Ungt fólk Rannsaka þarf árangur af kynfræðslu meðal ungmenna.
Ungt fólk Rannsaka þarf árangur af kynfræðslu meðal ungmenna. — Morgunblaðið/Eggert
Þórunn Kristjándóttir thorunn@mbl.is „Þessi rannsókn styður við fyrri rannsóknir á þessu sviði. Árangur af kynfræðslu í grunnskólum á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður.

Þórunn Kristjándóttir

thorunn@mbl.is

„Þessi rannsókn styður við fyrri rannsóknir á þessu sviði. Árangur af kynfræðslu í grunnskólum á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður. Kennslu, jafnt sem rannsóknir á forvarnastarfi, þarf að bæta til muna, því íslenskir unglingar eru með lágan meðalaldur við upphaf fyrstu kynmaka í samanburði við mörg OECD lönd, kynsjúkdómar tíðir og notkun getnaðarvarna ekki nógu almenn. Unglingaólétta er einnig með hæsta móti hér á landi,“ segir Álfheiður Freyja Friðbjarnardóttir í MA-ritgerð sinni. Hún hefur stundað nám í Lýðheilsuvísindum og brautskráðist frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands um helgina.

Í lokaverkefninu hennar var metinn árangur af kynfræðsluefninu, Kynveruleiki í ljósi kynheilbrigðis . Námsefnið var kennt um hundrað nemendum í áttunda bekk, 13 ára unglingum, einn tíma í viku, í átta vikur. Könnuð var þekking, viðhorf, kynhegðun og samræður við foreldra um kynlíf; áður en námsefnið var lagt fyrir, og í lokin.

„Þekking þeirra jókst marktækt m.a. á kynsjúkdómahættu og líkum á þungunum. Viðhorf drengja breyttust frekar en stúlkna, sem virðast vera þroskaðri á þessum aldri,“ segir Álfheiður Freyja.

Tjáskipti við foreldra um kynferðismál jukust einnig töluvert. Í námsefninu er lögð áhersla á gagnvirka kennsluhætti og nemendur markvisst virkjaðir til umræðna. Talað er opinskátt um allt er varðar kynlíf og minna fer fyrir beinni líffræði og staðreyndakennslu.

Í lagi að þvinga stelpur

Spurð hvort eitthvað hafi komið á óvart svarar Álfheiður Freyja því bæði játandi og neitandi. Svör unglinganna við spurningunni: Það er stundum í lagi að þvinga stelpu til samfara, hafi komið henni á óvart. Í upphafi svaraði einn karlkyns unglingur því að það væri í lagi en fjórir í lokin, eftir kennslu námsefnisins. Það vekur spurningar um hvort drengir svari út í loftið. Unglingarnir voru einnig spurðir um reynslu af kynlífi. Fjórir einstaklingar svöruðu því til, í fyrstu könnuninni, að þau hefðu reynslu af kynlífi en tíu unglingar í lokin. Hún bendir þó á að tölfræðingarnir segi að of fáar tölur liggi á bak við svörin í þessari rannsókn til þess að hægt sé að alhæfa út frá þeim.

Hægt að grípa fyrr inn í

„Á þessum aldri, milli áttunda og níunda bekkjar, sýna fyrri rannsóknir að hlutfall þeirra sem stunda kynlíf hækkar verulega. Miðað við síðustu HBSC könnun (Heilsa og líðan skólabarna) frá 2009-2010 þá sögðust 29% 15 ára unglinga hafa haft kynmök.“

Rannsóknir benda til þess að kynfræðslunámsefni beri mestan árangur ef það er kennt áður en unglingarnir eru orðnir kynlífsvirkir.

„Þetta sýnir að það er hægt að grípa fyrr inn í og hafa meiri áhrif en talið hefur verið,“ segir Álfheiður Freyja en árangur af kynfræðslukennslu og forvarnastarfi í grunnskólum á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður. „Það eru 20 ár síðan viðlíka rannsókn var gerð á árangri kynfræðslunámsefnis hér á landi. Við þurfum vitundarvakningu í þessum efnum,“ segir hún.

„Það þarf að leggja meiri pening í rannsóknir og vandað námsefni um kynheilbrigði,“ segir Freyja og bætir við: „Hvaða rök liggja á bak við það að kenna um kynferðismál fyrst í 9. bekk, eins og víða virðist gert, ef krakkar eru byrjaðir að horfa á klám jafnvel 11 ára og yngri?“