Baldur Þórhallur Jónasson fæddist á Húsavík 26. ágúst 1948. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 31. maí 2013.

Baldur var sonur hjónanna Jónasar Egilssonar sem er látinn og Huldu Þórhallsdóttur. Systkini Baldurs: Egill, látinn, Kristbjörg, Garðar, Hörður og Hulda Jóna.

Baldur kvæntist Ástu Jónsdóttur og eignuðust þau tvo syni, Þórhall og Sigurjón. Fyrir átti Ásta soninn Einar, sem Baldur ættleiddi. Þau skildu.

Hinn 17. ágúst 1991 giftist Baldur Margréti G. Einarsdóttur, f. 30. nóvember 1952, hún á tvö börn, Einar Ólaf og Erlu. Barnabörn þeirra eru 11.

Baldur ólst upp á Húsavík. Baldur gekk í barna- og gagnfræðaskóla Húsavíkur og lauk síðan námi við Samvinnuskólann á Bifröst. Hann starfaði m.a. hjá Kaupfélagi Þingeyinga á Húsavík og útibúi þess í Mývatnssveit ásamt Kaupfélagi Árnesinga. Eftir að Baldur fluttist til Reykjavíkur hóf hann störf hjá verslunardeild SÍS og var verslunarráðunautur þar um árabil, hann vann á Þjóðviljanum og nokkur sumur var hann fararstjóri Samvinnuferða í Danmörku og Kemperwennen í Hollandi. Frá árinu 1988 var Baldur markaðsstjóri á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins þar til hann lét af störfum vegna veikinda árið 2007. Baldur var mikill félagsmálamaður og talsmaður þeirra sem minna mega sín. Hann sat í stjórn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og var formaður þess frá árinu 1990 til 1995 og sat í stjórn Nýrrar raddar –stuðningsfélags til margra ára. Hann var mikill náttúruunnandi og hafði sterkar skoðanir á náttúruvernd. Hann fór ungur í sveit að Syðri-Neslöndum í Mývatnssveit hjá systkinunum Jóni og Sigurveigu og minntist hann þess tíma með mikilli hlýju. Þar kviknaði áhugi hans á veiðiskap sem hann stundaði alla tíð með mikilli ánægju.

Baldur verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 19. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Hún er enn í móðu nóttin sem pabbi kvaddi þennan heim. Baráttan töpuð og tómleikinn hellist yfir.

Það er ekki hægt að lýsa þeim söknuði sem við finnum fyrir á þessari stundu. Fastur punktur í okkar tilveru, kletturinn sem maður gat alltaf treyst á og leitað til er nú ekki lengur hjá okkur.

En eftir lifa óendanlega margar fallegar og traustar minningar um pabba og munu þær fylgja okkur alla daga.

Pabbi var mikill hagyrðingur og átti auðvelt með að setja saman frábærar vísur við nánast öll tilefni. Við bræðurnir höfum ekki verið þekktir fyrir þessa náðargáfu en af veikum mætti settum við saman tvö erindi.

Þetta er fyrir þig pabbi.

Sorgin þung nú á mig sækir

söknuðinn ég finn

streyma stöðugt táralækir

sofnaður er pabbi minn.

Hryggur er og sárt mitt hjarta

horfinn frá mér allt of fljótt

en minninguna á ég bjarta

elsku pabbi góða nótt.

Takk fyrir allar góðu stundirnar pabbi.

Við söknum þín svo mikið.

Þínir synir,

Sigurjón,

Þórhallur og Einar.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

Loks beygði þreytan þína dáð,

hið þýða fjör og augnaráð;

sú þraut var hörð – en hljóður nú

í hinsta draumi brosir þú.

Svo hvíl þig, vinur, hvíld er góð,

– vor hjörtu blessa þína slóð

og Laxárdalur þrýstir þér

í þægum friði að brjósti sér.

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir allt kæri fóstri.

Þinn

Einar Ólafur.

Það er svo óraunverulegt að skrifa minningargrein um þig afi minn en ég veit að nú ert þú komin á góðan stað, fullfrískur talandi um heima og geima með þinni rödd. Ég á svo góðar minningar um þig þar sem við borðuðum buffaló-súkkulaði sem var svo mikið uppáhald hjá okkur, fórum á trúnó á laugardagskvöldum og þegar þú fórnaðir hárinu þínu fyrir frumraun mína með skærin.

Elsku afi minn, ég er ævinlega þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman, þú kenndir mér svo margt um lífið og tilveruna.

Ég veit að einn daginn hittumst við aftur en þangað til reynum við amma að róa okkur sjálfar í dramaköstunum sem þér fannst svo gaman að og áttir svo auðvelt með að leysa. Ég kveð þig að sinni, elsku afi minn, takk fyrir allt og allt.

Þín

Margrét Edda.

Hinsta kveðja frá mömmu, Árholtsbörnum og fjölskyldum þeirra.

Ungur hljóp um allar grundir

ekki taldi sporin sín.

Áttum saman ótal stundir,

í Árholti var mamma þín.

Áður fyrr þá fórum við

með leiðsögn föðurhanda.

Nú hefur opnast himinhlið

til helgra sumarlanda

Björt sú minning býr með okkur

um Baldur kæran Árholtsdreng.

Varla finnst mér vera nokkur

í vandræðum með slíkan feng.

„Laxá og Mývatn verða varin“

voru hans orðsmíðar.

Umhverfinu eiði svarin,

ætíð fyrr – og síðar.

Greiddir götu, lyftir taki,

gafstu okkur ráðin fín.

Ljúf er minning, líf að baki.

„Legg nú aftur augu þín.“

Björt er minning í brjóstum vorum,

berðu kveðju okkur frá.

Þú varst ljós í lífsins sporum,

ljós sem ekki skyggði á.

Þó lífi þínu lokið sé,

þá lifir „okkar Baldur“

Aftur laufgast Árholtstré,

allt er lífsins galdur.

Þökkum fyrir þennan fund

þó stuttur væri aldur.

Nú komið er að kveðjustund,

kæri vinur Baldur.

(Hörður Jónasson)

Hulda Þórhallsdóttir, móðir, og Árholtsfjölskyldan.

Þolinmæði þrautir vinnur allar, þessi orð komu fyrst í huga minn og ljóðalestur þegar ég hugsa til okkar fyrstu kynna elsku Baldur minn, hún einkenndi þig alveg rósemin og þolinmæðin sem þú hafðir. Minnist ég þess alla tíð hvað þú og Magga voruð góð við okkur unglingana og vorum við nú oft fleiri en þrjú, Erla, Einar og ég, á heimili ykkar á Grettisgötunni og alltaf var sama hvað gekk á, því var tekið með rósemi og yfirvegun.

Veiðiferðirnar voru farnar nokkrar á þessum árum og þar var sama þolinmæðin, ég og Magga kannski ekki alveg með þetta til að byrja með en þú kenndir okkur margt þar og að með þolinmæði kemur þetta allt saman.

Tíminn líður hratt og barnabörnin komu í heiminn og ekki komum við að tómum kofanum þar hjá ykkur Möggu, alltaf opið hús fyrir þau þar og er ég svo þakklát fyrir allt sem þið hafið gert fyrir börnin mín þrjú. Þakkir fyrir að kenna þeim líka þína góðu þolinmæði og ljóðalesturinn er okkur öllum sönn ánægja að hafa kynnst frá þinni hendi og fylgir hérna ljóð frá Máney Evu okkar.

Gleði og góðmennska

trú og traust

þökkum guði á himnum

fyrir líf, gleði, vináttu og ást.

Sendi elsku Möggu og ástvinum öllum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Júlíana Kristín.

Vinur er sá, er í raun reynist. Engin lýsing á betur við um Baldur frænda minn Jónasson úr Árholti á Húsavík. Raungóður vinur, hjálpfús og maður sterkrar réttlætiskenndar. Rökfastur, útsjónarsamur og einbeittur baráttumaður í hverju því máli, sem hann taldi rétt. Og því, sem hann taldi vera rétt taldi hann sér skylt að leggja lið. Undir ákveðnu yfirbragði bjó samt hin ljúfa og tilfinningaríka sál, sem helst sást í ljóðum og vísum, enda hagyrtur vel líkt og hann átti kyn til.

Náin vinátta okkar frændanna og félagsskapur var okkur báðum dýrmæt. Báðir trúðum við á kraftaverk. Höfðum séð það áður gerast þegar Baldur greindist með krabbamein í hálsi fyrir meira en áratug. Þá sigraði hann með ákveðni og þrautseigju – og hann gerði meira. Hann helgaði krafta sína því að hjálpa öðrum, sem greindust með sama sjúkdóm og gefa þeim von. Þannig vann þessi hljóðláti stríðsmaður hins góða, – en baráttan tók sinn toll. Heilsa hans sjálfs varð aldrei söm.

Baldur var fróður, minnugur og sagnaglaður. Fróðastur manna um veiði, einkanlega í Laxá í Aðaldal og sögur hans myndrænar og lifandi ljósar. Þegar röddin skertist bættu kímið brosið og glampinn í augunum það upp. Náttúruvernd voru hans hjartans mál, ekki sízt vernd Mývatns. Hann var baráttumegin í stjórnmálum.

Þegar vágesturinn gerði vart við sig á ný fyrir fáum mánuðum, nú í lungum, greip mig kvíði, en Baldur róaði mig og fullvissaði um að hann yrði orðinn heilsuhress í júlí og kæmist með okkur í veiðihópnum norður í Vatnsdal eins og við höfðum gert á hverju ári í aldarfjórðung. Þar yrði enn sungið „úti í húnvetnskri júlínótt“. Baldur átti alltaf von, og hinsta kveðja hans á Fasbókinni í sumarbyrjun var þessi:

Óska gleði öllum þeim

sem eiga von í hjarta;

sunna okkur sækir heim

með sumardaga bjarta.

Harmur og sorg sækja að okkur vinum hans og ættingjum þessa daga, en það er gott til þess að vita að minning Baldurs, ljúf og hlý, mun um ókomin ár sækja okkur heim, líkt og sól um sumardaga bjarta. Farðu í friði, frændi minn og vinur.

Bjarni Sigtryggsson.

Skjótt hefur sól brugðið sumri nú þegar Baldur í Árholti á Húsa

vík, nágranni á uppeldisárum og góðvinur fullorðinsára, er fallinn í valinn á góðum aldri. Hugurinn hvarflar til áhyggjulausra æskuára stórs hóps barna og ungmenna á Rauðatorgi upp úr miðri síðustu öld. Þar ólst Baldur upp í glöðum hópi sex systkina, var í sveit nokkur sumur í Syðri-Neslöndum í Mývatnssveit og átti þaðan góðar minningar. Í fyrrahaust naut ég stundar með Baldri og Huldu móður hans við Árholt, en þangað kom hann jafnan nokkrar ferðir á ári meðan heilsa leyfði. Við rifjuðum upp liðin ár og litum fram á veginn, en heilsuleysi varnaði honum þá tístandi hlátursins, sem mér finnst ég þó heyra nú er ég legg við hlustir. Er ég gekk af fundi þeirra mæðgina læddist að mér að þetta kynni að hafa verið síðasta spjall okkar Baldurs hérna megin grafar, svo skammt fannst mér hann eiga ófarið leiðarinnar.

Eftir æskuárin dreifðist hópurinn frá Rauðatorgi til hinna ýmsu starfa vítt og breitt, en hugur Baldurs hneigðist til verslunar og eftir samvinnuskólanám fór hann til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Þar lagði hann grunninn og starfaði á þeim vettvangi eftir það. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann var orðinn sagnamaður og sagði okkur æskufólki sögur úr sveitinni. Fór hann þá oft með himinskautum að okkur fannst, slíkir afreksmenn byggðu sveitina norðan Mývatns. Máttum við okkar lítils á þessum árum sem frændgarðinn áttum nánastan sunnan vatns. Baldur varð líka snemma virkur í pólitískum þrætum okkar ungra manna kaldastríðsáranna sem körpuðum eins og þjóðin öll um ágæti eða ódáðir þjóðaleiðtoga ýmissa. Áttum við sumir á brattann þegar verjast þurfti spjótalögum Balla þá deilt var á sviði alþjóðamála.

Hann þekkti snemma alla sveitamenn með nafni sem hingað komu í kaupstaðarferð og var þeim innanhandar um ýmis viðvik og snúninga. Hann var söngvinn, en ekki að sama skapi lagviss, en það gerði ekkert til því þá eins og nú söng hver með sínu nefi. Hagorður var hann og orti talsvert í seinni tíð enda stutt í skáldæðina. Þess nýtur Átthagafélag Torgara því fyrir nokkrum árum orti Baldur brag til ungra, aldinna og genginna íbúa þess svæðis sem frumfluttur var á Torgarahátíð við þekkt sönglag. Og svo var húmorinn Baldri jafnan innanhandar og honum fór eins og okkur mörgum sem vildum sitja sólarmegin í tilverunni og bergja á hverju epli í aldingarði jarðlífsins, líka þeim sem voru forboðin.

Ég fregnaði um daginn að stutt væri eftir vistarinnar hér og víst hefur hann vitað um hríð að hann væri kominn „að vaðinu á ánni“. „Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða“. „Það var sól yfir hafi. Það var lágnættissól – kvölds og morgunsól í senn.“ Hann var ferðbúinn, og þar kom að kvatt var dyra og hvíslað að nóg væri glímt, og hvað þýddi þá að mögla? Slíkra er gott að minnast. Við systkini og fyrrum nágrannar Árholtsfjölskyldu sendum eiginkonu, afkomendum, aldraðri móður, systkinum og öllum hans nánustu samúðarkveðju.

Kristján Pálsson.

Vinátta okkar við Baldur Jónasson var samofin og nátengd. Víða lágu leiðir saman. Þannig áttum við öll tengsl við Ríkisútvarpið, annað okkar sem starfsmaður, hitt sem stjórnarmaður, en sjálfur var Baldur starfsmaður Ríkisútvarpsins um langt árabil – ætíð hliðhollur þeirri stofnun og hún oftast honum, ekki síst þegar á reyndi og alvarleg veikindi hans fóru að gera vart við sig. Við vorum um skeið öll samstiga í réttindabaráttu launafólks en Baldur var um árabil formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og lét til sína taka á vettvangi kjarabaráttunnar þar sem okkur var einnig að finna.

En svo voru það stjórnmálin. Saman stóðum við að stofnun Stefnu, félags vinstri manna, undir síðustu aldamót, þegar okkur þótti tími til að hefja upp seglin svo vinstri vindar mættu blása í þau. Stefna, félag vinstri manna lagði grunninn að Vinstrihreyfingunni grænu framboði fyrir þann stóra hóp sem ekki kom úr röðum flokksmanna Alþýðubandalagsins. Það var óflokksbundið fólk, fólk úr kvennahreyfingunni og verkalýðshreyfingu og víðar að.

Vorið 1998 efndi Stefna þannig til málfunda um umhverfismál, utanríkismál, jöfnuð og jafnrétti, alla þá þætti sem VG átti eftir að byggja á enda tók það fólk sem aðild átti að Stefnu, meira og minna allt þátt í stofnun hreyfingarinnar.

Merki Stefnu sýndi þrjá glæsilega svani sem flugu til vinstri. Einhver hafði á orði að á bréfsefni væri það ekkert sérstaklega framfarasinnað á að líta, að sjá þessa fugla frelsisins fljúga til vinstri en ekki eins og lesaugað ber okkur. Væri það ef til vill ætlunin að fara aftur á bak; halda til fortíðar? Við kærðum okkur kollótt, enda margt gott að finna í arfleifð liðins tíma sem væri ómissandi við smíði framtíðarinnar. Aðalatriðið væri að vera trú gildum félagshyggju og vinstristefnu.

Í þessu starfi var Baldur Jónasson mikill gerandi, kappsfullur, hugmyndaríkur og alltaf skemmtilegur. Hann var mjög vel hagmæltur og kunni góð skil á sögunni. Ást hans á landi okkar og menningu birtist meðal annars í ötulli baráttu hans nú nýlega fyrir því að íslenska ríkið keypti Grímsstaði á Fjöllum svo sú mikla jörð hafnaði ekki í erlendum auðmannshöndum. Hans hlutur fór ekki hátt fremur en í mörgu öðru en var afgerandi engu að síður. En ofar öllu var Baldur góður vinur og traustur. Það var gott að leita hjá honum ráða. Og það gerðum við oft.

Ótal stundirnar höfum við átt saman, en eftirminnilegastar eru þær sem við áttum í sumarbústað þeirra Margrétar á Þingvöllum, þar sem farið var í berjamó og síðan grilluð eðal-bleikja í góðra vina hópi. Í upphafi aðventu komu Baldur og Margrét á þeim sið að hittast yfir góðum mat og drykk.

Baldur var vinmargur maður. Fólki fannst gott að vera nálægt honum, enda lagði hann alltaf gott til mála. Hvað í honum bjó sýndi Baldur best þegar heilsa hans brast. Aldrei var hans eigin líðan honum efst í huga heldur hvernig lífið léki aðra.

Að Baldri Jónassyni er mikil eftirsjá. Hans verður sárt saknað.

Svanhildur Kaaber og Ögmundur Jónasson.

Það var erfitt símtal sem beið okkar þegar við fjölskyldan lentum í Þýskalandi og í símanum var Magga að tilkynna okkur lát Baldurs. Við höfðum kvatt hann kvöldinu áður á gjörgæsludeildinni, en við vonuðum það besta og ætluðum að hitta hann eftir helgi og sýna honum myndir frá ferðinni.

Það síðasta sem hann sagði við okkur var „dolluna á loft “ og átti þá við að Kiel myndi vinna meistaradeildina í handbolta, en Baldur var ákafur stuðningsmaður landsliðsins í handbolta og þeirra liða sem Guðjón Valur spilaði með. Það var venja þegar sjónvarpað var frá leikjum í þýsku deildinni að hringja í Baldur og bjóða honum að horfa með okkur, núna síðast í maí kom hann, þó mikið veikur væri. Ef leikjum var ekki sjónvarpað þá bað hann um hjálp við að leita að útsendingu á netinu. Hann lifði sig inn í leikinn og þá sérstaklega hin síðari ár eftir að heilsunni hrakaði.

Þegar litið er yfir farinn veg er svo margs að minnast og líf okkar allra hefur verið samtvinnað lífi Möggu og Baldurs um áratuga skeið. En til marks um það hversu mikil samskipti okkar hafa verið þá fórum við öll fjögur saman í brúðkaupsferðina okkar Rúnars árið 1990.

Við kynntumst Baldri árið 1987 þegar hann var fararstjóri í Kempervennen í Hollandi. Síðar urðu Magga og Baldur hjón og var það mikil gæfa fyrir alla fjölskylduna að hafa kynnst slíkum eðalmanni sem Baldur var.

Baldur var fróður og bóngóður svo af bar. Oft var hringt og spurt: „Baldur minn við erum að fara í afmæli, áttu vísu?“, eða „vinnan er að halda árshátíð, áttu vísur við lagið...“ o.s.frv., alltaf var tekið vel í slíkar beiðnir og vísur komnar innan tíðar. Ekki þurfti að hafa áhyggjur af því að stuðlar, höfuðstafir væru réttir, Baldur kunni þetta allt. Fallegar vísur geymum við sem hann orti við ýmis tækifæri í fjölskyldunni. Eftirfarandi vísu orti hann og flutti við skírn Guðbjargar Láru, guðdóttur sinnar:

Eitt er hafið æviskeið,

okkar jarðarbarna,

megi gæfa lýsa leið,

litla óskastjarna.

Það er við hæfi að skrifa þessar línur um Baldur hér í sumarbústaðnum okkar fjölskyldunnar við Þingvallavatn og minnast þeirra góðu stunda sem við höfum átt með honum hér. Margsinnis hafa vinahópar komið í bústaðinn, farið í göngur um nágrennið og síðan boðið til veislu á eftir, alltaf gaman.

Eftir að Baldur greindist með krabbamein árið 1999 var ótrúlegt hversu þrautseigjan var mikil, hann hélt áfram að vinna hjá RÚV og sinna áhugamálum sínum eins og ferðalögum og veiðiskap.

Það er erfitt að átta sig á að Baldur sé farinn, hann snerti svo marga þætti lífs okkar allra, sumarbústaðurinn, ferðalögin, handboltinn, fjölskyldan, börnin, vinirnir, allt hefur þetta verið hluti af okkar daglega lífi saman og er stórt skarð höggvið í hópinn. Við munum halda minningu Baldurs á lofti á svo margan hátt og þökkum honum samfylgdina um leið og við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til móður hans Huldu og fjölskyldunnar allrar.

Hvíl í friði, okkar kæri Baldur.

Guðrún, Rúnar, Guðjón Valur, Þóra og börn, Guðbjörg Lára, Björgvin.

Baldur Jónasson var fágæti af manneskju að vera. Hann var einstakur vinur og í senn mikil félagsvera. Hann var ekki einasta hagmæltur og festi augnablikið listilega í fjórum línum heldur snerti hann hörpu sína þannig að aðeins hæfði skáldi.

Baldur var höfðingi heim að sækja og til viðtals um flesta hluti. Hann var hreinskilinn og sá ég aldrei draga niður í honum nema ef honum fannst vinstri grænir ekki standa undir nafni. En jafngaman og það var að eiga við hann orðastað var líka gefandi að þegja með honum. Þá létum við þögnina umvefja okkur með einstaka lagi með karlakórnum Hreimi og ef til vill liðaðist vægur viskíduftur um loftið.

Baldur var mikill náttúrusinni, bæði til verndar og veiða. Rjúpan ropaði í heiði og laxinn lék sér í ánni og landið breiddi faðm sinn á móti þessum ljúflingi sem umgekkst allt og alla af virðingu. Það voru mikil forréttindi að mega teljast til vina Baldurs og ef við finnumst ekki í næsta himnaríki veit ég að hann bíður mín í næstu Atlavík við fljótið mikla.

Blessuð sé minning Baldurs Jónassonar.

Freysteinn Jóhannsson.

Kraftur náttúrunnar er mestur á vorin, þegar gróðurinn lifnar af vetrardvala, birtan tekur völdin og laxinn leitar uppeldisstöðva. Hringrás lífs og dauða.

Þegar Baldur vinur okkar kvaddi þennan heim var vornóttin björt fyrir norðan – árniður í dalnum, fuglasöngur og ilmandi kjarr í þingeyskri sveit, þar sem sögur hans og ljóð áttu uppruna sinn.

Baldur bar ekki aðeins nafn hins bjarta áss, heldur líka svipmót og fas. Ljós yfirlitum með gáfublik í auga, rólegur í fasi og alvörugefinn. Þannig kom hann okkur fyrir sjónir þegar fundum bar fyrst saman sumarið 1987 í Hollandi. Hann var þá fararstjóri en við vorum ferðalangar með fjögur börn. Strax á flugvellinum fangaði hann athyglina, öruggur í fasi með auga á hverju úrlausnarefni, boðinn og búinn til aðstoðar. Þarna tókust góð kynni sem nokkrum árum síðar innsigluðust í lífslanga vináttu, þegar Baldur og Margrét vinkona okkar gengu í hjónaband 1991.

Baldur var góður félagi og mikill vinur vina sinna. Hjálpsemi hans var einstök, ekki síst við þá sem lífið fór um ómjúkum höndum, vakinn og sofinn yfir velferð þeirra sem hann tók að hjarta sínu. Hann var maður með ríka réttlætiskennd og áhuga á þjóðmálum. Marga rökræðuna tókum við um landsins gagn og nauðsynjar – ekki alltaf sammála um leiðir, en samhuga um markmið og gildi. Við skynjuðum fljótt, að maðurinn hafði ýmislegt reynt. Einmitt þess vegna gat hann gefið svo mikið. Hann veitti óspart af gnægtabrunni sagna og ljóða um náttúru Þingeyjarsýslu, af laxveiði í drottningu íslenskra áa í Aðaldal, úr sveitinni við Mývatn og af minnisverðu fólki hvort sem var frá Húsavík eða fjarlægum löndum. Heimamaður og heimsmaður, það var Baldur. Sama hvar borið var niður, aldrei var komið að tómum kofa hjá Baldri.

Baldur greindist með krabbamein og gekkst undir erfiða aðgerð 1999 þegar fjarlægð voru raddbönd hans og barki. Hann þurfti að þjálfa nýja taltækni með „nýrri rödd“ og tókst það svo vel að undrum sætti. Afleiðingum aðgerðarinnar tók hann með aðdáunarverðu æðruleysi. Þá, líkt og síðar, kom það í hans hlut að vera sá sterki, sá sem hughreysti sorgbitna ástvini og taldi í þá kjark og von.

Baldur var næmur á umhverfi sitt og næmur fyrir fólki. Dagfarsprúður, barst ekki mikið á, en húmoristi og gladdist með glöðum. Skáldmæltur var hann eins og hann átti kyn til og eftir hann liggur mikið magn lausavísna og kvæða sem hann greip ósjaldan til á góðum stundum. Þannig naut hann sín best: Í töfrum orðanna, bundnum í ljóð eða óbundnum í rökræðum, þegar hugurinn hóf sig til flugs yfir daglegt amstur. Sagan og lífið fléttuð saman í eina heild.

„Margs er að minnast – margt er hér að þakka.“ Erfiðu sjúkdómsstríði er nú lokið. Í því stríði sýndi Baldur styrk sem fáum er gefinn.

Eitt mun þó dauðinn aldrei ná að vinna:

Orðstír sem sprottinn er af sönnum toga.

Minning þín hlý í hugum vina þinna

og hjörtum lifir, eins og bjarmi af loga.

(Ólína Þorv.)

Sál hefur vitjað skapara síns, og laxinn er genginn í ána.

Blessuð sé minnig góðs vinar.

Ólína Þorvarðardóttir,

Sigurður Pétursson.

Þá sveiflar Baldur vinur okkar Jónasson ekki lengur veiðistönginni sinni á silungasvæðinu í Vatnsdalsá eins og hann hefur gert með okkur félögunum nú í mörg undanfarin ár. Hann bættist í hópinn sem útvarpsmaður eins og margir aðrir og í fyrstunni hafði ég það á tilfinningunni að honum þætti kannski ekki mikið til árinnar koma, því hann hafði þá um margra ára skeið stundað veiðar í sjálfri Laxá í Suður-Þing með föður sínum og fleirum. Hann var þó fljótur að átta sig á margbreytileika árinnar og ekki síður að njóta þeirrar náttúru og félagsskapar sem veiðiferðirnar buðu upp á. Baldur var líka veiðimaður af guðs náð og það var aðdáunarvert að sjá hann sveifla stóru og miklu stönginni sinni með ABU hjólinu og reyndar var það sama uppi á teningnum hvar borið var niður við veiðiskapinn og hvaða agn sem notað var, alltaf kunni hann réttu tökin.

Það má segja að hann hafi haldið utan um veiðihópinn fljótlega eftir að hann kom í hann, sá um sambandið við fulltrúa árinnar, greiðslur til þeirra, innheimti leiguna hjá okkur og svo var það hans hlutverk í veiðiferðum að jafnað niður matarkostnaðinn svo allir gengju sáttir frá borði. Þar kom greinilega í ljós hve reikningsglöggur hann var og ekki skemmdi rithöndin fyrir.

Til þess svo að kóróna allt orti hann Vatnsdalsbraginn sem hljómar svo í byrjun:

„Þegar sólin að hafinu hallar

hugur leitar á Vatnsdælaslóð.

Hann er sterkur sá kraftur sem kallar,

kraumar ólgandi veiðimannsblóð.“

Hér er aðeins hluti af ljóði Baldurs sem við höfum kyrjað mörg undanfarin sumur, með eða án undirleiks tónsnillinga í okkar röðum.

Þetta er auðvitað ekki eini kveðskapur hans, því eftir Baldur liggja margskonar ljóð og lausavísur enda afi hans hinn margrómaði hagyrðingur Egill Jónasson á Húsavík.

Baldur Jónasson var náttúrubarn, sem unni íslenskri náttúru og hafði næma tilfinningu fyrir henni – þá ekki síst lífinu í ám og vötnum – að ekki sé minnst á rjúpuna, enda borinn og barnfæddur Þingeyingur. Hann var staðfastur í sínum skoðunum og fór ekki leynt með þær. Hann var maður réttlætis og brást við þegar honum fannst gengið á hlut þeirra sem minna mega sín. Kom þetta líka vel fram í pólitískum skoðunum hans þar sem hann var eindreginn vinstrisinni.

Baldur varð fyrir margskonar heilsufarslegum hremmingum á undanförnum árum, og það var með ólíkindum hvað hann stóð þetta allt af sér þar til í vetur og vor. En þótt á móti blési þá, var hann ekkert á því að gefast upp – takmarkið var að komast í Vatnsdalinn enn og aftur, en í stað þess mun andi hans svífa þar yfir vötnunum þegar við veiðifélagarnir söfnumst þar saman enn á ný „Þegar sólin að hafinu hallar“ eins og hann komst svo snilldarlega að orði.

Að lokum færum við Margréti, börnum, fósturbörnum, aldraðri móður og öðrum ættingjum samúðarkveðjur vegna fráfalls góðs drengs.

Kári Jónasson.

„Og það voru hljóðir og hógværir menn,

sem héldu til Reykjavíkur“.

Það er vel við hæfi að vitna til eins af höfuðskáldum þjóðarinnar þegar við minnumst fallins skólafélaga og bekkjarbróður, sem í dag er til moldar borinn nokkru um aldur fram miðað við algengan ævialdur, en ef til vill umfram væntingar miðað við það heilsufar sem almættið úthlutaði honum fyrir u.þ.b. 15 árum. Þessi fallni skólafélagi, sem öðrum fremur unni ljóðagerð og þeirri list sem fólgin er framsetningu sagna og lífsgilda með höfuðstöfum og rímorðum.

Það má vafalaust efast um hógværð þess hóps sem safnaðist saman í Umferðarmiðstöðinni í Reykjavík til að fá far með Norðurleiðarrútunni upp að Bifröst í Borgarfirði þar sem við höfðum innritast til náms haustið 1970. Ekki verður þó um það deilt að það var hljóður og eftirvæntingarfullur hópur sem hélt áleiðis til Bifrastar á vit þess samfélags sem okkar beið þar. Í þessum hópi var Baldur Þórhallur Jónasson. Hann kom að norðan nánar tiltekið frá Húsavík. Hann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, hrokkinhærður og skarpleitur. Baldur var frekar í eldri kanti þeirra nemenda sem hófu nám við Samvinnuskólann að Bifröst haustið 1970. Hann hafði um nokkurra ára skeið verið á vinnumarkaði, m.a. starfað í Reykjavík og á þann hátt kynnst því frelsi sem upphaf fullorðinsáranna býður upp á. Það hefur því verið ábyrg og raunsæ ákvörðun Baldurs að innritast í Samvinnuskólann að Bifröst til að vera betur búinn undir lífið sem blasti við okkur öllum á þessum árum án takmarkana. Lífið að Bifröst var um margt merkilegt. Þar giltu strangar samfélagsreglur. Giltu þær bæði um skipulag á tíma til náms og athæfis í frístundum svo sem um klæðaburð o.fl. Þátttaka Baldurs var með öllu án vansa í þessu samfélagi. Hann skilaði sínum námsverkefnum eins og til var ætlast, en lífsgildi hans voru að mörgu leyti önnur en gekk og gerðist hjá skólafélögunum. Fótboltaleikir eða aðrar íþróttaiðkanir voru ekki hans áhugamál, en þegar kom að undirbúningi á kvöldvökum sem var fastur liður í félagsstarfi á Bifröst þá var Baldur ávallt reiðubúinn að lesa upp ljóð eða skrifaðan texta með áminningu um að lífið væri margvíslegt. Baldur var aldrei að flýta sér, hann naut hverrar stundar og ræktaði áhugamál sín sem voru umfram allt ljóðagerð og samferð með íslenskri náttúru. Veiðiferðir á bökkum Laxár í Aðaldal, eða rölt um Þeistareyki með byssu um öxl voru honum mikið ánægjuefni.

Um leið og við sendum Margréti, sonum hans og ástvinum öllum okkar dýpstu samúðarkveðjur, þökkum við samfylgd með góðum dreng sem nú hvílir í friði.

Fyrir hönd bekkjarsystkina úr Samvinnuskólanum að Bifröst 1970-72,

Valdimar.

Kær vinur okkar Baldur Jónasson er farinn frá okkur. Fyrir tuttugu og þremur árum ákváðu fjögur frændsystkini og makar að halda sameiginlegt þorrablót sem tókst það vel að framhaldið var ráðið. Baldur hennar Möggu okkar var einn hlekkur í átta manna hópi, skemmtilegur, pólitískur og naut þess að stríða þeim í hópnum sem höfðu aðrar skoðanir á landsmálum. En fyrst og fremst einlægur vinur sem okkur þótti svo vænt um. Við vottum Möggu, drengjunum hans, fósturbörnum og barnabörnum samúð okkar. Við eigum eftir að sakna hans mikið.

Guðrún og Sigurjón,

Halla og Haraldur.

Við fráfall Baldurs Jónassonar er stórt skarð höggvið í raðir félagsmanna Nýrrar raddar, sem er stuðningsfélag þeirra sem misst hafa raddbönd og barkakýli, en Baldur var í stjórn félagsins um áraraðir. Baldri kynntist ég síðla hausts árið 1999 þegar hann gekkst undir skurðaðgerð á hálsi. Á þeim tíma heimsótti ég hann á vegum stuðningsfélagsins meðan sjúkrahúsdvöl hans stóð, en sjálfur hafði ég þremur árum áður gengist undir sams konar aðgerð.

Fljótlega tókst með okkur hjónum, Ingibjörgu konu minni og Baldri og Margréti konu hans, einlæg og kærleiksrík vinátta sem aldrei bar skugga á. Ekki leið langur tími þar til Baldur var kominn á fullt skrið í stjórn Nýrrar raddar, þar sem hann miðlaði öðrum af reynslu sinni og þekkingu og heimsótti og styrkti þá sem þurftu að gangast undir aðgerð.

Það að missa talfæri og rödd, og þar með sjálfa frumtjáningu mannsins, er meira en að segja það. Baldur hafði fyrir aðgerðina verið þekktur fyrir mikla frásagnarhæfileika og var um leið bæði hnyttinn og glettinn. Jafnframt var hann skáld gott. Því má vel ímynda sér hversu mikið hann missti þegar hann fyrir nær því fjórtán árum vegna krabbameins í hálsi þurfti að gangast undir skurðaðgerð.

En Baldur tók þessu með æðruleysi og á undraverðan hátt náði hann þó slíkum tökum á hinni nýju rödd sinni að eftir var tekið og fangaði hann bæði blæbrigði og karakter sem svo einkenndu hann áður. En þetta lýsir einmitt Baldri, hann tókst jafnvel á við ómögulegar áskoranir og hafði betur.

Ég veit að þrautseigju og þor hafðir þú í ríkum mæli, en ekki síður var í því fólginn styrkur þinn að eiga Margréti konu þína að. Það vill einmitt gleymast að þeir sem standa þeim næst sem mest þjást, þjást ekkert minna, en þurfa engu að síður að harka af sér og standa af sér raun og vonbrigði þess sem maður elskar og þrátt fyrir allt og í gegnum allt, sýna ekki veiklundargeð.

Með trega og söknuði kveðjum við þig og við vitum ekki alveg hvernig við eigum að halda áfram starfi okkar í Nýrri rödd, án þín. Ég vona að við berum gæfu til að geta borið áfram merki hugsjóna þinna með þeim hætti að þér þætti sómi að. Slíkt væri verðugt.

Við kveðjum þig, kæri vinur, og Margréti og fjölskyldunni sendum við okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Ragnar og Ingibjörg.

Nú þegar sumarsólstöður eru á næsta leiti fellur í valinn drengur góður og félagi vor að fornu og nýju, Baldur Jónasson frá Árholti á Húsavík. Það er fuglasöngur í lofti og dagarnir eins og þeir gerast bjartastir og fegurstir þá sólin speglar Skjálfanda er hann nú hleypir heimdraganum og vindurinn seglin þenur. Fyrir hartnær tveim áratugum þegar íbúar Rauðatorgs fyrr og nú stofnuðu með sér átthagafélag og efndu til samkomu þar að lútandi, þá var Baldur að sjálfsögðu í þeim hópi. Seinna færði hann félagsskapnum frumort ljóð sem við syngjum á Torgaramótum við þekkt lag:

Torgið vort fóstraði meyjar og menn

og menning og dugnaður ríkir hér enn,

því andi þess fólks sem að byggði þar bú

var brauð okkar Torgara fyrrum og nú.

Hæ dúllía...

Hér gengum við æskunnar óræðu spor

því eilíft var þá þetta bernskunnar vor,

sem ríkti svo lengi og ríkir í kvöld

þó Róm hafi fallið á síðustu öld.

Hæ dúllía...

Hér stigum við unglingsins óþekkta dans

að endingu komust við þannig til manns,

að tigna það fólk sem á Torginu bjó

og trúa á land okkar himinn og sjó

Hæ dúllía...

Ennþá við sækjum í sælunnar reit

í sálinni minningin lifir svo heit,

því Torgið er æskunnar ógleymisland

og ekkert í heiminum slítur það band

Hæ dúllía...

Þessi stund og aðrar slíkar minna okkur á það sem við Torgarar eigum sameiginlegt öðru fólki, að í fyllingu tímans stöndum við eitt af öðru misvel ferðbúin er við hlýðum kallinu. Að leiðarlokum kveðjum við nú einn þjóðnýtan Þingeying „og þéttan og sannan Íslending“. Eiginkona, börn, öldruð móðir og allt hans nánasta fólk á samhygð okkar.

Fyrir hönd Átthagafélags Torgara,

Ingólfur Freysson

og Kristján Pálsson.

Við andlát Baldurs frænda míns verður mér hugsað til unglingsáranna þegar ég var hjá Óla föðurbróður mínum og Ingu konu hans á sumrin og vann með þeim í Kristinsbúð eða Klemmu, eins og hún var kölluð og síðar í Búrfelli. Á þessum sumarárum var ég að kynnast Húsavík upp á nýtt eftir að hafa búið á Patreksfirði í um sex ár. Við Baldur vorum systrasynir og jafnaldrar og fjölskyldur okkar beggja barnmargar. Samskipti mín við Baldur og fjölskylduna í Árholti voru töluverð á þessum tíma. Eins og gengur hjá unglingum þá liðu dagarnir áhyggjulaust við vinnu, leik og skemmtanir. Hvorugur okkar var mikið í íþróttum en við áttum mörg sameiginleg áhugamál og höfðum margt við að vera, fórum m.a. í útilegur, á skemmtanir og sveitaböll þegar við höfðum aldur til. Þetta voru góðir tímar.

Eftir að ég hætti að vinna á Húsavík urðu samskipti okkar stopulli. Engu að síður hittumst við í fjölskylduboðum og á Langholtsveginum hjá móðursystrum okkar, Önnu Siggu og Nönnu. Þar hefur löngum verið sá staður þar sem móðurættin hittist og frétta aflað.

Baldur var íhugull og vel meðvitaður um kveðskap eins og hann átti kyn til þar sem föðurafi hans var Egill Jónasson skáld og hagyrðingur. Hann var með vísur hans á hraðbergi þegar þess þurfti. Sjálfur fékkst hann við þessa iðju eftir að hann fullorðnaðist. Til að mynda orti hann fallegt ljóð og eftirmæli við lát Egils bróður síns þegar hann lést af slysförum 2. júlí 2005.

Baldur var rólyndur maður sem barst ekki mikið á en glaðsinna og skemmtilegur. Hann hafði gaman af að segja frá og gerði það oft og frásagnir hans voru lifandi og kryddaðar fróðleik um það sem tengdist frásagnarefninu. Þá má einnig nefna að hann hafðu unun af að veiða á stöng, bæði lax og urriða. Ekki þurfti heldur langt að sækja þvi Laxá í Aðaldal var skammt undan en umhverfi hennar er einstaklega fallegt og friðsælt. Þar var hægt að láta hugann reika og velta fyrir sér ráðgátum lífsins.

Baldur veiktist fyrir mörgum árum og þurfti að haga lífi sínu í samræmi við þau veikindi og eins og við var að búast tók hann því af æðruleysi.

Hagleiksmaður hallar nú

höfði sínu að kodda.

Sálin fær að fornri trú

ferju að næsta odda.

(SA)

Ég minnist af hlýhug þessa góða drengs og sendi fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Sveinn Arason.

Baldur Jónasson var gæddur mörgum góðum eiginleikum. Þegar ég hóf störf hjá Ríkisútvarpinu haustið 1997 varð ég fljótt var við að Baldur hafði góða kunnáttu á því viðfangsefni sem mér var falið að leysa af hendi á auglýsingadeildinni. Baldur miðlaði kunnáttu sinni óspart og var mér ómetanlegur stuðningur á fyrstu dögum og vikum í starfi. Innan árs var ég orðinn yfirmaður Baldurs en við vorum alltaf jafningjar í samskiptum okkar enda var Baldur mentor og mikils metinn í auglýsingafaginu.

Baldur var fróður maður og víðlesinn og þekkti landið sitt flestum betur. Jólakveðjur Ríkisútvarpsins voru sérgrein Baldurs enda nýttust hæfileikar hans þar vel. Hann var íslenskumaður góður og hagyrðingur af Guðs náð. Hann lagði mikið upp úr því að auglýsingar væru á góðri íslensku og hikaði ekki við að stöðva flutning þeirra ef honum fannst málfarið ekki standast ýtrustu kröfur. Á auglýsingamarkaði vinna menn gjarnan með veltutengdan afslátt en Baldur gaf aldrei neinn afslátt af íslenskunni enda var hann í eðli sínu fastur fyrir.

Baldur veiktist alvarlega árið 1999. Það var hreint með ólíkindum hvernig hann nálgaðist veikindi sín. Baldur hafði greinst með krabbamein í raddböndum og fór fljótlega í erfiða geislameðferð. Síðar var hann skorinn upp og barkakýlið fjarlægt. Þetta þýddi að Baldur var orðinn raddlaus og þurfti því að læra að tala að nýju í gegnum ventil á hálsinum. Við vinnufélagarnir reiknuðum með langri fjarveru Baldurs frá störfum. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til Baldur var mættur aftur til vinnu, fulltalandi, sem var einstakt afrek. Þessi framganga er gott dæmi um viljastyrk hans.

Árið 2007 þurfti Baldur að láta af störfum, að læknisráði, eftir nær tveggja áratuga starf hjá Ríkisútvarpinu. Ég hygg að þessi niðurstaða hafi verið honum afar þungbær en sem fyrr lagði hann sig fram um að aðlagast breyttum og erfiðum aðstæðum. Hann sýndi okkur gömlu vinnufélögunum ræktarsemi og heimsótti okkur reglulega, jafnan glaður í sinni þótt heilsan væri ekki alltaf upp á það besta. Baldur var sannur vinur vina sinna. Þess er skemmst að minnast þegar hann stóð fyrir söfnun fyrir fjölskyldu Ólafs heitins Þórðarsonar á erfiðum tímum. Þar sýndi Baldur vel hvaða innri mann hann hafði að geyma.

Í síðasta skiptið sem Baldur heimsótti okkur, sem var fyrr á þessu ári, sagði hann frá því að hann hefði greinst aftur með krabbamein. Hann sagði jafnframt að þetta væri ekki til að hafa áhyggjur af þar sem „krabbinn væri skurðtækur“. Ekki veit ég hvort hann sagði þetta til að róa okkur, en það hefði verið honum líkt. Baldur lést svo síðasta dag maímánaðar eftir hetjulega baráttu við illvígan andstæðing. Eftir lifir minningin um góðan dreng sem tók örlögum sínum af æðruleysi.

Fyrir hönd okkar vinnufélaganna vil ég votta eiginkonu, börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum einlæga samúð. Fyrir hönd Ríkisútvarpsins vil ég nota tækifærið og þakka Baldri fyrir þau ár sem hann gaf því.

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð

minning örmum vefur

þá fær að hljóma lífsins ljóð

og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl

hún yfir sorgum gnæfir

því alltaf verða tónar til

sem tíminn ekki svæfir.

(Kristján Hreinsson)

Þorsteinn Þorsteinsson,

framkvæmdastjóri markaðssviðs RÚV.

Það var sannur heiður að fá að kynnast Baldri. Ég veit nú ekki alveg hvað hann hefur haldið þegar afastelpan hans kom fyrst með mig í mat til hans, ungan sjálfstæðismann með derhúfuna afturábak. En alltaf höfðum við eitthvað um að spjalla, hvort sem það var pólitík, veiði eða einfaldlega lífið og tilveran. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir góðsemi hans og stuðning sem hann hefur sýnt Margréti Eddu í gegnum árin. Það er mikil synd að þurfa kveðja hjarthlýjan, jákvæðan, sterkan og góðan mann allt of snemma.

Valgeir Gunnlaugsson.

HINSTA KVEÐJA

Mig vantar orð til að þakka þér,
í þögninni geymi ég bestu ljóðin,
gullinu betra gafstu mér,
göfuga ást í tryggða sjóðinn
og það sem huganum helgast er,
hjartanu verður dýrasti gróðinn.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Þín

Margrét.

Til afa.
Það er sagt að minningin lifi lengst og því eigi maður að gera sitt besta til að gera þær góðar. Þú, afi minn, gerðir það svo sannarlega. Okkar minningar eru allar bjartar.
Þín
Máney Eva.