Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson
Eftir Guðmund Inga Kristinsson: "Læknisþjónusta og lyf eiga að vera ókeypis á Íslandi. Allir eiga rétt á að fara til læknis til að fá lyf og það án þess að borga krónu fyrir."

Að velja á milli þess að kaupa mat eða lyf er fáránlegt og á ekki að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Þetta er samt staðreynd í dag og var einnig til staðar fyrir nýju lyfjalögin. Lyfjalögin sem tóku gildi nú í maí hafa skapað stórvandamál fyrir fjölda fólks sem eru á lífsnauðsynlegum lyfjum. Fólk sem áður borgaði ekkert fyrir lyf sín borgar nú allt að 50.000-70.000 kr. á ári fyrir þau og hefur ekki efni á þeim.

Greiðsludreifing á kostnaðinum við lyfjakaupin er niðurlægjandi aðgerð og skapar vítahring fyrir veikt fólk og er ekkert annað en ávísun á skuldahala inn í framtíðina og síðan greiðsluþrot. Hvað er að, þingmenn, ef þið teljið ykkur ekki þurfa að greiðsludreifa ykkar lyfjakostnaði, en bara fólk á bótum, lífeyri og á lágmarkslaunum?

Sá sem þarf að velja á milli matar og lífsnauðsynlegra lyfja er settur á dauðalista, því ef hann velur annað en ekki hitt þá er hann dauður og það úr hungri eða sjúkdóminum sem lyfin lækna eða halda í skefjum.

Um daginn varð ég var við það að þeir sem höfðu áður ókeypis lyf verða nú að velja á milli matar, lyfja eða að borga af íbúð, þ.e.a.s. lánunum eða leigunni.

Fólk sem á ekki fyrir mat verður strax að borga á þriðja tug þúsunda króna fyrir fyrsta skammt af lífsnauðsynlegu lyfjunum. Verður að velja á milli matar, lyfja eða íbúðar.

Bara þetta val veldur skelfingu og kvíðaröskun, sem síðan kallar á ný lyf, kostnaðarsamar lækningameðferðir og vítahring óyfirstíganlegs kostnaðar.

Þetta heitir á mannamáli að spara aurinn og henda krónunum, sem hver maður veit að er heimska og kemur okkur öllum í koll síðar meir og kostar óþarfa peningaútgjöld og jafnvel mannslíf.

Öryrkjar, lífeyrisþegar og láglaunafólk er að lepja dauðann úr skel í dag eftir fjögurra ára stjórn svokallaðar vinstri velferðarstjórnar, sem afnam skerðingar aftur í tímann hjá þeim sjálfum, en ekki á þeim sem eru á bótum og lífeyri. Hvernig getur stjórn sem kallar sig velferðarstjórn gert það að sínu síðasta verki að koma á þessum fáránlegu nýju lyfjalögum?

Ókeypis læknisþjónusta og lyf

Læknisþjónusta og lyf eiga að vera ókeypis á Íslandi. Allir eiga rétt á að fara til læknis til að fá lyf og það án þess að borga krónu fyrir. Það þarf að taka til hendinni og upplýsa fólk um virkni lyfjanna og finna lausnir við að hætta að taka inn lyf að óþörfu.

Eins og ég hef áður bent á í greinaskrifum þá tók ég inn t.d. svefnlyf sem gerðu mig að uppvakningi. Það er að segja, ég var allan daginn að vakna og síðan þegar ég var vaknaður, þá var kominn tími á að fá aðra töflu til að sofna. Verkir í hrygg voru það slæmir að ég gat ekki sofið og því var lausnin svefnlyf. Ég gat ekki sætt mig þessa lausn og fór því að leita annarra leiða til að losna við svefnlyfin og fann leið sem virkaði.

Einföld leið og það án lyfja og kostaði bara smá tíma og það var íhugun. Innhverf íhugun sem ég hafði lært 17 ára og mundi eftir því að þegar ég var að læra hana var ekki mælt með því að leggjast, heldur sitja í stól.

Íhugunin hefur virkað á mig til að sofna á kvöldin, og í hvert sinn er ég þarf að snúa mér á næturnar vegna verkja, þá íhuga ég til að sofna aftur. Í um 20 ár og eftir tvö umferðarslys og aðgerðir á hrygg vegna þeirra virkar þetta enn í dag. Það er í lagi að nota svefnlyf til að hjálpa sér yfir verstu tímabilin, en ekki sem varanlega lausn, því það gerir mann bara að hálfsofandi uppvakningi og það tekur frá manni getu til að lifa mannsæmandi lífi.

Verkalyf eru einnig stórhættuleg og vanabindandi ef þau eru tekin lengi.

Verkjalyfin virka ekki nema í nokkra mánuði og þá þarf stærri og stærri skammta af þeim, með tilheyrandi aukaverkunum þeirra. Það eru til lyf við aukaverkunum lyfja og þegar á það stig er komið verður að reyna allt til að sleppa við verkjalyfin og út úr vítahring lyfjanna.

Heiti potturinn í sundlaugunum okkar eða bara heitt bað eru mínar verkjalyfjalausnir í dag og það ásamt líkamsrækt heldur mér á lífi. Það gerir mig ekki verkjalausan, en veldur því að verkirnir eru oftast innan þolmarka. Nota því ekki verkalyf nema í neyð og þá eins stuttan tíma og hægt er og bara lítið af þeim.

Læknisþjónusta án þess að borga fyrir hana væri fljót að borga sig, því það kostar þjóðfélagið meira að lækna veikt fólk síðar, þ.e.a.s.veikt fólk sem fer ekki til læknis vegna þess að það á ekki fyrir kostnaðinum. Fólkið er orðið mun veikara er það loksins leitar til læknis og lækniskostnaðurinn mun hærri og líf þess þá einnig orðið í stórhættu.

Það er mannvonska að láta fólk verða að velja á milli matar, læknis, lyfja eða húsnæðis. Læknisþjónusta og lyf eiga að vera veiku fólki aðgengileg án kostnaðar og þá strax fyrir þá sem lífsnauðsynlega þurfa á þeim að halda.

Höfundur er öryrki og formaður BÓTar.

Höf.: Guðmund Inga Kristinsson