Taílensk-íslenska félagið hélt taílenska menningarhátíð í Ráðhúsinu í Reykjavík á laugardaginn undir yfirskriftinni Thai Festival 2013 In Reykjavik. Boðið var upp á ýmsa danskennslu í bæði taílenskum þjóðdönsum og nútímalegri dönsum en einnig var boðið upp á kennslu í taílenskri matargerð með sérstakri áherslu á eftirrétti.
Í upphafi hátíðar var stiginn svonefndur Grishdapiniharn-dans þar sem allir hátíðargestir voru blessaðir, en hvorki meira né minna en sautján námskeið í ýmsum fræðum voru haldin yfir hátíðina og var þátttaka í þeim öllum ókeypis. Hátíðinni lauk með tískusýningu þar sem taílenskur fatnaður var í fyrirrúmi.