Stjörnustríð Justin Rose fékk Yoda-þjálfun fyrir US Open.
Stjörnustríð Justin Rose fékk Yoda-þjálfun fyrir US Open. — AFP
Breski kylfingurinn Justin Rose fór á kostum á US Open um helgina og varð fyrsti breski kylfingurinn til að vinna keppnina í 17 ár. Hann vann sér inn tvö aukaprik hjá undirritaðri.

Breski kylfingurinn Justin Rose fór á kostum á US Open um helgina og varð fyrsti breski kylfingurinn til að vinna keppnina í 17 ár.

Hann vann sér inn tvö aukaprik hjá undirritaðri. Fyrir það fyrsta horfði hann til himins þegar boltinn rúllaði ofan í lokaholuna og þakkaði þar með föður sínum stuðninginn en hann lést úr krabbameini árið 2002, þegar Rose var rétt um tvítugt. Það var mjög innileg stund.

Þá er orðið ljóst að hinn mikli Jedi-meistari Yoda átti sinn þátt í sigrinum.

Rose var látinn horfa á Star Wars myndina Empire Strikes Back og þá sérstaklega atriðið þegar Yoda segir Loga geimgengli hvernig forsjónin vinni.

Forvitnilegast væri þó að vita hvort íþróttaþjálfarinn, Gio Valente, hafi notað Yoda-rödd þegar hann sagði við Rose: „Þetta eru örlög þín. Þú ert sigurvegari.“ Allt „bíb“ og að „secreta“ sig til sigurs eru greinilega fyrir amatöra ef við getum fengið Yoda í staðinn.

Þess má geta að fjölmiðlar vestanhafs eru skiljanlega í kasti yfir því að einn meðleikara Rose í lokahringnum hét einmitt Luke. Luke Donald.

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Höf.: Júlía Margrét Alexandersdóttir