Methúsalem Þórisson er látinn, 66 ára að aldri. Hann fæddist 17. ágúst 1946 og var sonur hjónanna Þóris Guðmundssonar og Arnfríðar Snorradóttur, sem lifir son sinn. Methúsalem lauk stúdentsprófi frá Samvinnuskólanum árið 1976.

Methúsalem Þórisson er látinn, 66 ára að aldri. Hann fæddist 17. ágúst 1946 og var sonur hjónanna Þóris Guðmundssonar og Arnfríðar Snorradóttur, sem lifir son sinn.

Methúsalem lauk stúdentsprófi frá Samvinnuskólanum árið 1976. Að loknu námi gegndi hann ýmsum störfum, meðal annars sem verslunarstjóri hjá Silla og Valda, skrifstofustjóri hjá Bátalóni í Hafnarfirði og framkvæmdastjóri Umbúðamiðstöðvarinnar. Þá stofnaði hann fyrirtækið Lausnir ehf. ásamt Júlíusi Valdimarssyni. Methúsalem var virkur félagi í Húmanistahreyfingunni á Íslandi og var einn af stofnendum Húmanistaflokksins. Hann skipaði fyrsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í nýafstöðnum alþingiskosningum. Methúsalem tók einnig þátt í alþjóðlegu starfi Húmanistahreyfingarinnar og stuðlaði m.a. að stofnun Húmanistaflokksins í Bretlandi auk þess sem hann starfaði að verkefnum hreyfingarinnar bæði á Haítí og í Síle. Á Haítí kynntist Methúsalem eftirlifandi eiginkonu sinni, Eldu Thorisson-Faurelien, og gekk syni hennar, Þóri Guðmundi, í föðurstað. Þau áttu saman veitingastaðinn Café Haiti við Geirsgötu. Methúsalem var áður kvæntur Halldóru Jónsdóttur og eignuðust þau tvær dætur saman, Fríðu og Jóhönnu.