Skúli Hansen Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir viðræðum sínum við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, og öðrum viðræðum sem hafa átt sér stað vegna stöðu...

Skúli Hansen

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir viðræðum sínum við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, og öðrum viðræðum sem hafa átt sér stað vegna stöðu mála, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í gær, að sögn Birgis Ármannssonar, formanns nefndarinnar.

„Um var að ræða samráðsfund utanríkismálanefndar með sjávarútvegsráðherra út af makríldeilunni, enda er gert ráð fyrir því að nefndin eigi samráð við stjórnvöld í stefnumörkun í mikilvægum utanríkismálum,“ segir Birgir um fundinn og bætir við: „Við í utanríkismálanefnd erum sátt við það hvernig haldið hefur verið á málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda og Sigurðar Inga og gerum ekki athugasemd við það. En við leggjum áherslu á að fá að fylgjast með næstu skrefum líka.“ Þá bendir hann á að innan nefndarinnar sé að sjálfsögðu stuðningur við að áfram verði haldið viðræðum við aðrar þjóðir sem hagsmuni hafa af makrílveiðum í Atlantshafi. „Það er mikilvægt að samkomulag náist um veiðar úr þessum stofni. Um leið leggjum við þunga áherslu á að stjórnvöld standi fast vörð um hagsmuni Íslendinga í málinu,“ segir Birgir. „Ráðherrann fór yfir stöðuna í málinu og í raun og veru kom fram að núverandi stjórnvöld fylgja sömu línu í þessu máli og fylgt hefur verið af hálfu Íslands að undanförnu, þannig að það er í sjálfu sér engin breyting þar á,“ segir Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi VG í nefndinni, um fundinn og bætir við að hann telji að allir séu sammála um mikilvægi þess að Íslendingar standi á sínu og haldi sínum vísindalegu og pólitísku rökum til haga, um leið geri menn sér grein fyrir því að það er mikil ofveiði í þessum stofni og verið er að veiða langt umfram veiðiráðgjöf. „Auðvitað getur það ekki verið sjálfbær nýting til langframa og við værum náttúrlega ekki vel sett ef stofninn hryndi. Þannig að langtímahagsmunir okkar eru að sjálfsögðu þeir að það náist samningar um veiðarnar,“ segir Árni Þór.

  • „Um leið leggjum við þunga áherslu á að stjórnvöld standi fast vörð um hagsmuni Íslendinga í málinu“ Birgir Ármannsson