Mæðgur Ólína ásamt dóttur sinni Hrafnhildi Yrsu Georgsdóttur. Myndin er tekin á brúðkaupsdegi Hrafnhildar 29. desember sl.
Mæðgur Ólína ásamt dóttur sinni Hrafnhildi Yrsu Georgsdóttur. Myndin er tekin á brúðkaupsdegi Hrafnhildar 29. desember sl.
Ólína Elín Thoroddsen, aðstoðarskólastjóri grunnskóla Seltjarnarness, fagnar 56 ára afmæli sínu í dag og ætlar að halda upp á það með fjölskyldu og vinum.
Ólína Elín Thoroddsen, aðstoðarskólastjóri grunnskóla Seltjarnarness, fagnar 56 ára afmæli sínu í dag og ætlar að halda upp á það með fjölskyldu og vinum. „Deginum mun ég verja í vinnunni en í hádeginu mun ég fara út að borða með samstarfskonum mínum. Um kvöldið verður síðan afmælis- og kveðjuboð fyrir fjölskyldu og vini en dóttir mín, Hrafnhildur Yrsa, flytur í næstu viku til Bandaríkjanna ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Yfirleitt er ég ekkert mjög dugleg að halda upp á afmælið þar sem afmælisdaginn ber upp á þann tíma sem fólk er oft ekki í bænum. Ég held því oftast upp á afmælið annað hvert ár og þá hef ég þann háttinn á að bjóða fjölskyldu og vinum í kaffi og kökur.“ Aðspurð segir hún eftirminnilegasta afmælið hafa verið þegar hún varð fertug. „Þá fór ég í flúðasiglingu niður Hvítá ásamt bróður mínum, mágkonu, vinkonu og manni hennar og öllum börnunum okkar. Það var mjög eftirminnileg og skemmtileg upplifun.“ Ólína horfir björtum augum til sumarsins og ætlar að ferðast um landið. „Ég vil helst ekki fara til útlanda á þessum árstíma og missa af hinu fallega íslenska sumri. Ég vil miklu frekar verja sumarfríinu á Íslandi og verð því á faraldsfæti hér innanlands og elti góða veðrið.“ Ólína er hófsöm þegar kemur að afmælisgjöfum og segir ekkert sérstakt vera á óskalistanum. „Ég vil helst bara fá gott veður.“