Nassim Nicholas Taleb fæst við öfgar, hið öldungis ósennilega, atburði, sem enginn á von á, en gerast samt. Taleb er prófessor í áhættuverkfræði við New York University. Bók hans, Svarti svanurinn, hefur selst í milljónum eintaka.

Nassim Nicholas Taleb fæst við öfgar, hið öldungis ósennilega, atburði, sem enginn á von á, en gerast samt. Taleb er prófessor í áhættuverkfræði við New York University. Bók hans, Svarti svanurinn, hefur selst í milljónum eintaka. Nú er æ oftar talað um svarta svani þegar eitthvað óvænt gerist, eitthvað, sem kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það mætti alveg eins tala um hvíta hrafna. Samkvæmt Taleb var gjaldþrot Lehman-bræðra svartur svanur, sömuleiðis að húsnæðislánasjóðurinn Fannie Mae og tryggingafélagið AIG skyldu næstum því fara á hausinn, hryðjuverkin 11. september 2001, uppfinning netsins og að fyrri heimsstyrjöld skyldi brjótast út. Taleb var einn af þeim fáu sem sáu yfirstandandi fjármálakreppu fyrir og varaði við því að áhættulíkön hagfræðinganna næðu ekki utan um slík umbrot. Auk þess sagði hann að fræðigreinin myndi ekki hafa nein svör.

Taleb gagnrýnir hagfræðingana, sem bjuggu líkönin til, og verðbréfasalana, sem nota þau í viðskiptum á fjármálamörkuðum. Svörtu svanina hafi vantað í útreikninga þeirra og þeir hafi valdið miklu tjóni. Verst sé að aðrir hafi þurft að bera tjónið. Sérstaklega veitist hann að fræðimönnunum, sem hafi ekki hugrekki til að leggja undir í samræmi við sín eigin líkön.

Líkingin með svarta svaninn er sótt til heimspekingsins Karls Poppers. Hann sagði að þótt maður sæi ekkert annað en hvíta svani allt sitt líf þýddi það ekki að svartir svanir væru ekki til. Taleb hefur einnig skýrt þetta með kalkúnalíkingu. Reynsla kalkúnsins, í það minnsta í Bandaríkjunum, er þessi: Á hverjum degi kemur maður og fóðrar hann af örlæti. Eftir því sem tíminn líður safnar kalkúninn saman tölfræði, sem bendir til þess að yfirgnæfandi líkur séu á því að þessi maður muni aldrei gera honum mein. Svo kemur þakkargjörðardagurinn og öll tölfræðin er einskis nýt. Nú hefur Taleb gefið út nýja bók, Antifragility, sem kalla má leiðarvísi um það hvernig eigi að búa við svarta svani.