Kristján Kristjánsson, bílakóngur á Akureyri, fæddist á Kambsstöðum 19.6. 1899.

Kristján Kristjánsson, bílakóngur á Akureyri, fæddist á Kambsstöðum 19.6. 1899. Hann var sonur Kristjáns Kristjánssonar og Arndísar Níelsdóttur, hjóna í húsmennsku í Ljósavatnsskarði sem fluttu til Akureyrar 1904 þar sem Kristján var lengi símaverkstjóri.

Kristján og Arndís eignuðust fjóra syni og var Kristján elstur þeirra, en allir þrír bræður hans létust úr berklum á unga aldri. Kristján veikist reyndar einnig og varð að dvelja á Vífilsstöðum í eitt ár, en náði fullum bata. Hann kvæntist Málfríði Friðriksdóttur frá Sauðákróki og eignuðust þau fjögur börn.

Kristján var í sveit á unglingsárunum, stundaði verkamannavinnu á Akureyri og var m.a. til sjós um skeið og í símavinnu. Hann hóf aka bílum er hann var 23 ára en ári áður hafi hann fest kaup á sínum fyrsta bíl, hjólalausum Ford-bíl sem hann keypti á Húsavík.

Kristján fékk Ebenharð Jónsson í lið með sér að gera bílinn gangfærann og sama ár, 1922, opnuðu þeir saman bílaverkstæði sem er upphafið að BSA bílaverkstæðinu.

Kristján stofnaði síðan Bifreiðastöð Akureyrar, ári síðar, en þá hafði hann eignast þrjá bíla. Árið 1926 var Kristján kominn með tvo vörubíla og skömmu síðar hóf hann áætlunarferðir til Reykjavíkur og síðar austur á land. Rekstur hans varð nú æ umsvifameiri og á 20 ára afmæli BSA voru bílar fyrirtækisins 50 talsins og starfsmenn bifreiðastöðvarinnar, verkstæðis og yfirbyggingarverkstæðis 98 manns.

Kristján dró úr bílaútgerð eftir stríð, keypti Bílasölunni hf, ásamt Ólafi Benediktssyni, var einn af stofnendum Dráttarbrautar Akureyrar og einn af stofnendum Flugfélags Akureyrar sem síðar sameinaðist Flugfélagi Íslands. Hann hætti síðan rekstri á Akureyri og flutti suður til Reykjavíkur 1960.

Þar hafði hann nokkra umsýslu en var þó fyrst og síðast einn af frumkvöðlum samgöngubyltingar og bílaaldar á Íslandi.

Hann lést 16.6. 1968.