— AFP
Allt að 200.000 manns tóku þátt í götumótmælum í ellefu borgum í Brasilíu í fyrradag og fyrrinótt gegn fargjaldahækkunum í almenningssamgöngum og kostnaðinum sem Brasilíumenn hafa af því að halda heimsmeistaramótið í fótbolta á næsta ári. Um 100.

Allt að 200.000 manns tóku þátt í götumótmælum í ellefu borgum í Brasilíu í fyrradag og fyrrinótt gegn fargjaldahækkunum í almenningssamgöngum og kostnaðinum sem Brasilíumenn hafa af því að halda heimsmeistaramótið í fótbolta á næsta ári. Um 100.000 manns tóku þátt í mótmælunum í Rio de Janeiro og um 65.000 í Sao Paulo, fjölmennustu borg landsins.

Mótmælin fóru friðsamlega fram víðast hvar. Þetta eru mestu götumótmæli í Brasilíu í rúm 20 ár. Þau hófust í Sao Paulo fyrr í mánuðinum þegar efnt var til mótmælagöngu gegn ákvörðun borgaryfirvalda um að hækka strætisvagnafargjöld. Lögreglan var sökuð um að hafa beitt mótmælendur of mikilli hörku, meðal annars notað táragas og skotið gúmmíbyssukúlum á friðsama mótmælendur. Framganga lögreglunnar olli mikilli reiði meðal borgarbúa sem tóku að mótmæla öðrum málum, meðal annars spillingu embættismanna og kostnaðinum af því að halda HM í fótbolta á næsta ári og Ólympíuleikana árið 2016. Mótmælandi í Brasilíuborg heldur hér á skilti með áletruninni „Ekki skjóta, hlustið!“