Öflug Emelía Einarsdóttir í hópi strákanna í U15 ára liði Vasco da Gama í Höfðaborg. Hún lék með þeim á móti í Brasilíu um síðustu helgi.
Öflug Emelía Einarsdóttir í hópi strákanna í U15 ára liði Vasco da Gama í Höfðaborg. Hún lék með þeim á móti í Brasilíu um síðustu helgi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Emelía Einarsdóttir, 14 ára stúlka úr Garðinum, flutti til Höfðaborgar með suðurafrískri móður sinni fyrir tveimur árum og er nú eitt almesta efnið í kvennaknattspyrnunni þar í landi.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Emelía Einarsdóttir, 14 ára stúlka úr Garðinum, flutti til Höfðaborgar með suðurafrískri móður sinni fyrir tveimur árum og er nú eitt almesta efnið í kvennaknattspyrnunni þar í landi. Svo góð er Emelía að hún spilar með U15 ára stráka liði Vasco da Gama í Höfðaborg og fór með strákunum á stórt knattspyrnumót í Belo Horizonte í Brasilíu í síðustu viku.

Faðir Emelíu er íslenskur. Hér heima æfði hún fimleika en í virtu suðurafrísku dagblaði er sagt frá gríðarlegum styrk hennar í efri hluta líkamans. Hún beitir löngum „flikk-flakk“-innköstum eins og Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur gert fræg hér heima og tekur ávallt 90 armbeygjur á meðan strákarnir gefast upp eftir fjörutíu.

Raðar inn mörkum

Á síðustu leiktíð með kvennaliði Bothasig fór Emelía á kostum og skoraði 16 mörk en liðið endaði í öðru sæti. Jose Cabral, brasilískur þjálfari drengjaliðs Vasco da Gama, hreifst svo af íslensku stúlkunni að hann bauð henni á reynslu.

„Jose bauð mér að fara til Brasilíu þannig hann hlýtur að hafa séð eitthvað sem honum líst á,“ segir Emelía. „Hann bauð mér að æfa ókeypis í sex vikur þannig nú hlakka ég til að sýna hvað í mér býr gegn liðum frá Ástralíu, Englandi, Bandaríkjunum og Brasilíu.“

En hvernig er að spila með strákunum? „Fyrst var það svolítið skrítið og það tók mig smá tíma að ná þeim í líkamlegu formi. En núna get ég ekki bara keppt við þá heldur hef ég visst forskot með innköstunum mínum,“ segir Emelía.

Kunni ekki ensku

Emelía flutti til Suður-Afríku fyrir tveimur árum og kunni þá ekki ensku. Erfiðlega gekk að koma henni í skóla í fyrstu en eftir að úr því var greitt aðlagaðist Emelía snögglega að lífinu í Höfðaborg. Að spila fótbolta hjálpaði mikið til.

„Það er mikilvægt að geta tjáð sig. Ég varð að geta talað. Eftir leiki borðaði ég með stelpunum og lærði ensku þannig. Það gerði málið einfaldara þegar ég byrjaði að spila með strákunum í Vasco.“

Það var ekki bara alvara lífsins hjá krökkunum í Vasco da Gama í Brasilíu um helgina því liðið fór að sjá tvo leiki í álfukeppninni sem nú stendur þar yfir ásamt því að þau heimsóttu Granja Comary, æfingasvæði brasilíska landsliðsins.

„Þessi ferð til Suður-Ameríku er draumur að rætast fyrir mig,“ segir Emelía Einarsdóttir.