Höfuðborgin Undanfarin þrjú til fjögur ár voru byggðar 100-200 íbúðir.
Höfuðborgin Undanfarin þrjú til fjögur ár voru byggðar 100-200 íbúðir. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Fjármálafyrirtækið Gamma vinnur að því að stofna tvo fasteignasjóði, þá Novus og Eclipse.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Fjármálafyrirtækið Gamma vinnur að því að stofna tvo fasteignasjóði, þá Novus og Eclipse. Stefnt er að því að annar fjárfesti í íbúðarhúsnæði en að hinn muni koma að þróunarverkefnum á því sviði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Um er að ræða lokaða fagfjárfestingarsjóði, þ.e. þeir taka ekki við fé frá almenningi, samkvæmt gögnum frá Fyrirtækjaskrá.

Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri Gamma, segir í samtali við Morgunblaðið að unnið sé að því að koma sjóðunum á fót. Vonandi verði þeirri vinnu lokið í lok sumars. Ekki sé hægt að segja nánar frá sjóðunum að svo stöddu. Samkvæmt gögnum frá Fyrirtækjaskrá var Novus stofnaður í febrúar en Ecplise í maí.

160 íbúðir miðsvæðis

Gamma rekur fasteignasjóðinn Centrum sem á um 160 íbúðir miðsvæðis í Reykjavík og eru þær í útleigu. Sjóðurinn er fyrir fagfjárfesta og byggir á spám um að húsnæðisverð miðsvæðis í höfuðborginni muni hækka á komandi árum og í kjölfarið verði íbúðirnar seldar. Þessar spár eru meðal annars studdar af því að lítið hefur verið byggt frá hruni, eftirspurn ungs fólks eftir fasteignum hefur aukist og einnig hefur mannfjöldi aukist.

Þarf að byggja

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að undanfarin þrjú til fjögur ár hafi verið byggðar 100-200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og því sé uppsöfnuð þörf fyrir nýjar íbúðir. Í ár sé spáð að byggðar verði 500-700 íbúðir. Engu að síður sé útlit fyrir að nýbyggingar á árinu komi ekki til með að mæta innbyggðri þörf sem segir til um að árlega þurfi að byggja um 1.500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að mæta fólksfjölgun.

Fasteignasjóðir, sérhæfðir í kaupum og rekstri atvinnuhúsnæðis, hafa sprottið fram að undanförnu.

Lífeyrissjóðir fjármagna sjóðina

Almennt fjármagna lífeyrissjóðirnir sjóðina en þeir eru reknir af bönkum eða rekstrarfélögum á þeirra vegum. Dótturfélag Arion banka, Stefnir, er í slíkum rekstri, líkt og VÍB, dótturfélag Íslandsbanka og MP banki.

Tækifæri að myndast
» Gamma vinnur að því að koma á tveimur fasteignasjóðum sérhæfðum í því að fjárfesta á íbúðamarkaði.
» Sjóðurinn Novus var stofnaður í febrúar en Ecplise í maí.
» Gamma rekur sjóðinn Centrum sem á 160 íbúðir miðsvæðis í Reykjavík.
» Byggingamarkaðurinn hefur verið frosinn frá bankahruni .
» Í ár er spáð að 500-700 íbúðir verði byggðar á höfuðborgarsvæðinu en talað er um að árleg þörf sé 1.500 íbúðir.