Uppbygging Verið er að reisa nýtt skólahús fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ við Háholt. Húsið verður væntanlega tilbúið í byrjun næsta árs.
Uppbygging Verið er að reisa nýtt skólahús fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ við Háholt. Húsið verður væntanlega tilbúið í byrjun næsta árs. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Mikil uppbygging á sér stað í Mosfellsbæ um þessar mundir en stór og eftirsóknarverð byggingarsvæði í landi sveitarfélagsins hafa verið sett á sölu.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Mikil uppbygging á sér stað í Mosfellsbæ um þessar mundir en stór og eftirsóknarverð byggingarsvæði í landi sveitarfélagsins hafa verið sett á sölu. Svæðin sem um ræðir eru Leirvogstunga og Helgafellsland, en mikil óvissa hefur ríkt um svæðin eftir efnahagshrun. „Það er mikil eftirspurn eftir húsnæði í bænum,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Það hefur fjölgað í bæjarfélaginu núna eftir hrun og það er mikil eftirspurn eftir öllu húsnæði. Mesti skorturinn er hugsanlega á minni íbúðum, í kringum 100 fermetra eða svo,“ segir Haraldur.

Óbyggðar lóðir í Leirvogstungu eru um 130 talsins og í Helgafellslandi er svæði sem tekur um þúsund íbúðir.

Einna bestu atvinnulóðirnar

Atvinnulóðir við Desjarmýri og Sunnukrika hafa einnig verið settar á sölu. Sunnukriki er við Vesturlandsveginn, en þar aka fram hjá um 25.000 bílar á dag. „Nýlega tókum við ákvörðun um að lækka verðið á þessum lóðum. Við lækkuðum verðið í Desjarmýri um 50% og í Sunnukrikanum um 35%. Með þessu verður til farvegur fyrir störf í bænum, en þarna getur skapast atvinna fyrir hátt í þúsund manns. Við teljum þetta vera einna bestu atvinnulóðirnar sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu í dag,“ segir Haraldur.

Bærinn stendur vel

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hóf strax eftir efnahagshrun að endurskipuleggja fjármál sveitarfélagsins. „Fyrir hrun vorum við fyrst og fremst að greiða niður okkar lán. Við fórum ef til vill enn varlegar í þessum málum en önnur sveitarfélög og keyptum ekki land til gatnagerðar heldur gerðum við samninga um slíkt við landeigendur. Góðærið var notað til þess að grynnka á skuldum en ekki til þess að ráðast í framkvæmdir,“ segir Haraldur.

Nú standa yfir framkvæmdir á nýju hjúkrunarheimili, skóla, slökkvistöð og á þjónustuheimili fyrir aldraða í Mosfellsbæ. Hjúkrunarheimilið er tilbúið en starfsemi hefur ekki hafist vegna þess að ekki hafa náðst rekstrarsamningar á milli Mosfellsbæjar og ríkisins. Nýja slökkvistöðin verður tekin í notkun í lok árs 2014 og mun með tímanum taka við af slökkvistöðinni á Tunguhálsi og því þjónusta norðurhluta Reykjavíkur.

Í Mosfellsbæ hefur fólksfjölgun verið um 1-2,5% á ári eftir hrun, en á árunum 2007-2008 var fjölgun um 8%.