Skrifandi vinkonur Þær Helga Björk og Anna Karin eru sammála um að með auknum vinskap og „trúnóstundum“ hafi dregið úr getu þeirra og trúverðugleika við að gagnrýna aðrar Blekbyttur.
Skrifandi vinkonur Þær Helga Björk og Anna Karin eru sammála um að með auknum vinskap og „trúnóstundum“ hafi dregið úr getu þeirra og trúverðugleika við að gagnrýna aðrar Blekbyttur. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimm konur með gjörólíkan bakgrunn sóttu námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum árið 2008. Hann kveikti hjá þeim neista og hvatti þær til að halda áfram að hittast og skrifa að námskeiðinu loknu.

Fimm konur með gjörólíkan bakgrunn sóttu námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum árið 2008. Hann kveikti hjá þeim neista og hvatti þær til að halda áfram að hittast og skrifa að námskeiðinu loknu. Þær gerðu það og kalla sig í dag Blekbytturnar. Rithópurinn varð skapandi vinkvennahópur sem sendi nýlega frá sér smásagnasafnið Bláar dyr.

Signý Gunnarsdóttir

signy@mbl.is

Tvær Blekbyttur, þær Helga Björk Ólafsdóttir og Anna Karin Júlíussen, eru sammála um að það hafi orðið þeim mikil hvatning að sækja námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni og segja hann eiga heiðurinn af samstarfi þeirra. „Þorvaldur lagði mikið upp úr því að við héldum hópinn þegar hann kvaddi okkur að námskeiðinu loknu og við vorum sjö af tólf sem gerðum það upphaflega og enduðum síðan sem fimm manna hópur. Við fundum fljótt að þetta hvatti okkur til að skrifa áfram,“ segir Blekbyttan Anna Karin og Blekbyttan Helga Björk tekur við. „Fyrst hittumst við á kaffihúsum og þekktumst þá lítið. Svo varð úr þessu svo fínn vinskapur og við fórum að hittast oftar og líka heima hver hjá annarri.“

Þorvaldur Þorsteinsson taldi fólki trú um að það gæti

Blekbytturnar samanstanda af þeim Önnu Karin og Helgu ásamt þeim Ásu Marin, Íris Ösp Ingjaldsdóttur og Jennýju Hröfnu. Þrátt fyrir afar ólíkan bakgrunn sem félagsráðgjafi, nuddari, lögfræðingur, kennari og myndlistarkona áttu þær sameiginlegan ritlistaráhugann. „Áður en ég fór á námskeið hafði ég bara verið að skrifa fyrir mig og skúffuna en síðan náði ég betri tökum á að koma því sem mig langaði til að skila frá mér á blað,“ segir Helga Björk. „Þorvaldur snart okkur með töfrasprota og hvatti okkur.

Það komu flestir krumpaðir með efasemdir um sjálfa sig til hans en hann taldi fólki alltaf trú um að það gæti. Hann ýtti á einhverja takka og gerir það kannski enn þó að hann sé farinn. Hann var stórgáfaður og skemmtilegur maður. Svo var hann svo hjartagóður og var alltaf að draga upp hið jákvæða þó að hann gæti alveg verið hæðinn líka. Hver einasti tími var fullur af hugmyndaflæði frá honum sem kveikti í okkur,“ bætir Anna við.

Vinskapur og trúnó gerir gagnrýni erfiðari

Þegar þær eru inntar eftir því hvort ekki gangi illa að gagnrýna sögur hver annarrar svarar Helga Björk: „Við vorum gagnrýnni fyrst en nú erum við ekki bestu gagnrýnendurnir hver á aðra,“ og Anna Karin bætir við: „Þegar við urðum vinkonur og drógum úr kaffihúsaferðum og vorum farnar að koma í matarboð hver til annarrar og vorum farnar á trúnó þá breyttust samskiptin. Þegar það kom síðan að því að gera bókina þá ákváðum við að fá fagfólk sem gagnrýnendur af því að við treystum því ekki að við yrðum nægilega gagnrýnar.“

Þemasögur í bland við frjálst efni

Blekbytturnar hittast að jafnaði einu sinni í mánuði þó að eitthvað aðeins hafi dregið úr undanfarið. Þær settu sér þá fyrir verkefni fyrir hvern fund og mættu hver með sína sögu. Stundum var fyrirfram ákveðið þema og stundum var efnið frjálst. „Við lásum upp hver fyrir aðra á kaffihúsinu og vorum svolítið að túlka hvernig við upplifðum sögurnar,“ segir Anna.

Í nýútkominni bók þeirra Bláar dyr má finna nokkrar sögur frá þessum upphaflegu kaffihúsafundum. Bókin samanstendur af 25 smásögum þar sem hver Blekbytta skrifar fimm sögur. „Við erum hver okkar með tvær sögur í bókinni undir þemum. Bláar dyr var eitt þema og Hótelsaga hitt, hinar sögurnar eru síðan frjálsar,“ segir Anna Karin.

Bara rétt að byrja

Þessi skapandi hópur tók stundum til bragðs að fara saman í sumarbústað í vinnuferð. „Oft á maður erfitt með að aga sig sjálfur en í svona ferðum setjumst við bara niður og vinnum,“ segir Helga Björk og Anna Karin bætir við: „Það er eitthvað í okkar samskiptum sem vinnur svo vel saman. Þegar við komum upp í sumarbústað er aldrei nein spurning um verkaskiptingu.“

Blekbytturnar eru hvergi nærri hættar og hefur þessi útgáfa hvatt sumar þeirra enn frekar til að gefa út hver og ein. Þær eru líka farnar að ræða um næstu samvinnubók þar sem hugmyndin er nú sú að hver og ein þeirra skrifi 25 blaðsíðna smásögu.

BLEKBYTTUR GEFA ÚT

Bláar dyr

Blekbytturnar Helga Björk Ólafsdóttir, Jenný Hrafna, Íris Ösp Ingjaldsdóttir, Anna Karin Júlíussen og Ása Marin Hafsteinsdóttir sendu nýlega frá sér smásagnasafnið Bláar dyr. Höfundarnir koma úr ólíkum áttum og eru á aldrinum 35-67 ára. Bókina gáfu Blekbytturnar út sjálfar og hafa komið henni í sölu í Pennanum. Silja Aðalsteinsdóttir las yfir fyrstu drög og síðan fengu þær fagálit frá Hlín Agnarsdóttur. Hildur Björk Þorsteinsdóttir sá um hönnun á kápu.