Gullberg Var áður í eigu Ufsabergs en er nú skráð á Vinnslustöðina.
Gullberg Var áður í eigu Ufsabergs en er nú skráð á Vinnslustöðina. — Morgunblaðið/Kristján Kristjánsson
Hildur Hjörvar hhjorvar@mbl.is Tekið var fyrir mál Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum gegn fyrrverandi stjórnarmönnum fyrirtækisins, þeim Gunnari J.

Hildur Hjörvar

hhjorvar@mbl.is

Tekið var fyrir mál Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum gegn fyrrverandi stjórnarmönnum fyrirtækisins, þeim Gunnari J. Felixsyni, Haraldi Gíslasyni og Sigurjóni Óskarssyni, og framkvæmdastjóranum, Sigurgeiri Brynjari Kristgeirssyni, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Um er að ræða skaðabótamál vegna viðskipta sem meirihluti stjórnar Vinnslustöðvarinnar ákvað að ráðast í, en stefnandi telur að viðskiptin hafi valdið fyrirtækinu tapi sem geri stjórnarmenn skaðabótaskylda.

Í nafni Vinnslustöðvarinnar

„Stilla útgerð hf., einn hluthafa Vinnslustöðvarinnar er stefnandi í málinu og telur að aðrir stjórnarmenn í félaginu hafi gerst bótaskyldir vegna ákvörðunarinnar því félagið hafi tapað á viðskiptunum,“ útskýrir Ragnar H. Hall, lögmaður stefndu, en Stilla útgerð hf. er í eigu feðganna Kristjáns Guðmundssonar og útgerðarmannsins Guðmundar Kristjánssonar, sem löngum hefur verið kenndur við Brim. „Stilla útgerð höfðar málið í nafni Vinnslustöðvarinnar samkvæmt sérákvæði í hlutafélagalögum; þegar þannig stendur á getur hluthafi höfðað mál í nafni félagsins og vinni hann renna bæturnar til félagsins en ekki hluthafans.“

200 milljónum of hátt

Viðskiptin sem um ræðir eru kaup Vinnslustöðvarinnar á 35% hlut í útgerðinni Ufsabergi ehf. árið 2008. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins komust dómkvaddir matsmenn að þeirri niðurstöðu að hlutur Vinnslustöðvarinnar í Ufsabergi hefði verið keyptur ríflega 200 milljónum króna of dýrt og var þeirri matsgerð ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Þetta tap vill stefnandi fá bætt úr hendi stjórnarmanna sem tóku ákvörðun um kaupin.

Forsögu málsins má rekja til deilna milli Stillu útgerðar hf., Guðmundar Kristjánssonar og KG fiskverkunar, sem í nóvember áttu tæplega 32% hlut í Vinnslustöðinni, og heimamanna, sem eiga meirihluta í fyrirtækinu, um hvernig ætti að stýra því. Meirihluti eigenda réðist í kaup á Ufsabergi, sem síðan var sameinað Vinnslustöðinni í september 2011.

Í mars á þessu ári var samruninn hins vegar dæmdur ógildur, en Stilla útgerð, KG fiskverkun og Guðmundur Kristjánsson höfðuðu málið. Sagði meðal annars í dómnum að kaupsamningur um eigin hluti í Vinnslustöðinni gegn afhendingu hlutafjár í Ufsagerðinni frá maí 2010 hefði aðeins haft þann tilgang að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í Vinnslustöðinni og sniðganga þannig það jafnræði og minnihlutavernd hluthafa sem á að tryggja með lögum um hlutafélög.

Gæti haft fordæmisgildi

Skaðabótamál af þessu tagi eru ekki algeng hér á landi. Þrotabú höfða iðulega mál til riftunar á ráðstöfunum fyrrverandi stjórnenda, en annars konar skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum eru mjög sjaldgæf og gæti þetta mál því haft fordæmisgildi ef kröfur stefnanda næðu fram að ganga.