Samhugur FC Ógn deilir heimavelli með KV.
Samhugur FC Ógn deilir heimavelli með KV. — Morgunblaðið/Golli
„Við viljum minna fólk á að maður veit aldrei hvenær kallið kemur.

„Við viljum minna fólk á að maður veit aldrei hvenær kallið kemur. Fólk þarf að einbeita sér að því sem skiptir máli, lifa lífinu á meðan það getur,“ segir Rakel Garðarsdóttir en hún, ásamt stöllum sínum í FC Ógn, stendur fyrir góðgerðarleik til styrktar þriggja barna móður sem nýlega greindist með Hodgkins eitilfrumuæxli. FC Ógn stóð fyrir samskonar fjáröflun í mars í fyrra en ákveðið var að hafa viðburðinn á kvennadaginn í ár.

„Okkur finnst að allir þeir sem geti eigi að leggja eitthvað til samfélagsins og sýna samstöðu. Við erum það margar og okkur finnst gaman að spila fótbolta svo að við ákváðum að það yrði okkar framlag. Andstæðingar okkar í ár eru popparar. Meðal þeirra sem munu taka þátt í leiknum eru Egill Ólafsson, Garðar Thor Cortes og í raun bara landslið poppara. Þorgrímur Þráinsson verður síðan liðsstjóri. Fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englendinga, David James, mun dæma leikinn,“ segir Rakel og fullyrðir að leikurinn verði hin mesta skemmtun. „Þó að fólk eigi ekki peninga til að leggja málefninu lið, þá viljum við endilega að það komi samt. Við hvetjum líka fyrirtæki til að styrkja málefnið, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Rakel að lokum og tekur það fram að vonandi verði viðburðurinn árlegur. Leikurinn hefst í kvöld klukkan átta á gervigrasinu á KR-velli.