Þráinn Þorvaldsson
Þráinn Þorvaldsson
Eftir Þráin Þorvaldsson: "Er sáttargerð ekki ein mikilvægasta leiðin til þess að bæta samskipti í íslensku þjóðfélagi?"

Lífsleikni er námsgrein sem á að veita börnum og ungmennum fróðleik um ýmislegt í lífinu sem ekki er fjallað um í hefðbundnum námsgreinum, gera þau leikin í að lifa lífinu, kenna þeim listina að lifa, segir á Wikipediu. Lífsleikni, sem kom inn í aðalnámskrá gunnskóla árið 1999 en hafði áður verið kennd í framhaldsskólum og á seinni árum einnig í leikskólum, býr ungt fólk betur undir lífið. Þegar ég var í Menntaskólanum á Akureyri fyrir 50 árum var bókfærsla kennd á fyrsta ári. Bókhaldskennsla í menntaskóla hefur án efa stuðlað að bættu fjármálalæsi margra sem kennsluna fengu. Nemendur gerðu sér betur grein fyrir því að á móti gjöldum þarf tekjur og þar þarf að vera jöfnuður.

Lífsleikni fyrir börn og unglinga er mikilvæg en ekki er síður mikilvægt að efla lífsleikni fullorðinna. Boðið er upp á fjölda námskeiða til þess að auka leikni fólks til þess að takast á við úrlausnarefni lífsins. Samt eru óplægðir akrar á þessu sviði.

Fyrir skömmu fór ég á námskeið hjá Endurmenntun HÍ sem leiddi huga minn að þætti í lífsleikniþjálfun fullorðinna sem hefur verið vanræktur. Námskeiðið var síðdegisnámskeið í þrjú skipti um samningatækni, afar vel skipulagt af vel menntuðum ungum manni Elmari Hallgríms Hallgrímssyni sem er bæði lögfræðingur og viðskiptalega menntaður. Hann hefur sérmenntað sig í samningatækni og sáttamiðlun í Bandaríkjunum. Samningatækni snýst um að ná samningum við aðra m.a. með því að setja sér markmið og viðmiðanir og reyna að setja sig í spor viðsemjandans. Sáttamiðlun er ákveðið ferli sem miðar að því að hjálpa aðilum að ná sáttum. Sáttamiðlari er hlutlaus aðili sem hefur það hlutverk að miðla málum og hjálpa til við samskipti deiluaðila.

Þátttakendum á námskeiðinu kom saman um að þetta hefði verið lærdómsríkt og um leið mjög skemmtilegt námskeið. Fyrirlestrar voru stuttir en við fengum hlutverkaleiki í verkefnum. Við þurfum hvert og eitt að taka að okkur mismunandi hlutverk. Stundum hlutverk sáttamiðlara, í öðrum tilfellum tjónaþola eða þess sem krafinn var um bætur. Við þurfum að vera samningsaðilar í mismunandi samningum t.d. að selja fasteign. Þátttakendur lifðu sig inn í hlutverkin og hitnaði mörgum í hamsi. Elmar hefur lagt mikla vinnu í undirbúning verkefnanna en hvert hlutverk krafðist mismunandi upplýsinga. Hlutverkaleikur í stuttan tíma skilaði miklum skilningi á viðfangsefninu og ekki síst þegar farið var yfir leikinn á eftir og við fengum meira að vita um stöðu hins aðilans. Ég hef töluverða reynslu af samningum á löngum starfsferli mínum en margt sem Elmar kenndi og ekki síst í hlutverkaleikjunum fékk mig til þess að endurmeta ýmislegt í þeirri aðferðafræði sem ég hef tileinkað mér gegnum tíðina.

Við eigum öll daglega í einhvers konar samningum og sáttamiðlun jafnt í starfi sem í einkalífi. Ég velti því fyrir mér eftir námskeiðið hvort samningatækni og sáttamiðlun ætti ekki að vera hluti af lífsleikniþjálfun fyrir fullorðna. Bjóða ætti upp á kennslu og þjálfun á efri skólastigum af sérmenntuðum kennurum á þessu sviði og jafnvel sem skyldufag auk námskeiðahalds eins og Endurmenntun HÍ gerir. Sáttamiðlun ætti einnig að fá víðtækara hlutverk í þjóðfélaginu. Fram kom á námskeiðinu að Elmar hefur mikinn áhuga á því að sáttamiðlun verði stærri hluti af íslenska réttakerfinu til þess að létta á dómstólunum. Hann hefur reynslu að slíkum málum og starfaði sem sáttamiðlari í Bandaríkjunum. Í ákveðnum ríkjum þar í landi vísa dómstólar málum með kröfum undir $10 þúsund (1,2 m. ísl kr) til sáttamiðlara sem tilnefndir eru af dómstólum. Algert grundvallaratriði í hugmyndafræði sáttamiðlunar er að aðilar máls komist sjálfir að sameiginlegri niðurstöðu með hjálp sáttamiðlara. Niðurstaðan verður þannig ákveðin af málsaðilum sjálfum en ekki af þriðja aðila, t.d. dómara.

Ég hef trú á því að samningagerð og sáttamiðlun eigi eftir að verða skyldunámskeið á efri skólastigum og almennum námskeiðum á eftir að fjölga. Ég hef einnig trú á því að sáttamiðlarakerfi verði sett upp hér á landi í tengslum við dómstóla eins og Elmar vinnur að. Þangað til svo verður hvet ég einstaklinga til þess að sækja þetta frábæra námskeið hjá Elmari. Elmar mun einnig næsta haust kenna sáttamiðlun á nýju 12 vikna námskeiði hjá viðskiptadeild HÍ. Að kunna aðferðir samningatækni og sáttamiðlunar mun létta líf margra. Samningagerð verður auðveldari í starfi og leik. Því fleiri sem tileinka sér aðferðir sáttamiðlunar, þeim mun líklegra er að deilur verði jafnaðar með sátt sem báðir málsaðilar sætta sig við. Er sáttargerð ekki ein mikilvægasta leiðin til þess að bæta samskipti í íslensku þjóðfélagi?

Höfundur er rekstrarhagfræðingur og eldri borgari.

Höf.: Þráin Þorvaldsson