Bresk kvenréttindasamtök hafa hvatt ríkisstjórn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, til að beita sér fyrir banni við því að eiga klámmyndir sem ýta undir kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum og konum.

Bresk kvenréttindasamtök hafa hvatt ríkisstjórn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, til að beita sér fyrir banni við því að eiga klámmyndir sem ýta undir kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkum og konum. Samtökin segja að samkvæmt núgildandi lögum njóti dýr og lík meiri verndar en stúlkur og konur hvað varðar dreifingu á klámefni.

Samtökin segja í bréfi, sem birt var í breska dagblaðinu The Daily Telegraph í gær, að samkvæmt lögunum sé leyfilegt að eiga klámmyndir sem lýsi nauðgunum, með titlum á borð við „Skólastúlku nauðgað“ eða „Unglingshóru nauðgað“, svo fremi sem stúlkurnar á myndunum séu orðnar átján ára gamlar. Hins vegar sé bannað að eiga myndir af samförum við lík og dýr. „Samkvæmt sömu lögum er það glæpsamlegt að lýsa samförum við lík og dýr og þetta þýðir að lík og dýr njóta meiri verndar en konur og stúlkur,“ segja samtökin. „Breyting á ensku lögunum myndi senda skýr skilaboð um að það sé ólöglegt að eiga klámmyndir sem ýta undir kynferðislegt ofbeldi gegn konum.“

Samtökin segja þetta misræmi „skelfilegt“ í ljósi þess að fram hafi komið vísbendingar um að tengsl séu á milli útbreiðslu klámefnis á netinu og kynferðislegra árása á börn.