Nú leggja fyrri ráðherrar mikið undir til að verja ofurskatta sína

Tveir fyrrverandi fjármálaráðherrar, þau Katrín Júlíusdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, keppast þessa dagana við að spinna áfram söguna um glæsilegan viðskilnað fyrri ríkisstjórnar í efnahagsmálum, ekki síst ríkisfjármálum.

Katrín og Steingrímur boðuðu í þessum tilgangi til sérstakrar umræðu um ríkisfjármálin á Alþingi. Þar mátti heyra frá þeim sjálfum hvílíkt þrekvirki þau hefðu unnið og breytti engu í því sambandi þó að stöðug framúrkeyrsla hefði einkennt ríkisfjármálin á nýliðnu kjörtímabili.

En í umræðum þessara tveggja fyrrverandi ráðherra og samflokksmanna þeirra má heyra að fleira hangir á spýtunni en spuninn um meint afrek síðustu ríkisstjórnar. Annað sem þeim er ofarlega í huga er að verja skattahækkanir vinstristjórnarinnar með öllum tiltækum ráðum og reyna að hræða núverandi ríkisstjórn frá því að fella niður vinstriskattana. En væntanlega þarf meira til en svo augljósa spunabrellu skattheimtumeistaranna.