Barátta KR-ingurinn Jónas Guðni Sævarsson og Björn Pálsson, leikmaður Víkings Ólafsvíkur, stíga létt dansspor í baráttunni um boltann.
Barátta KR-ingurinn Jónas Guðni Sævarsson og Björn Pálsson, leikmaður Víkings Ólafsvíkur, stíga létt dansspor í baráttunni um boltann. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á KR-VELLI Benedikt Bóas benedikt@mbl.is KR-ingar unnu Víkinga frá Ólafsvík 2:1 í gærkvöldi en ekki var það glæsilegur sigur. Þeir voru hreint út sagt arfaslakir en unnu og um það snýst þessi fallega íþrótt.

Á KR-VELLI

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

KR-ingar unnu Víkinga frá Ólafsvík 2:1 í gærkvöldi en ekki var það glæsilegur sigur. Þeir voru hreint út sagt arfaslakir en unnu og um það snýst þessi fallega íþrótt. Flestir höfðu reiknað með stórum og þægilegum sigri KR. Rúnar Kristinsson var ekki með KR og voru sérfræðingar á samfélagsmiðlunum twitter og fésbókinni búnir að segja að hann væri heppinn að missa af þessum leik en ekki einhverjum öðrum sem gæti verið þeim erfiður.

Það þurfti því væntanlega ekki mikið að „peppa“ gestina fyrir þennan leik enda mættu þeir dýrvitlausir á meðan ládeyðan var mikil hjá heimamönnum, sem varla nenntu að mæta til leiks. Strax eftir þrjár mínútur var Víkingur frá Ólafsvík kominn yfir og hélt þeirri forystu til hálfleiks. Alfreð Már Hjaltalín sagðist hafa verið sá síðasti sem snerti boltann. KR-ingar voru mun meira með boltann en sköpuðu sér lítið. Síðasti þriðjungurinn var þeim erfiður. Uppspilið úr vörninni var slakt og reyndu miðverðirnir undantekningarlaust langan bolta. Það var því ábyggilega pirrandi fyrir Jónas Guðna, Baldur og Atla Sigurjóns að fá aldrei boltann, horfa bara á hann í háloftunum.

KR-ingar héldu áfram að vera með boltann án þess að skapa sér neitt þangað til allt í einu Brynjar Björn dúkkaði upp inni í teig gestanna, var straujaður og Erlendur Eiríksson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu sem Gary Martin tók. Einar varði spyrnuna en inn lak boltinn.

Eftir markið var þetta samt aldrei spurning hjá heimamönnum. Þeir settu Kjartan Henry inn á og hann átti laflausan skalla sem Einar réð ekki við og blakaði í horn. Upp úr horninu skoraði Óskar stórkostlegt mark. Eftir að hann tók hárið úr taglinu og lét faxið sitt síða vera laust hefur hann blómstrað. Öll skot eru inni og öll mörkin hans hafa verið frábær.

KR-ingar geta væntanlega brosað í dag. Þeir voru heppnir í gær. Það er bara þannig. Þeir nenntu ekki að spila þennan leik, nenntu ekki að meiðast gegn litla liðinu frá Ólafsvík. Sem betur fer fyrir þá kom það þeim ekki í koll.

Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga, var eðlilega ósáttur í leikslok og hreinlega trúði ekki sínum eigin augum þegar hann sá að Erlendur flautaði víti. „Persónulega fannst mér þetta aldrei vera víti. Ef menn ætla að dæma víti á svona er lítill tilgangur fyrir okkur að koma alla þessa leið og spila hér. Ég vona innilega að þetta hafi verið víti. Ef þetta víti hefði ekki verið stórefast ég um að við hefðum tapað hérna í dag. Ég trúi ekki að svona reyndur dómari falli í svona gryfju. Við erum það lítið lið að hann þarf ekki að hjálpa einum né neinum.“

0:1 Alfreð Már Hjaltalín 2. Eftir hornspyrnu skaut Alfreð að marki, boltinn hafði viðkomu í KR-ingi og í netið fór hann.

1:1 Gary Martin 64. Brynjar Björn fiskaði vítaspyrnu sem Martin skoraði úr. Einar varði boltann en inn lak hann.

2:1 Óskar Örn Hauksson 73. Stórkostlegt mark. Lagði boltann fyrir sig eftir hornspyrnu og þrumaði honum í netið.

Gul spjöld:

Kiko Insa (Víkingi Ó.) 19. (brot), Brynjar Björn (KR) 58. (brot), Atli (KR) (peysutog), Dokara (Víkingi Ó). 86. (brot)

Rauð spjöld:

Engin.

M

Baldur Sigurðsson (KR)

Óskar Örn Hauksson (KR)

Brynjar Björn Gunnarsson (KR)

Einar Hjörleifsson (Víkingi)

Björn Pálsson (Víkingi)

Emir Dokara (Víkingi)

Kiko Insa (Víkingi)

KR – Víkingur Ó. 2:1

KR-völlur, Pepsi-deild karla, 8. umferð, sunnudag 23. júní 2013.

Skilyrði : Frábær. Völlurinn glæsilegur og logn.

Skot : KR 13 (10) – Víkingur Ó. 4 (1).

Horn : KR 5 – Víkingur Ó. 4.

Lið KR : (4-3-3) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Haukur Heiðar Hauksson, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Gunnar Þór Gunnarsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson. Miðja : Brynjar Björn Gunnarsson, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson. Sókn : Atli Sigurjónsson (82. Þorsteinn Már Ragnarsson 82), Gary Martin (Kjartan Henry Finnbogason 66.), Óskar Örn Hauksson.

Lið Víkings Ó : (4-5-1) Mark : Einar Hjörleifsson. Vörn : Emir Dokara, Damir Muminovic, Kiko Insa, Brynjar Kristmundsson. Miðja : Alfreð Már Hjaltalín, Björn Pálsson, Farid Zato, Steinar Már Ragnarsson, Eldar Masic. Sókn : Guðmundur Magnússon.

Dómari : Erlendur Eiríksson – 7.

Áhorfendur : 1.665.