Albert Jensen húsasmíðameistari fæddist í Reykjavík 27. september 1931. Hann lést á Landspítala Fossvogi 7. júní 2013.

Foreldrar hans voru Jörgen Jensen frá Moss í Noregi, f. 2.2. 1902, d. 23.6. 1933, og Kristín Guðjónsdóttir úr Reykjavík, f. 16.3. 1914, d. 15.10. 1981.

Árið 1957 giftist Albert Þóru Árnadóttur, f. 11.6. 1936. Börn þeirra eru: 1) Magnús Valur húsasmíðameistari, f. 1954, maki Guðný Guðmundsdóttir fasteignasali, börn þeirra eru Albert Þór, unnusta Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, börn þeirra eru Daníel Victor, Magnús Valur og Anna Sóley. Berglind, eiginmaður Valdimar Svavarsson, börn þeirra eru Guðni Þór og Guðbjörg María. Sigrún Ýr, sambýlismaður Gunnar Borgþórsson, börn þeirra eru Embla Dís og Borgþór. Magnús Árni.

2) Kristín hjúkrunarfræðingur, f. 1957. Börn hennar eru Grétar Þór, sambýliskona er Ásta Kristín Hólmkelsdóttir, barn þeirra er Guðni Þór, Grétar Þór á Jóhann frá fyrra sambandi. Þórður Sindri. 3) Sigríður bókmenntafræðingur, f. 1961, börn hennar eru Þórbergur, Þóra Kristín, Margrét Sól og Helgi Albert. 4) Jörgen Árni hárskeri, f. 1969, maki Karen Theodórsdóttir mannfræðingur, börn þeirra eru Thelma Hlíf, Hera Björg, Yrmý Sara og Gabríela Marín. 5) Ögmundur Guðjón matreiðslumaður, f. 1972, maki Lilja Agnarsdóttir félagsráðgjafi, börn þeirra eru Jóhann Ingi, Hlynur, Bjarki og Hilmir. 6) Albert átti eina dóttur úr fyrra sambandi, Guðfinnu. Börn hennar eru Ingvar Freyr, Ævar Örn, Jóhanna Thelma, Sandra Ósk og Brynjar Rafn.

Albert ólst upp í Reykjavík fyrstu árin en var ungur sendur í sveit í Bersatungu, Saurbæ, Dölum. Átti hann þar góð uppvaxtarár og eignaðist góða vini sem hann heimsótti í hvert sinn er hann átti kost á. Byggði hann þar meðal annars sumarhús sem hann notaði mikið á sumrin á meðan hann gat. Albert starfaði lengst af sem verktaki við húsasmíðar og var virkur þátttakandi í stjórnmálastarfi Alþýðuflokksins í Reykjavík allt fram að slysi er hann varð fyrir árið 1990. Að lokinni mikilli endurhæfingu sá hann fram á að langt yrði í að hann starfaði við smíðar og hóf þá að iðka ritsmíðar við tölvu sem hann hafði aldrei komið nálægt. Ótaldar eru greinar sem birst hafa í dagblöðum. Jafnaðarmaður var hann allt til síðasta dags. Albert var mikill áhugamaður um náttúruvernd og vann að þeim málefnum hvenær sem hann gat, bæði með skrifum sínum og þátttöku í málfundum um málefni náttúrunnar. Ljóð og söngur var honum hugleikinn og stundaði hann kórstarf í mörg ár.

Útför Alberts fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. júní 2013, kl. 13.

Albert Jensen var mikill baráttumaður og sannkölluð hetja. Hann lamaðist í vinnuslysi fyrir u.þ.b. 23 árum, þegar hann féll af vinnupalli á fjórðu hæð er hann var við störf, en Albert var atorkusamur byggingameistari í Reykjavík um langt árabil. Undirritaður kynntist Alberti fyrir fimm árum í gegnum fjölskyldutengsl. Þótt aldursmunur væri nokkur tókst með okkur mikil og góð vinátta sem varaði allt fram á síðasta dag. Ég heimsótti Albert reglulega á Sléttuveginn, þar sem hann bjó í húsi SEM samtakanna. Í samtölum mínum við Albert kynntist ég honum mjög vel. Í þeim kom fram með skýrum hætti réttlætiskennd hans og hreinskilni. Hann var mikill náttúruunnandi, elskaði landið sitt og lagði stöðugt áherslu á að þjóðin héldi vöku sinni fyrir sjálfstæði sínu. Þau voru fá málefnin sem við ræddum ekki. Fyrir nokkru ritaði Albert bók sem heitir Lindargötustrákurinn. Í bókinni rakti hann ýmsa atburði og kynni sín af fólki og málefnum. Þetta er merkileg saga um líf og störf þessa alþýðumanns og kynni hans af mönnum og málefnum.

Í formála bókarinnar segir Albert m.a.: „Bókin er gerð af knýjandi þörf til að segja frá því sem ég upplifði sem barn og hvernig örlögin spunnu svo vefinn áfram. Þar er skyggnst í hugarheim stráks og fylgst með aldursskeiðum hans. Stráks sem var bæði harður af sér og viðkvæmur. Stráks sem var harður í horn að taka ef því var að skipta og gat þó verið feiminn en yfirleitt viðráðanlegur. Ofarlega í huga mínum með bókinni, eru siðir og mismunandi búskaparhættir hvers tímabils síðustu aldar. Ég segi frá hugrenningum mínum um menn, lönd og siði og mikilvægi þess að halda trú vorri, hreinleika lands, lofts og sjávar“.

Í samtölum okkar kynntist ég vel lífsferli hans, unglingsárunum, afskiptum hans af pólitíkinni, baráttu hans fyrir þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu, ekki síst fatlaðra og öryrkja. Það var hreint ótrúlegt hvað þessi aldni maður hafði mikið baráttuþrek. Í síðasta samtali okkar á heimili hans fyrir mánuði síðan var hann með allan hugann við næstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar og útlistaði nákvæmlega hver þyrftu að verða hennar forgangsverkefni. Albert var ósáttur við margt sem snéri að hlutskipti þeirra sem áttu erfiðast með að verja stöðu sína og jafnframt berjast fyrir bættum kjörum sínum og aðstæðum. Það voru hans forgangsmál. Um þessi mál og fleiri ritaði Albert fjölmargar blaðagreinar á undanförnum áratugum.

Ég kveð Albert minn góða vin með söknuði. Nú að leiðarlokum þakka ég honum einlæga vináttu og allar þær góðu samverustundir sem við áttum. Við Guðrún sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

Alli vinur okkar er fallinn frá. Stórt skarð hefur verið höggvið í vinahópinn okkar. Helgi féll frá fyrir tveimur árum og er sárt saknað. Þegar litið er yfir farinn veg höfum við vinahópurinn Alli, Þóra, Steinarr, Elsa, Helgi, Gulla, Erling, Rut og börn verið samferða í yfir 50 ár og notið góðrar vináttu. Við fórum í útilegur í Galtalækjarskóg, sumarbústaðaferðir, í Dalina, Svínadal, Teigsskóg og Borgarfjörð. Spánarferðin til Cota del sol er einnig ógleymanleg.

Við höfðum vissar hefðir, meðal annars héldum við árshátíð á hverju ári fyrstu vikuna í janúar sem var ávallt mikil veisla í mat og drykk, sungið og dansað fram á nótt.

Alli var hrókur alls fagnaðar og var einstök manneskja sem birtist meðal annars í miklu hugrekki og baráttuþreki. Að hafa átt því láni að fagna að vera vinur Alla er okkur afar dýrmætt. Þú barðist hetjulega við veikindi þín og var aðdáun að fylgjast með því hvernig þú tókst á hlutunum, reyndir allt til þess að vera jákvæður. Hún elskulega Þóra þín stóð eins og klettur við hlið þér ásamt ykkar frábæru börnum og tengdabörnum. Þú varst með eindæmum blíður og góður maður, skemmtilegur og mikill húmoristi.

Nú ert þú kominn á vit nýrra ævintýra inn í eilífðina og vel hefur verið tekið á móti þér. Elsku Þóra, Maggi, Kristín, Sigga, Jörgen, Ögmundur og fjölskylda, megi guð gefa ykkur styrk í sorginni og vaka yfir ykkur.

Hvíldu í friði elsku Alli.

Þórunn Rut og Erling.

Enn eitt tréð er fallið úr vinaskógi okkar. Nú kveðjum við Albert vin okkar eftir langa samfylgd. En þótt tréð falli lifir rótin sem gefur frá sér ótal sprota sem upprennandi einstaklingar og skógurinn þéttist þrátt fyrir allt. Alli skilur eftir sig sterkan og glæsilegan ættboga.

Vinátta okkar hefur staðið allt frá 1957 er Albert giftist Þóru æskuvinkonu minni og við höfum alltaf haldið góðu sambandi í gegnum öll þessi ár. Albert var mjög sterkur persónuleiki með einstakan viljastyrk og kjark. Hann var hugmyndaríkur og framkvæmdi það sem hann ætlaði sér. Alltaf var hressandi að hitta Alla og engin lognmolla til í hans huga. Hann var alltaf tilbúinn að gefa af sér.

Ungur var Albert sendur í sveit á Bersatungu í Saurbæjarhreppi í Dölum á vit hins ókunna. Þar urðu kaflaskipti í lífi hans. Í bók sinni Lindargötustrákurinn skrifar Albert um fyrsta morguninn í sveitinni: „Þegar ég kom út á hlaðið í Bersatungu og Hvolsdalurinn í fagurri víðáttu sinni opnaði sýn til sjávar og fjarlægu vestfirsku fjallanna. Það var mín fyrsta ást á landinu sjálfu í sinni náttúrulegu dýrð“. Sönn ást sem átti eftir að þróast og endast alla hans ævi alveg eins og ást hans til Þóru eiginkonu sinnar. Albert hafði gaman af því að setja saman ljóð. Hans mikla tilfinningaflóð varð oft uppspretta ljóða hans.

Þér var gefin göfgin ljúf,

góðra vona.

Þú er öllum traust og trú.

Tign er svona.

(AJ)

Hvolsdalur, mín heimaslóð

hjá þér gott að vera.

Þú mig gæddir manndómsglóð,

að hugsa, muna og gera.

(AJ)

Alli byggði sér og fjölskyldu sinni lítinn dalakofa í landi Bersatungu og nutum við góðs af því. Honum fannst ekki mikið mál að byggja annan fyrir okkur. Þá gætum við vinirnir notið saman þessa yndislega staðar. Þar kom strax í ljós aðdáun hans og væntumþykja fyrir landinu. Fljótlega var hafist handa af bjartsýni við að grafa holur og stinga niður trjám við erfiðar aðstæður. Upp komst þó hellingur af trjám sem stjórnast nú af veðri og vindum. Án Alla hefðum við Steinarr aldrei kynnst fegurð Dalanna og allri þeirri mögnuðu sögu sem þar er skráð, jafnt fornsögum og sögum ljóðskálda sem þar gengu veginn og skildu eftir sig merk spor.

Albert spurði mig um daginn „hvernig heldur þú að það sé þarna uppi“. Ég svaraði „örugglega mjög fallegt“ og við brostum bæði. Það var stutt í húmorinn hjá Alla en hann vissi hvert stefndi og hann var sáttur við það.

Við kveðjum kæran vin með innilegri þökk fyrir samfylgdina.

Hjartanlegar samúðarkveðjur til elsku Þóru og fjölskyldu.

Blessuð sé minning Alberts.

Elsa og Steinarr.

HINSTA KVEÐJA

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma
með heita og rjóða vanga,
því sólin guðar á gluggann minn,
og grasið er farið að anga.
(Davíð Stefánsson)

Pabbi minn.
Þegar ég sat hjá þér á síðustu stundum í lífi þínu, spurði ég þig hvort þú værir hræddur. Þá brostir þú og sagðir: Nei, svo sannarlega ekki elsku Kristín mín, bara glaður. Hlakka til að komast á fætur og ganga aftur um dalina mína, fara á hestbak og halda síðan gleðskap með Hönnu frænku, Gauka og Kidda frænda að spila á gítarinn. Þessi orð eru eins og ábreiða í kuldanum og plástur á sárin. Ég veit að við hittumst á ný. Ég mun sakna þín óendanlega.
Þín
Kristín.

Elsku afi minn.
Ég man sögustundirnar með þér, sögur um landið, fjöllin og blómin. Ég man öll jólin með þér og söngvana sem þú kenndir mér. Ég man tónlistina og alla spilamennskuna. Minningarnar eru svo ótalmargar og ég mun aldrei gleyma þér.
Þinn
Sindri.