rekstri fyrirtækisins úr fjarlægð. Að vísu nokkuð argur yfir því að hafa ekki tekist að véla þau inn í samtökin. En þegar fram liðu stundir, sá ég, af hve mikilli leikni Vignir stjórnaði sínu fyrirtæki og annaðist sjálfur að mestu sín markaðsmál. Hann byrjaði  að salta hrognin sjálfur og gátu karlarnir lagt beint upp hjá honum. Þar sem verkefnin komu oft sveiflukennt með skömmum afgreiðslufresti, gerði hann sérstakan samning við konurnar í verksmiðjunni, sem tók mið af skyndiútköllum og óreglulegum vinnutíma. Allan tímann var Sigríður honum við hlið, og skiptu þau með sér verkefnum. Ég minnist þess einu sinni er ég átti leið fram hjá gömluverksmiðjunni þar sem  þau hjón höfðu verið að ljúka framleiðsludegi síðla sunnudags  og voru að þrífa eftir daginn, og Vignir að sópa fyrir utan.

Á níunda áratugnum kom svo nýja verksmiðjuhúsið - á lóð, sem gerði ráð fyrir góðri stækkun - og síðan þau þrjú stóru verksmiðjuhús til viðbótar, eitt af öðru, sem nú hýsa framleiðsluna.

Þegar Vignir tók veiki þá, sem þjakaði hann síðustu árin, hafði Eiríkur sonur hans lokið námi í matvælafræðum við Háskólann. Hann kom til liðs við þau hjón en tók síðar alfarið við rekstri verksmiðjunnar og hélt uppbyggingunni áfram. Honum til halds og trausts kom svo Ólöf, konan hans, svo að segja má, að reksturinn hafi alla tíð verið í höndum fjölskyldunnar. Vignir sinnti starfi sínu fram til síðustu ára, sótti kaup- og ráðstefnur og var alla tíð vel með á nótunum með það, sem fram fór í fyrirtækinu. Ég hygg að fjölskyldan hafi öll verið með í ráðum, þegar stórar ákvarðanir voru teknar.

Ég hefði gjarnan vilja njóta samveru Vignis lengur. Hann var ljúfur og glaðlyndur maður með gott skopskyn. Hann virkaði á mig mannbætandi. Ég minnist sérstaklega viku, sem við áttum saman á hóteli í París í tengslum við vörusýninguna SIAL, og bílferð, sem við förum til að hitta viðskiptavin í Düsseldorf. Mér fannst gott að segja aulabrandara og skopast að keppinautunum í návist hans.

En klukkan glymur og enginn deilir við þann dómara. Renötu, konu minni, og mér mun þykja gott að vera áfram meðvituð um nærveru Sigríðar, - og, Vignir, minn kæri, þú gast ekki skilið eftir betri fulltrúa að þér gengnum en Eirík son þinn og Ólöfu tengdadóttur.

Við þökkum áratugalangt samstarf Vignis G. Jónssonar við fyrirtækið okkar og vottum fjölskyldu hans samúð okkar allra.

Starfslið Triton ehf.,

Örn Erlendsson, Renata Erlendsson, Ormur J. Arnarson og Rolf H. Arnarson.