Ingvi Rúnar Einarsson
Ingvi Rúnar Einarsson
Eftir Ingva Rúnar Einarsson: "Náttúruhamfarir kalla á stjórnvöld og almenning til að bjarga mannslífum, skepnum og verðmætum."

Náttúrhamfarir kalla á skyldu ríkisstjórnar og þjóðarinnar allrar að bregðst við með öllum tiltækum ráðum.

Náttúruhamfarir geta verið af margvíslegum toga, eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð, óvænt veðrabrigði (kindadauðinn í haust) og annað má nefna, eins og t.d. síldardauðann í Kolgrafafirði.

Fyrst af öllu er eðlilegt að bjarga mannslífum, lífi búfjár og öðrum dýrum og verðmætum.

Ég minntist á síldardauðann í Kolgrafafirði. Vissulega var mikill skaði af, að tapa hér stórum hluta af síldarstofninum. Þegar fyrri ganga síldarinnar var inn í Kolgrafafjörð, stóðu menn agndofa og sáu engin ráð að gera neitt í því. En það sem verra var að ekkert var gert í því, að koma í veg fyrir að það atvik gæti endurtekið sig. Þarna hefði verið hægt að setja einhvern búnað við brúna, t.d. netabúnað, vírnet eða jafnvel annan netabúnað til bráðabrigða. Sáralítið var gert í því að bjarga verðmætum sem í síldinni voru.

Þarna var hægt að bjarga verðmætum með alls konar aðgerðum, ekki aðeins í fjörum, heldur í sjónum líka.

Aftur gengur síld inn í fjörðinn, og svipað magn síldar tortímist. Maður skyldi halda að nú væru komin ráð að bjarga þeim verðmætum. En því var öðru nær. Ríkisstjórnin svaf sínum værðarsvefni og sýndi engin viðbrögð. Jafnvel þó að ung og dugleg börn ákvæðu að tína upp nokkrar síldar og um leið sýna fram að það væri hægt að bjarga verðmætum, ef vilji væri fyrir hendi. Ríkisstjórnin, sneri sér yfir á hina hliðina, breiddi yfir haus og hélt áfram sínum þyrnirósarsvefni.

Hvað var það, sem tafði aðgerðir í þessu máli?

Maður skyldi halda að bræðsla á Akranesi væri tilbúin að taka við miklu magni til mjölvinnslu, einnig að bændur vildu fá síld til skepnuhalds, eða að þeir sem reka minka- og refabú væru tilbúnir að fá síld í fóður, eins má nefna þá sem eru með fiskirækt, hvort heldur laxa- eða þorskrækt.

Þá kemur spurning um hver í raun var ástæðan að ekkert var gert.

Mér dettur helst í hug að ef HB Grandi á Akranesi fengi síld í verksmiðju sína, yrði síldarkvóti dreginn frá innlögðu efni. Annars vegar hafa innflytjendur fóðurs og áburðar sett einhverjar skorður á.

Þá kemur að því að einhver vaknar.

Umhverfisráðherra gengur á fund ríkisstjórnar og fær 8 milljónir króna úr ríkissjóði til að láta grafa þá síld í fjöruna og flytja fleiri tonn af grút langar vegaleiðir til förgunar. Við sem erum komnir á efri ár munum eftir því, þegar Hvalfjarðarsíldin var, en þá var fleiri tonnum af síld ekið upp á Fram-völlinn til geymslu, þar til þær litlu bræðslur sem voru staðsettar á Reykjavíkursvæðinu gætu brætt. Einnig var geymslustaður í grjótnámu á Holtinu í Hafnarfirði. Það var ekki fussað yfir því, þó að síldin væri orðin gömul og grúturinn kominn niður í jarðveginn. Þarna var ekki um neyðarástand að ræða, eins og var í Kolgrafafirði, heldur var hér ofveiði um að kenna. Aðgerðir við hamförunum í Kolgrafafirði voru einu orði klúður frá upphafi, ég vil ekki segja til enda, þar eð ekkert hefur verið gert til að síldin fari ekki aftur þar inn og öll síldin tortími sér.

Er sagan að endurtaka sig?

Bóndinn á Eiði telur að það sé mikil lifandi síld í firðinum. Hann er sama sinnis að hann telur að mikil verðmæti hafi farið forgörðum.

Hann er að hugsa sér að nálgast tanka eða gáma til moka í og fleyta síldinni frá sandi og grjóti ef síldin gengur á land. Þetta telur hann að sé lausnin við að bjarga töluverðu af hráefninu og koma því í bræðslu eða fóður. Það verða alla vega stórtækari tæki að verki. Ég vona að sú verði raunin. Hann sýnir alla vega viðleitni. Hvað svo sem einhverjar reglugerðir ESB koma í veg fyrir.

Höfundur er fyrrv. skipstjóri.

Höf.: Ingva Rúnar Einarsson