Fljót Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir á fullri ferð á hlaupabrautinni.
Fljót Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir á fullri ferð á hlaupabrautinni. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir og Arnar Helgi Lárusson settu bæði Íslandsmet á Opna þýska meistaramótinu í frjálsum íþróttum um helgina.

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir og Arnar Helgi Lárusson settu bæði Íslandsmet á Opna þýska meistaramótinu í frjálsum íþróttum um helgina. Matthildur, sem keppir í F/T 37 flokki hreyfihamlaðra, lenti í miklu ævintýri en vegna mistaka varð hún að hlaupa 400 metra hlaup sitt í karlaflokki. Þar mætti hún meðal annars fljótasta íþróttamanni heims úr röðum fatlaðra í dag, Brasilíumanninum Alan Oliveira, og hvort sem það hafði svona góð áhrif eða ekki þá setti Matthildur nýtt Íslandsmet en hún kom í mark á 75,87 sekúndum. Matthildur keppti einnig í 100 (15,76 sek.) og 200 metra hlaupi (32,53 sek.) og stökk 4,10 metra í langstökki.

Oliveira var í miklum ham í Þýskalandi og vann 100 metra hlaup á 10,79 sekúndum, sem hefði dugað honum til gullverðlauna á Ólympíumótinu í London. Hann landaði gulli í 200 metra hlaupinu í London og vann þar eftirminnilegan sigur á Oscar Pistorius.

Arnar Helgi, sem stefnir á að keppa fyrstur Íslendinga í hjólastólaakstri á Ólympíumótinu í Ríó 2016, setti Íslandsmet í 100 metra spretti á 19,01 sekúndu. Hann keppti einnig í 200 (38,70 sek.) og 400 metra spretti (1:22,89 mín.) á mótinu í Berlín. Arnar Helgi keppir í T 53 flokki hreyfihamlaðra.

Hulda Sigurjónsdóttir frá Mið-Mörk, sem keppir í F/T 20 flokki þroskahamlaðra, var þriðji Íslendingurinn á mótinu en hún kastaði kringlu 23,63 metra, kúlu 8,57 metra og spjóti 20,95 metra.

sindris@mbl.is