Ingibjörg Gestsdóttir ljósmóðir fæddist í Múlaseli í Hraunhreppi á Mýrum hinn 24.6. 1863. Foreldrar hennar voru Gestur Jónsson, bóndi í Múlaseli, og Ragnheiður Sveinbjarnardóttir, húsfreyja í Katanesi á Hvalfjarðarströnd og síðar í Reykjavík. Gestur var sonur Jóns Pálssonar, b. í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi, og Ingibjargar Böðvarsdóttur húsfreyju frá Saxhóli í Breiðuvík.
Ragnheiður var systir Margrétar, langalangömmu Halls Halssonar, fyrrv. fréttamanns og Friðriks Ólafssonar stórmeistara. Bróðir Ragnheiðar var Þórður, langafi Alfreðs Guðmundssonar sem var forstöðumaður Kjarvalsstaða. Meðal fjölmargra niðja Ingibjargar er Vigfús Þór Árnason í Grafarvogskirkju.
Ragnheiður var dóttir Sveinbjarnar, prests á Staðarhrauni Sveinbjarnarsonar, hálfbróður, samfeðra, Þórðar háyfirdómara, föður Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds. Móðir Ragnheiðar var Rannveig Thorarensen, systir Bjarna, skálds og amtmanns.
Ingibjörg missti föður sinn er hún var ársgömul og ólst því upp hjá móður sinni og stjúpum, Grími Sigurðssyni á Katanesi, og síðar Guðlaugi Jónssyni, bónda þar og síðar í Reykjavík. Hún lauk ljósmæðraprófi í Reykjavík 1883, var fyrst ljósmóðir í Bessastaðasóknarumdæmi í fimm ár en í Reykjavík í hálfa öld, á árunum 1889-1938.
Ingibjörg var ein af þessum stórmerku og harðduglegu kvenskörungum sem héldu uppi merki lífs og ljóss, oft við ótrúlega erfiðar og frumstæðar aðstæður. Hún þótti ætíð nærgætin og heppin í starfi sínu en talið er að hún hafi tekið á móti um 1.500 börnum á löngum og ströngum starfsferli.
Sjálf eignaðist Ingibjörg níu börn og komust átta þeirra til fullorðinsára.
Eiginmaður Ingibjargar var Árni Árnason „hringjari“, dómkirkjuvörður, ættaður frá Laug í Biskupstungum.
Ingibjörg lést 14.5. 1938.