Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverkið í mynd Hlyns.
Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson fer með aðalhlutverkið í mynd Hlyns. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Kvikmyndaleikstjórinn, Hlynur Pálsson, hefur fengið góða dóma fyrir lokaverkefni sitt úr Danska kvikmyndaskólanum en kvikmynd hans heitir En Maler eða Málarinn á íslensku og fjallar um listamann sem hefur allt á hornum sér. „Ingvar E. Sigurðsson leikur aðalhlutverkið í myndinni en það er hálfgert portrett af listamanni á miðjum aldri sem hefur ekki sinnt börnum sínum né samböndum við þær konur sem hann á börnin sín með. Hann býr einn úti á landi og er að vinna að sínu stærsta verki þegar einn sonur hans kemur óvænt í heimsókn og setur í raun allt í uppnám hjá honum,“ segir Hlynur en hann telur Ingvar hafa túlkað verkið mjög vel.

„Ég sendi Ingvari handritið og honum leist vel á það. Síðan hittumst við til að sjá hvort við gætum unnið vel saman og það gekk allt að óskum. Hann tók því þetta verkefni að sér og það gekk allt vel upp hjá okkur.“

Meiri kröfur og fagmennska

Hlynur er búsettur í Danmörku með konu sinni og þremur börnum en vinnur að verkefnum bæði hér heima og í Danmörku. Hann segist ekki ætla að festa sig á einum stað fremur en öðrum heldur horfi til spennandi verkefna hvar sem þau er að finna. „Fjöldi kvikmynda sem eru gerðar á Íslandi er nokkuð mikill miðað við hvað við erum fá og það er margt spennandi að gerast á Íslandi. Annars horfi ég ekkert frekar til þess að vinna á Íslandi en annars staðar, heldur fer ég þangað sem verkefnin kalla á mig.“

Ákvörðun Hlyns að sækja sér menntun í kvikmyndaleikstjórn í Danmörku segir hann hafa byggst á faglegum sjónarmiðum. „Í stærri samfélögum eins og hér í Danmörku er meiri samkeppni um að komast inn í svona nám en á Íslandi og eðlilega eru því meiri líkur á að þú fáir að vinna með fólki sem hefur sama brennandi áhuga og metnað á sínu fagi eins og þú sjálfur.“

Miklar kröfur eru gerðar til nemenda í Danska kvikmyndaskólanum og færri komast að en vilja. Góðir dómar fjölmiðla um lokaverkefni Hlyns eru því gott veganesti fyrir hann inn í næstu verkefni.

Kvikmyndin heillar

Allt frá því fyrstu hreyfimyndinar komu fram hefur almenningur verið heillaður af kvikmyndum. Hlynur sem hefur sjálfur bakgrunn í ljósmyndun og leiklist segir kvikmyndaformið í sérflokki til að ná til áhorfandans. „Kvikmyndin er að mínu mati öflugasta listformið þar sem maður fær tækifæri til að fylla heilan sal og halda áhorfandanum þar að horfa á verkið manns í kannski tvo tíma.“

Spurður hvort sjónvarpsþáttagerð heilli hann segist Hlynur ekki sjá fyrir sér að koma að gerð sjónvarpsþátta heldur fyrst og fremst ætla að einbeita sér að kvikmyndum.