Gunnlaugur Jónsson fæddist í Skeiðháholti, Skeiðum, Árnessýslu 20. mars 1928. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 27. maí 2013.

Útför Gunnlaugs fór fram frá Kópavogskirkju 11. júní 2013.

Milli trjánna

veður tunglið í dimmu

laufi

hausttungl

haustnæturgestur

á förum

eins og við

og allt eins og laufið

sem hrynur.

(Snorri Hjartarson)

Okkur barst seint sú harmafregn að Gunnlaugur, mikill vinur foreldra okkar, væri fallinn frá. Gunnlaugur og Begga, kona hans, voru aufúsugestir og oft var glatt á hjalla. Gunnlaugur og faðir okkar, Þorsteinn, voru báðir stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík og unnu báðir hjá Sambandinu. Þá voru þeir kennarar á tímabili og áttu margt sameiginlegt. Þeir höfðu áhuga á náttúru og jarðrækt en ekki síður fólki og málefnum líðandi stundar. Gunnlaugur hafði mikla þekkingu á tölvum og gott til hans að leita þegar eitthvað bjátaði á. Þannig var samband foreldra okkar, Steina og Mundu og Gunnlaugs og Beggu, alltaf gott. Þá var farið suður með sjó að Skeiðum þar sem Gunnlaugur og Begga dvöldu oft. Þessi vinátta hjónanna hélst allt til loka. Gunnlaugur var með skemmtilegustu mönnum sem hægt var að kynnast, góðhjartaður og hafsjór af fróðleik um Ísland og náttúru landsins. Skopskyn Gunnlaugs var með ágætum og ekki annað hægt en að komast í gott skap þegar hann og Begga komu í heimsókn. Hann var mikill sögumaður en umfram allt var hann góðmenni sem allir fundu sem honum kynntust. Elsku Begga okkar, við vonum að Guð veiti þér styrk í sorg þinni. Við sendum þér og fjölskyldu þinni okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd fjölskyldunnar,

Kristbjörg Þorsteinsdóttir, Sigurður Þorsteinsson, Erlingur Þorsteinsson og Þorsteinn G. Þorsteinsson.