Þjálfun Ragnar Óskarsson er að hefja ferilinn sem aðstoðarþjálfari.
Þjálfun Ragnar Óskarsson er að hefja ferilinn sem aðstoðarþjálfari. — Morgunblaðið/Kristinn
Karlalið Vals í handknattleik er nú formlega að hefja æfingar á undirbúningstímabili fyrir næsta tímabil í N1-deildinni undir stjórn Ólafs Stefánssonar. Sem kunnugt er lauk tímabilinu í Katar ekki fyrr en á dögunum þar sem Ólafur spilaði eftir áramót.

Karlalið Vals í handknattleik er nú formlega að hefja æfingar á undirbúningstímabili fyrir næsta tímabil í N1-deildinni undir stjórn Ólafs Stefánssonar. Sem kunnugt er lauk tímabilinu í Katar ekki fyrr en á dögunum þar sem Ólafur spilaði eftir áramót. Valsmenn munu að líkindum æfa af krafti í tvær vikur áður en leikmenn fá sumarfrí. Eins og Morgunblaðið hefur greint frá verður Ragnar Óskarsson aðstoðarþjálfari Ólafs. Ragnar sér auk þess um styrktarþjálfun leikmanna og mun koma að þjálfun 2. flokks karla með Heimi Ríkarðssyni, en það mun Ólafur einnig gera. Ólafur viðraði þessa hugmynd við Ragnar í vetur en þeir hafa verið góðir vinir frá því þeir spiluðu saman með landsliðinu.

„Ég er stoltur af því að hann skuli hafa tekið þetta upp við mig,“ sagði Ragnar þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Ragnar varð bæði meistari og bikarmeistari í Frakklandi sem leikmaður en er eins og Ólafur að stíga sín fyrstu skref í þjálfun meistaraflokks. „Ég er sjálfur að byrja í handboltaþjálfun og ég held að það sé ekki til betri maður til að byrja þann feril með heldur en Óli. Ég er því þakklátur fyrir að fá að starfa með honum og ég er hrikalega spenntur. Þetta verður án efa ótrúlega skemmtilegt,“ sagði Ragnar Óskarsson. kris@mbl.is