Ég sá tilveru mína í nýju ljósi þegar ég komst yfir eintak af breska dagblaðinu Daily Mail á dögunum. Þar rakst ég á grein eftir Jan Moir sem bar yfirskriftina „Af hverju er dregin upp sú mynd af feðrum í sjónvarpi að þeir séu vanvitar?“
Já, jæja, hugsaði ég með mér og játa að ég varð svolítið spenntur að lesa grein sem beint væri að feðrum sérstaklega, næstum upp með mér. Einhverra hluta vegna er lítið um slíkar greinar. Flestir fjölmiðlar virðast ganga út frá því sem vísu að pabbar séu umfram allt „karlmenn“ og vilji helst lesa um bíla, fótbolta, viskí og yngri konur, en síður um föðurhlutverkið eða þá staðalmynd sem í því felst. Hafi ég orðið hissa, jókst undrunin þegar ég komst að raun um að blaðakonan tekur upp hanskann fyrir okkur pabbana.
Í greininni er fjallað um tilhneigingu sem kennd er við Homer Simpson og felst í þeirri „takmarkalausu vanvirðingu“ sem feðrum er sýnd í sjónvarpsþáttum og auglýsingum, einkum þeim sem beint er að börnum. Vitnað er í könnun Netmums sem sýnir vaxandi óánægju með að hamrað sé á þeirri staðalmynd að feður séu klaufskir aulabárðar og þaðan af verra. Eru fornaldarmaðurinn Fred Flintstone og aulabárðurinn Homer Simpson nefndir sem dæmi um persónur, sem hafi skaðleg áhrif á hugmyndir barna um föðurhlutverkið. Fred sem spilafíkill og skaphundur með mikilmennskubrjálæði og Hómer sem heimskur og veikgeðja vandræðagemsi, sem nærist nær eingöngu á bjór og kleinuhringjum.
Jú, jú, í fyrrgreindum þáttum er ósköp gamaldags sýn á föðurhlutverkið sem hefur varla nokkurn tíma átt við. Könnun Netmums rennir stoðum undir það. 93% mæðra og feðra sögðu að sú staðalmynd sem dregin væri upp af feðrum í sjónvarpi, sem og bókum og auglýsingum, ætti ekkert skylt við raunveruleikann. Ríflega helmingur sagði að samfélagið áttaði sig æ betur á því „hversu mikilvægt föðurhlutverkið væri“ og að feður væru „mun nánari börnum sínum en fyrr á tímum“. Níu af tíu feðrum sögðust vinna harðar að því en feður þeirra að vera góðir foreldrar. Tveir þriðju sögðust finna til stolts yfir því að leggja meira af mörkum heima fyrir og svipað var hlutfall þeirra sem voru „hamingjusamari og sáttari“ en áður en þeir eignuðust börn. Þá sýna rannsóknir að börnum, sem eiga feður sem taka virkan þátt í uppeldinu, gengur betur í skóla, ólíklegra er að þau leiðist á glapstigu og andleg líðan þeirra er betri. En hvers vegna er þá verið að gera grín að pöbbunum? Svarið er einfalt: Af því að það er fyndið. Og það er líka allt í lagi. Börnin vita alveg hvort pabbinn er til staðar eða ekki. Þau þurfa ekki að spyrja Fred Flintstone eða Hómer Simpson að því. En þau geta kannski hlegið með pabba sínum að þessum þáttum – og að honum ef hann á eitthvað sameiginlegt með þeim. Ég held raunar að ýmsir aðrir hópar samfélagsins mættu stundum taka feður til fyrirmyndar í þessum efnum og leyfa sér að hlæja að ýktum staðalmyndum af sér sjálfum. Svo maður vitni í Hómer Simpson: Doh! pebl@mbl.is
Pétur Blöndal