Hvalskurður Fyrsti hvalurinn kominn á land í Hvalfirði. Mótmælendur voru í hlíðinni fyrir ofan Hvalstöðina.
Hvalskurður Fyrsti hvalurinn kominn á land í Hvalfirði. Mótmælendur voru í hlíðinni fyrir ofan Hvalstöðina. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Hann lítur bara vel út,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., þegar skipið Hvalur 8 lagðist að bryggju við Hvalstöðina í Hvalfirðinum í gær með fyrsta stórhvalinn sem veiddur er á þessari vertíð.

„Hann lítur bara vel út,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., þegar skipið Hvalur 8 lagðist að bryggju við Hvalstöðina í Hvalfirðinum í gær með fyrsta stórhvalinn sem veiddur er á þessari vertíð. Langreyðurin var 63 fet, eða rúmir 19 metrar. Að sögn Kristjáns skilar slíkt dýr af sér um 10 til 12 tonnum af kjöti, auk þess sem beinin eru möluð í mjöl og lýsi. Um tvær klukkustundir tekur að ná kjötinu af hvalnum þegar starfsfólkið hefur hafist handa.

Margir voru samankomnir á bryggjunni í Hvalfirðinum í gær, bæði gestir og starfsmenn hvalstöðvarinnar. Einnig voru nokkrir mótmælendur fyrir utan girðingu stöðvarinnar. Skip Hvals hf. hafa ekki siglt síðan árið 2010 og því nokkuð síðan langreyði var landað á þessum stað.

Hvalur 9 hefur enn sem komið er ekkert veitt á þessari vertíð. „Það er bræla og þá veiðist ekkert á meðan,“ segir Kristján, og bætir við að Hvalur 8 muni ekki fara aftur út til veiða fyrr en veðrið batnar.

larahalla@mbl.is