Þórarinn Eldjárn bregður á leik í limru: Hún Dúdda var alltaf að daðra og dufla og smjaðra og flaðra. Það kvað að þessu rammt, hún má eiga það samt að hún gerði það aldrei við aðra.

Þórarinn Eldjárn bregður á leik í limru:

Hún Dúdda var alltaf að daðra

og dufla og smjaðra og flaðra.

Það kvað að þessu rammt,

hún má eiga það samt

að hún gerði það aldrei við aðra.

Svo yrkir hann að gefnu tilefni:

Þeim sem geta ekkert íslenskað

í auglýsingum hefnist fyrir það:

Skódabíl við ætlum never ever

að aka meðan það er simply clever.

Þorgeir Tryggvason prjónar við það:

Íslenskan er engu lík,

ætti'að meðhöndlast sem slík;

aldrei kaupi Audi-tík

sem æpir „Vorsprung durch Technik“.

Þórarinn er ekki lengi til svars:

Ef bílatal er tíska

er tunga Audis þýska

en skelfing skrýtin lenska

að Skódamál sé enska.

Úr því farið er að ræða bílavísur hlýtur Andrés H. Valberg að koma upp í hugann, sem orti margar slíkar, oft hringhendur eins og þessa:

Á skemmtifund með léttri lund

lífsins bundinn hætti.

Bíllinn skundar greiða grund

gæddur undramætti.

Þessi vísa Andrésar varð fleyg:

Af bílstjórunum er ég einn

ætíð frjáls og glaður.

Skagfirðingur skír og hreinn

skáld og listamaður.

Hann orti líka:

Fordinn blái fer á stjá

fróns um háar lendur.

Steinum gráum stiklar á,

stýra knáar hendur.

Að síðustu:

Áfram brunar bíllinn minn,

brautin dunar undir.

Ég skal muna sérhvert sinn

svona unaðsstundir.

Björn Jakobsson á Varmalæk kastaði fram:

Bíllinn hossast undir oss.

Enginn kossafriður.

Kristleifur Þorsteinsson á Stóra-Kroppi botnaði:

Ástarblossi er aðeins kross

ef hann fossar niður.

Loks skáldið Örn Arnarson:

Bíllinn rennur um ruddan veg,

rambar og skelfur stundum.

Hoppar sem andríkt andaborð

á andatilraunafundum.

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is