Skemmtilegt námskeið Hér er hópur krakka á námskeiði að læra að bera sig vel sem knapar áður en alvaran tekur við á lifandi hestum.
Skemmtilegt námskeið Hér er hópur krakka á námskeiði að læra að bera sig vel sem knapar áður en alvaran tekur við á lifandi hestum. — Ljósmynd/Bára Kristinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún hefur byggt upp af miklum metnaði hestabúgarð í Finnlandi þar sem einvörðungu eru íslenskir hestar, enda eru þeir ástríða hennar. Anki Väyrynen hlaut á dögunum verðlaun fyrir besta hestabúgarð ársins 2012 í Suður-Finnlandi.

Hún hefur byggt upp af miklum metnaði hestabúgarð í Finnlandi þar sem einvörðungu eru íslenskir hestar, enda eru þeir ástríða hennar. Anki Väyrynen hlaut á dögunum verðlaun fyrir besta hestabúgarð ársins 2012 í Suður-Finnlandi. Anki er með reiðskóla og býður upp á hestanámskeið, m.a. fyrir fötluð börn.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er ekki aðeins heiður fyrir mig, heldur líka fyrir íslenska hestinn, því það eru mörg hundruð hestabúgarðar hér í Suður-Finnlandi með ýmsum hestakynjum, og þetta er í fyrsta sinn sem búgarður sem eingöngu er með íslenskum hestum hlýtur þessi verðlaun. Þetta er því mikil upphefð fyrir íslenska hestinn,“ segir hin finnska Anki Väyrynen, en hún er eigandi hestabúgarðsins Ankis stall. The Equestrian Federation of Finland veitti búgarði hennar á dögunum virt verðlaun sem hestabúgarður ársins 2012 í Suður-Finnlandi.

Örlagarík brúðkaupsferð til Íslands fyrir 19 árum

„Ég hef verið á hestbaki frá því ég var níu ára, en ég kynntist íslenska hestinum ekki fyrr en árið 1994. Þá vorum við hjónin í brúðkaupsferð á Íslandi og ég kolféll fyrir íslenska hestinum. Ég varð ástfangin af honum og hef verið það allar götur síðan.“ Fyrsti íslenski hesturinn sem Anki eignaðist var hryssan Tíska frá Útgörðum. „Ég fékk hana í fertugsafmælisgjöf. Hún er vindótt og minn besti vinur. En fyrir tíu árum gat ég látið draum minn rætast um hestabúgarð þegar ég keypti jörðina og húsnæðið þar sem ég og fjölskylda mín býr núna.“ Anki segir þau hjónin hafa margoft komið til Íslands frá því þau komu fyrst og þau hafi eignast góða vini hér. „Við elskum Ísland, íslenska hestinn og íslenskt fólk,“ segir Anki og hlær.

Eykur jafnvægi blindra barna að fara á hestbak

Anki hefur byggt upp búgarðinn Ankis stall af miklum metnaði og ástríðu. Þar býður hún upp á ýmis námskeið tengd hestum og hestamennsku. „Ég er með reiðskóla, hestaútilegur, hestaferðir fyrir vinnustaði og að sjálfsögðu líka hrossarækt. Ég er með sérstök námskeið eða meðferð fyrir fötluð börn, því gott geðslag og stærð íslenska hestsins hentar einkar vel til að vinna með fötluð börn,“ segir Anki sem er menntaður sérkennari, þerapisti og reiðkennari. „Fötlun þeirra barna sem koma til mín er margskonar; sum eru blind, önnur spastísk, með Downs-heilkenni eða einhverja aðra fötlun. Þau sem eru blind hafa stundum slæmt jafnvægi og það er hægt að hjálpa þeim mikið með því að setja þau á hestbak. Hesturinn hreyfir sig í samræmi við knapann og krakkarnir læra að treysta honum, þau finna líka hitann frá hestinum og upplifa sterkt allt sem er úti í náttúrunni þegar þau eru á hestbaki; rigningu, sól, vind og lykt. Þau fá líka að taka þátt í að gefa hestunum eftir reiðtúra og allt eflir þetta sjálfstraust þeirra,“ segir Anki og bætir við að hún fái einnig fullorðna einstaklinga til sín sem eiga við einhvers konar andlega erfiðleika að stríða. „Sumir hafa lent í áföllum og eiga erfitt með að mynda tilfinningatengsl við annað fólk, þá kemur íslenski hesturinn sterkur inn til að kenna fólki að treysta og sjá gleði lífsins.“

Stefna með tvo hesta á heimsmeistaramótið í Berlín

Anki er með ellefu hesta í reiðskólanum, nokkra keppnishesta og líka nokkra í ræktuninni, samtals um þrjátíu íslenska hesta. „Við stefnum á að komast með tvo hesta á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín í ágúst; Rösk frá Lambanesi og Kolfinnu frá Efri-Rauðalæk. Þessir hestar þurfa að fara í úrtökumót í næstu viku og Freja, elsta dóttir mín, verður í knapahlutverkinu. Við eigum hest sem er gullverðlaunahafi, hann Ylur okkar frá Akranesi, en Freja vann þrenn gullverðlaun á honum á finnska meistaramótinu árið 2009, í tölti, fjórgangi og samhæfingu. Hann er meiddur núna en við vonumst til að hann nái sér að fullu. Við eigum líka stóðhestinn og höfðingjann Grástein frá Brekku sem er tólf vetra og með einkunnina 8,54. Hann er sannur gæðingur, var kosinn besti ræktunarstóðhestur í Finnlandi og er þriðji hæsti á sínum aldri í heiminum,“ segir Anki sem reynir að komast sjálf á bak sínum keppnishestum að minnsta kosti fimm sinnum í viku. Hún sér líka ásamt öðrum um að þjálfa reiðskólahestana.
Heimasíða hestabúgarðsins: www.ankisstall.fe