Landbúnaður Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka í Landeyjum, byrjaði að slá tún á miðvikudag í síðustu viku.
Landbúnaður Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka í Landeyjum, byrjaði að slá tún á miðvikudag í síðustu viku. — Ljósmynd/Elvar Eyvindsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is Bændur huga margir að heyskap um þessar mundir en ástand túna er æði misjafnt eins og komið hefur fram undanfarið.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

Bændur huga margir að heyskap um þessar mundir en ástand túna er æði misjafnt eins og komið hefur fram undanfarið. Kal í túnum hefur sett strik í reikninginn hjá fjölda bænda á N- og NA-landi og margir hafa þurft að rækta tún upp að nýju.

Eiríkur Loftsson, ráðunautur á Sauðárkróki, segist hafa heyrt af bændum framan við Sauðárkrók og á Hegranesi sem hafi byrjað heyskap um helgina. Hann tekur fram að sprettutíð hafi verið góð undanfarið en þar sem menn hafi þurft að vinna upp tún verði vart heyskapur fyrr en síðla sumars. Hinsvegar geti bændur byrjað fljótlega að slá þau tún sem þó eru í lagi. „Það er oft mikill áramunur en það er ekkert óvanalegt að menn séu að byrja heyskap í kringum 20. júní,“ segir Eiríkur.

Ekki byrjaðir á Austurlandi

Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML), veit ekki til þess að bændur séu byrjaðir að slá á Austurlandi. Hún segir tíðina að undanförnu hafa verið ágæta, hinsvegar mætti rigna aðeins. Þá bendir Guðfinna á að tún á norðanverðu Austurlandi hafi mörg kalið illa. Hún segir að skilin séu við hérað og hún viti ekki til þess að kal sé á túnum á Austfjörðum. Aðspurð segir hún bændur á svæðinu vanalega hefja heyskap um þetta leyti.

Sláttur hafinn í Reykhólasveit

Á Vestfjörðum og Vesturlandi er ástandið mjög misjafnt að sögn Sigurðar Jarlssonar, jarðræktarráðunautar hjá RML, en hann er með starfsstöð á Ísafirði. Tekur hann sem dæmi að síðustu túnin séu að koma undan snjó í Súgandafirði og trúlega líka norðanvert við Djúpið. En Sigurður hefur einnig heimildir fyrir því að Gústaf Jökull Ólafsson, bóndi í Reykhólasveit, hafi byrjað slátt 15. júní með „ágætis uppskeru“. Einnig hefur Sigurður heyrt slíkt hið sama um tvo bónda í Borgarfirði.

Sigurður segist hafa spáð því fyrir nokkru að sláttur myndi ekki hefjast á Vestfjörðum fyrr en í júlí, nú hafi hann þurft að draga í land, og reikni með því að sláttur á norðanverðum Vestfjörðum hefjist fljótlega.

Sigurður segir tíðina undanfarið í heildina hafa verið góða, mátulega rakt og þokkalega hlýtt. Jafnvel finnist einhverjum of rakt fyrir þá sem eru í endurræktun. Sigurður segir undanfarin ár hafa verið óeðlileg að því leyti að menn hafi verið byrjaðir að slá dálítið mikið í júní, þó hafi þurrkur reyndar tafið fyrir í fyrra. Sé litið lengra aftur í tímann telji hann að um meðalár sé að ræða varðandi upphaf sláttar.

Minnir hann þó á að ástandið sé æði misjafnt sem m.a. helgist af því að fyrr hafi vorað í Reykhólasveit t.am. heldur en á svæðum norðar.

HEYSKAPUR HAFINN Í LANDEYJUM

Byrjaði í síðustu viku

Elvar Eyvindsson, bóndi á Skíðbakka II í Landeyjum, byrjaði að slá tún á miðvikudag í síðustu viku. „Ég náði saman um tólf hekturum og ég veit um einn, tvo í viðbót hérna í nágrenninu sem eru byrjaðir líka,“ segir Elvar. „Ég þurfti að taka þetta saman hálfblautt til að sleppa við rigninguna í nótt (fyrrinótt).“ Elvar segist halda að bændur í grenndinni séu í startholunum. „Ég held að núna séu menn bara að bíða eftir því að það gefi veður.“

Spurður um tíðina í vor og byrjun sumars segir Elvar að það hafi verið vætusamt og óvenjulega lítil sól miðað við oft áður, þannig spretti vel. Elvar sem er m.a. með 40 kýr segist halda að hann sé aðeins seinna á ferðinni að hefja heyskap heldur en undanfarin ár en ef miðað sé við lengri tíma sé hann ekki seinn.