Tvísýnt Þóra B. Helgadóttir gómar boltann í leik gegn Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Í dag eru 22 dagar þar til Ísland mætir Noregi í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Kalmar.
Tvísýnt Þóra B. Helgadóttir gómar boltann í leik gegn Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Í dag eru 22 dagar þar til Ísland mætir Noregi í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Kalmar. — Ljósmynd/Algarvephotopress
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég hef bara farið varlega og verið að leyfa þessu að gróa til að byrja með. Þetta er miðlungstognun sem á að taka 2-4 vikur að jafna sig á.

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég hef bara farið varlega og verið að leyfa þessu að gróa til að byrja með. Þetta er miðlungstognun sem á að taka 2-4 vikur að jafna sig á. Mér líður betur með hverjum deginum, verð minna hölt, þannig að þetta er á réttri leið held ég,“ sagði Þóra B. Helgadóttir landsliðsmarkvörður. Hún tognaði aftan í læri fyrir viku og er því í kapphlaupi við tímann um að verða klár fyrir Evrópumótið í Svíþjóð. Þar leikur Ísland fyrsta leik sinn við Noreg 11. júlí, eftir rétt rúmar 3 vikur.

„Eins og er þá er ég ekkert svartsýn. Ég mun gera mitt til að verða klár og mun núna bráðum geta farið á fullt í að ná fullum bata,“ sagði Þóra.

Þrír reynslumiklir markmenn

Markverðirnir Guðbjörg Gunnarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir eru í hópnum sem mætir Danmörku í síðasta vináttulandsleiknum fyrir EM, í Viborg á fimmtudaginn. Hvorug tók nokkurn þátt í undankeppni EM en tæp þrjú ár eru síðan þær spiluðu í undankeppni stórmóts. Guðbjörg hefur síðan spilað 5 landsleiki, tvo vináttuleiki og þrjá á Algerve-mótum, en hún var síðast í byrjunarliði í mars 2012.

„Við erum með þrjá reynslumikla markmenn og það er ekki eins og einhver okkar sé einhver kjúklingur. Ég hef engar áhyggjur af því að við leysum þetta ekki, fari svo að ég verði ekki orðin klár,“ sagði Þóra, sem hefur heldur ekki áhyggjur af undirbúingi íslenska liðsins fyrir EM. Hlé er komið í öllum helstu deildum erlendis, þó spilað sé í Pepsi-deildinni, og því líða 3 vikur frá leiknum við Dani án þess að atvinnumenn íslenska liðsins spili alvöru leik.

Tökum því sem við fáum

„Það er auðvitað alltaf hægt að gera meira en við reynum að hugsa bara ekkert um þetta. Við tökum því sem við fáum og ætlum okkur upp úr okkar riðli,“ sagði Þóra en æfingar hefjast í næstu viku fyrir atvinnumennina í íslenska hópnum.

Íslenska landsliðið hélt út til Danmerkur í fyrradag, án Þóru vitaskuld en hún er stödd hérlendis. Ein breyting varð á hópnum á síðustu stundu, varnarmannsskipti, en Mist Edvardsdóttir, leikmaður Avaldsnes í Noregi, kom inn í stað Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur úr Stjörnunni. Áður hafði Elísa Viðarsdóttir komið inn í stað Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.