[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sverrir Garðarsson, knattspyrnumaður úr Fylki, missir af því að spila með Árbæjarliðinu á sínum gamla heimavelli, Kaplakrika, í Pepsi-deildinni næsta mánudagskvöld.

S verrir Garðarsson , knattspyrnumaður úr Fylki, missir af því að spila með Árbæjarliðinu á sínum gamla heimavelli, Kaplakrika, í Pepsi-deildinni næsta mánudagskvöld. Sverrir, sem lék áður með FH, var í gær úrskurðaður í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda. Hann getur leikið með Fylki gegn Sindra í bikarkeppninni á Hornafirði í kvöld þar sem bannið tekur gildi á hádegi á föstudag, en verður fyrir vikið í banni á mánudaginn.

Sverrir var eini leikmaður deildarinnar sem var úrskurðaður í bann í gær. Úr 1. deildinni fengu Daniel Ofaso-Badu hjá BÍ/Bolungarvík, Árni Kristinn Gunnarsson hjá Fjölni og Hjalti Már Hauksson hjá Víkingi R. eins leiks bann vegna brottvísana og Ofaso-Badu hefur þegar tekið sitt bann út. Erlingur Jack Guðmundsson hjá Þrótti R. fékk eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda.

Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að endurnýja ekki samning sinn við Stuart Pearce eftir skelfilega frammistöðu enska U21-landsliðsins í úrslitakeppni Evrópumótsins í Ísrael fyrr í þessum mánuði. Samningur Pearce rennur út í lok mánaðarins og hann hefur sagt samstarfsfólki sínu að hann muni ekki fá að halda áfram, eftir því sem fram kemur á vef Sky Sports. England fékk ekki eitt einasta stig á EM en þar tapaði liðið fyrir Ítalíu, Noregi og Ísrael og skoraði aðeins eitt mark.

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa hefur keypt Nicklas Helenius , 22 ára gamlan danskan framherja, frá AaB og samið við hann til þriggja ára. Hann á tvo landsleiki að baki og hefur skorað 29 mörk í 55 deildaleikjum fyrir AaB.

Körfuknattleiksmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við þýska félagið Mitteldeutscher BC og mun því ekki leika með liðinu á næstu leiktíð. Í frétt Mitteldeutsche Zeitung segir að ákvörðun Harðar hafi komið forráðamönnum MBC í opna skjöldu. Þeir hafi fengið þær upplýsingar frá umboðsmanni Fjölnismannsins fyrrverandi að hann vildi hafa alla möguleika opna. Í fréttinni segir einnig að Hörður hafi tekið gríðarlegum framförum á síðustu leiktíð og því hafi miklar vonir verið bundnar við hann á komandi leiktíð.

Anton Sveinn McKee úr Ægi, Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi og Inga Elín Cryer úr ÍA eru nýkomin heim úr æfinga- og keppnisferð á Spáni. Þrátt fyrir mikið æfingaálag kepptu þau í tveimur mótum í Barcelona og Canet en tímarnir voru nokkuð frá þeirra besta. Mótin voru sterk og ágætur undirbúningur fyrir HM sem fram fer síðar í sumar. Eygló Ósk varð í 5. sæti bæði í 100 og 200 m baksundi á 1:01,97 mín. og 2:13,22 mín. Hún varð í 6. sæti í 50 m baksundi á 29,54 sekúndum. Anton Sveinn varð í 8. sæti í 200 m fjórsundi á 2:06,85 mín. og í 13. sæti í 1.500 m skriðsundi á 15:46,41. mín. Inga Elín hafnaði í 10. sæti í 400 m skriðsundi á 4:25,24 mín.