Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands í næstu viku. Heimsóknin hefst formlega 2. júlí þótt hann komi til landsins degi fyrr.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kemur í opinbera heimsókn til Íslands í næstu viku. Heimsóknin hefst formlega 2. júlí þótt hann komi til landsins degi fyrr. Ban Ki-moon mun dvelja hér á landi í tæpa þrjá sólarhringa samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Á ferð sinni mun hann funda með forsætisráðherra, utanríkisráðherra og forsetanum auk þess að fara í skoðunarferð um landið. Ban Ki-moon er 69 ára gamall Suður-Kóreumaður og var utanríkisráðherra í S-Kóreu frá janúar 2004 til nóvember 2006. Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra SÞ af Kofi Annan árið 2007. Ban Ki-moon beitti sér meðal annars fyrir því að friðargæsluliðar væru sendir inn í Darfur-hérað og þykir hafa liðkað fyrir samskiptum á Kóreuskaga.