Sigrún Þuríður Bjarnadóttir fæddist á Höfn í Hornafirði 11. apríl 1928. Hún lést á Hrafnistu í Kópavogi 27. maí 2013.

Sigrún var jarðsungin frá Áskirkju 6. júní 2013.

Ég verð ekki sátt við sjálfa mig, nema að skrifa fáein orð um hana Sigrúnu.

Við vorum nágrannakonur í 25 ár. Hún Silla, eins og hún var alltaf kölluð, var undursamlega góð manneskja.

Ég gleymi því aldrei þegar hún kemur, og býður mig velkomna í götuna, þegar við Magni, ásamt þremur börnum okkar, fluttum í þessa götu, sem var mjög sérstök. Þetta var mjög notalegt fyrir mig, og þegar ég kynntist Sillu betur, fann ég að svona var hennar háttalag, í viðmóti, alltaf blíð, góð og brosandi.

Við áttum heima í parhúsi í Norðurbrún. Einar og Silla númer 18 og við 16. Þau voru dásamlega gott fólk.

Svo verð ég að minnast á félagsskapinn, sem var Viðeyjarklúbburinn okkar nágranna í þessum góðu götum, og Einar og Silla voru náttúrulega aðalmanneskjurnar í þessum ferðum, og það var alltaf svo gaman og auðvitað komu börnin okkar allra með, sem vildu koma.

Einar skipstjóri kom okkur öllum út í Viðey, og það eru svo eftirminnilega skemmtilegar þessar ferðir. Eyjan var gengin og skoðuð öll og ef ekki viðraði vel þá var bara tjaldað, en í minningunni var alltaf gott veður, og alltaf mikið hlegið og mikið gaman. Góður og mikill matur hjá Einari og Sillu og fleirum á grillunum.

Nú sakna ég þessa yndislega, góða fólks. Nú eru þau bæði farin, en ég á svo góðar minningar og það er svo dýrmætt.

Megi blessun fylgja þeim og öllum börnum og afkomendum þeirra.

Steinunn Guðlaugsdóttir.