Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Þetta er að ganga frá okkur,“ sagði Garðar Ólason, útgerðarmaður og fiskverkandi í Grímsey, um veiðigjöld sem lögð eru á útgerð hans, Sigurbjörn ehf. Hann sagði að þeir hefðu átt að fá sjö milljónir til baka af 18-19 milljóna sérstöku veiðigjaldi vegna skuldastöðu fyrirtækisins. Sigurbjörn ehf. borgaði um 14 milljónir í almennt veiðigjald og heildarveiðigjöld því í kringum 30 milljónir á ári. Garðar sagði að umtalsverð lækkun á sérstöku veiðigjaldi á botnfisk, eins og boðuð er í frumvarpi sjávarútvegsráðherra, myndi breyta miklu. „Þá verðum við áfram með rúmlega 14 milljónir á ári, sem okkur finnst bara nokkuð nóg,“ sagði Garðar.
Sigurbjörn ehf. gerir út bátana Þorleif EA, 75 tonna bát, Nunna EA, 30 tonna bát, og tvo minni plastbáta. Auk þess eru þeir með fiskverkun. Hjá fyrirtækinu vinna 13-14 manns í Grímsey.
„Ef þetta fer uppfyrir hjá okkur held ég að Grímsey sé í stórhættu. Þeir sem eftir eru eru miklu minni en við og þeir eru ekki betur staddir, held ég,“ sagði Garðar. Hann sagði að síðustu kvótakaup þeirra á 220 tonna þorskkvóta fyrir um 500 milljónir hefðu reynst erfið.
Auðlindagjald á hitaveituna!
„Þetta var strax tekið af okkur og við höfum aldrei fengið að veiða þann kvóta. Þú getur ímyndað þér hvernig gengur að borga af honum,“ sagði Garðar. „Það var seldur mikill kvóti héðan og við fórum að kaupa aftur kvóta til þess að við gætum gert bátana út og skaffað vinnu. Þetta er það sem maður fær fyrir það – að maður sé þjófur og ræningi. Maður er eiginlega að verða búinn að sætta sig við að vera einn af glæpamönnunum!“Hann sagði að þeir sem hefðu sig mest í frammi Reykjavík um veiðigjöldin hefðu fæstir verið til sjós eða haft neina afkomu af sjósókn. „Þetta fólk ætlar að verða voðalega ríkt af því að láta okkur borga og borga. Ég væri til í að bjóða þessu liði að koma hingað og vinna við þetta. Ég er að nálgast sjötugt og búinn að vera við þetta alla mína ævi. Ef þetta yrði tekið af mér núna þá ætti ég húskofann minn og fiskverkunarhúsið, sem er óseljanlegt ef allt fer hér á versta veg. Ég væri alveg til í að hafa býtti við flestalla,“ sagði Garðar.
„Við stöndum engan veginn undir veiðigjöldunum, ég veit ekki hvar á að taka þau,“ sagði Guðjón Indriðason, útgerðarmaður og fiskverkandi í Þórsbergi ehf. á Tálknafirði. Þeir og skyld fyrirtæki gera út Kóp BA 175, 250 tonna bát, Indriða Kristins BA, 15 tonna bát, og krókabátinn Sigurvon BA. Garðar sagði að veiðigjöldin hefðu verið samtals í kringum 30 milljónir á ári.
„Við þekkjum ekki „umframhagnað“ og höfum ekki orðið varir við hann,“ sagði Guðjón. Hann sagði að þeir hefðu klórað sig fram úr því að borga auðlindagjaldið en ekkert væri afgangs. Hann ætlar ekki að gefast upp þótt framtíðin sé ekki björt.
„Við kunnum ekkert annað og höfum aldrei verið í neinu öðru. Það vill ábyggilega enginn hafa okkur í vinnu þannig að það er ekkert um það að ræða að gefast upp,“ sagði Guðjón. Hjá Þórsbergi ehf. og skyldum fyrirtækjum á Tálknafirði vinna um 60 manns til sjós og lands. Fyrirtækið er burðarásinn í atvinnulífinu á Tálknafirði. „Flestir aðrir en við seldu og hættu,“ sagði Guðjón. Hann sagði að sér kæmu mótmæli gegn lækkun veiðigjalda ekki á óvart.
„Þú verður að athuga hverjir það eru sem eru að mótmæla, ég giska á að það sé þetta lattelepjandi lið í 101,“ sagði Guðjón. Hann kvaðst vilja fá umræðu um auðlindagjöld í stað umræðu um veiðigjöld. „Ég bý í 200 fermetra einbýlishúsi og borga 30-35 þúsund í kyndingu á mánuði. Sá sem býr í svipuðu húsi í Reykjavík borgar svona 15 þúsund.“ Guðjón leggur það til að þeir sem búa á hitaveitusvæðum borgi mismuninn á kyndingu þar og á köldum svæðum úti á landi í auðlindagjald þannig að allir sitji við sama borð. Það samræmist kröfunni um að allir sem njóti auðlinda landsins borgi auðlindagjöld.