„Þetta var alveg sérdeilis vel heppnuð og skemmtileg skákhátíð á Ströndum. Þetta var sjötta árið í röð sem hátíðin er haldin og fólk er strax byrjað að bóka sig á hátíðina á næsta ári,“ segir Hrafn Jökulsson, annar skipuleggjenda afmælismóts Jóhanns Hjartarsonar stórmeistara í Trékyllisvík á Ströndum.
Jóhann gerði sér lítið fyrir og vann eigið afmælismót með átta vinningum af átta mögulegum, en Jóhann varð fimmtugur fyrr á árinu. Næstur á eftir honum varð Hannes Hlífar Stefánsson og Stefán Bergsson varð þriðji. Alls tóku 32 keppendur þátt í mótinu.