Gunnar Skarphéðinsson
Gunnar Skarphéðinsson — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Gunnar Svein Skarphéðinsson: "Sumardagurinn fyrsti var allt fram á 20. öld mikill gleðidagur og gekk næstur jólunum hjá bæði börnum og fullorðnum..."

Talsvert hefur verið rætt um það að undanförnu að æskilegt sé að færa til hina stöku frídaga sem tíðkast að vorinu (þ.e. sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur). Hugmyndin er sú að þessa daga megi annaðhvort leggja við laugardag eða sunnudag og með þeim hætti sé hægt að skapa þriggja daga samfellt helgarleyfi. Það sem þykir mæla með slíkri tilfærslu er einkum tvennt: atvinnulífið hafi meiri hag af samfelldum vinnuvikum en sundurslitnum og launafólk njóti þess betur að fá lengri og samfelldari frítíma en staka frídaga. Vísast er margt til í þessu en hér er ekki ætlunin að ræða kosti og galla þvílíkra breytinga almennt en benda þess í stað á hve sumardagurinn fyrsti á sér langa og merka sögu í þjóðmenningu okkar Íslendinga.

Íslendingar notuðu til forna svokallað misseristal jafnframt hinu rómverska eða kirkjulega tímatali. Tíminn var reiknaður í misserum, sumrum og vetrum, og var lögð megináhersla á viknatalningu, einkum að sumarlagi. Ástæðu þess telja sumir vera þá að tunglið eða máninn (sem orðið mánuður er raunar myndað af) er hinn eðlilegi tímamælir í frumstæðum samfélögum og birtu hans nýtur illa á norðurslóðum þegar björt er nótt. Þetta gæti verið skýringin á því að við þekkjum öll enn vetrarmánuðina: þorra, góu og einmánuð en sumarmánuðina fornu miklu síður. Viknatalið hafi beinlínis verið nauðsynlegt til þess að fólk „ruglaðist ekki í ríminu“ þegar ekki sást til tunglsins. Vegna viknatalsins varð sumarið ætíð að koma sama vikudaginn. Til þess hafa menn snemma valið fimmtudaginn, þ.e. Þórsdaginn. Ekki eru menn fullkomlega vissir um hvers vegna hann hefur orðið fyrir valinu en germanskar þjóðir höfðu mætur á þessum degi en hann samsvarar degi Júpíters meðal Rómverja. Dagur helgaður Þór, sem upphaflega var þrumugoð en réð einnig heiðríkju og frjósemi, hefur trúlega átt að tryggja mönnum árgæsku við upphaf vorkomunnar. Ekki vita menn nákvæmlega hvenær þetta tímatal hefur orðið til í frumgerð sinni en líklegt þykir að það hafi verið um líkt leyti og alþingi var stofnað hérlendis um 930. Sameiginlegt tímatal urðu menn augljóslega að hafa vegna fardaga og margs konar lagafyrirmæla. Þar á meðal eru til dæmis fyrirmæli um það hvenær menn skuli koma til þings en „tíu vikur skulu vera af sumri er menn koma til alþingis,“ segir í Grágás. Sumardagur fyrsti og hinn fimmti dagur viku eru oft nefndir til viðmiðunar í fornum lögum þegar ljúka átti greiðslum eða standa skil á einhverju sem var samningsbundið. Þessa sömu hefð má sjá í Snorra-Eddu og þjóðsögum okkar.

Áramót, eins og við þekkjum þau, virðast ekki hafa þekkst til forna en svo er að sjá sem menn hafi oft miðað við sumardaginn fyrsta sem eins konar upphafsdag nýs árs. Til þess bendir sú venja, sem enn er þekkt, að telja aldur búpenings í vetrum en aldur manna var einnig talinn á þann hátt áður fyrr.

Sumardagurinn fyrsti var allt fram á 20. öld mikill gleðidagur og gekk næstur jólunum hjá bæði börnum og fullorðnum, menn sinntu aðeins hinum nauðsynlegustu störfum og gerðu sér gjarnan einhvern dagamun. Það er einnig forn siður að gefa sumargjafir. Þetta sýna ótal gamlar frásagnir og æviminningar. Allt fram á 18. öld var dagurinn messudagurinn en þá var sú venja afnumin fyrir áhrif frá heittrúarstefnu (píetismanum) sem þá var ríkjandi. Sennilega hafa hin dönsku kirkjuyfirvöld litið á það sem hálfgerðan heiðindóm að messa á slíkum degi.

Misseristalið forna á sér langa og merka sögu og viknatalningin að sumarlagi hefur verið lifandi allt fram á síðustu ár. Ari fróði Þorgilsson fjallar í fjórða kafla í Íslendingabók um svokallaðan sumarauka, sem Þorsteinn surtur Hallsteinsson fann á 10. öld. En þar er um að ræða leiðréttingu tímatalsins sem fólgin er í því að innskotsviku er bætt inn í misseristalið á nokkurra ára fresti til þess að samræma það hinu náttúrlega árstíðaári. Hvernig Þorsteinn surtur fann skekkjuna, sem var á tímatalinu, og gat leiðrétt hana mun vera mönnum nokkur ráðgáta og eru margir menn mér fróðari að greina frá því.

Af þessu stutta yfirliti er ljóst að íslenska misseristalið á sér djúpar rætur og sumardagurinn fyrsti er órjúfanlegur þáttur þess. Afrek hans er óumdeilt og þótt öldin sé hraðfleyg ber okkur að leggja rækt við liðna tíð og arfleifð okkar á öllum sviðum.

Heimildir. Árni Björnsson: Saga daganna. Mál og menning 1993. (Sjá „Sumardagurinn fyrsti“ og tilvísanir þar).

Höfundur er kennari við Verzlunarskóla Íslands.

Höf.: Gunnar Svein Skarphéðinsson