Í útkalli Slysavarnarfélagið Landsbjörg þarf að sinna útköllum daglega að sögn fjölmiðlafulltrúa Landsbjargar.
Í útkalli Slysavarnarfélagið Landsbjörg þarf að sinna útköllum daglega að sögn fjölmiðlafulltrúa Landsbjargar. — Ljósmynd/Landsbjörg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Slysavarnafélagið Landsbjörg fer nær daglega í útköll til þess að aðstoða ferðamenn í vandræðum á hálendinu þó komið sé fram á mitt sumar.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Slysavarnafélagið Landsbjörg fer nær daglega í útköll til þess að aðstoða ferðamenn í vandræðum á hálendinu þó komið sé fram á mitt sumar. Jónas Guðmundsson fjölmiðlafulltrúi hjá Landsbjörg segir að það helgist meðal annars af því hve fjallvegir eru lengi lokaðir. Hann kallar eftir aukinni þjónustu við ferðamenn samhliða betri skipulagningu á vinsælum ferðamannastöðum. Aukinn ferðamannastraumur kalli eftir breyttum aðferðum. Það megi t.a.m gera með því að opna vegi fyrr og setja reglur um ágang ferðamanna á vissum stöðum.

Ryðja hálendisvegi fyrr

,,Ein af þeim hugmyndum sem við höfum sett fram er sú að Vegagerðin hugi betur að því að ryðja hálendisvegi og geri það fyrr. Meginvenjan er sú að skaflar eru látnir bráðna og vegir þorna áður en þeir eru opnaðir fyrir umferð. En hér ber að athuga að ferðamenn eru komnir til landsins fyrr en áður og því er spurning hvort það sé ekki hagkvæmara að stinga í gegnum snjóskaflana þegar þeir eru orðnir hæfilega litlir eða fáir. Láta veginn þorna svo þó að snjórinn sé kannski báðum megin við vegina,“ segir Jónas. Hann telur að svigrúm sé til þess að gera þetta með þessum hætti þegar tekið er mið af veðrinu en gerir sér þó grein fyrir þeim aukakostnaði sem af hlytist. ,,Vegagerðin þyrfti því að þjónusta svæðið lengur og við teljum að með þessu væri hægt að opna vegina tveimur til þremur vikum fyrr. Það getur til að mynda sparað tugi útkalla, færri bílar skemmast og færra fólk slasast,“ segir Jónas. Enn eru vegir norðan Vatnajökuls lokaðir, hluti Fjallabaksleiðar og á Sprengisandi vegna snjós og bleytu. Jónas telur að með aðgerðum í þessa átt megi spara kostnað til lengri tíma, auka öryggi ferðafólks sem og þjónustu við það. Hann bendir á að erlendir ferðamenn haldi gjarnan að þeir séu að koma inn í sumarveður og eigi ekki von á þeim aðstæðum sem hér eru.

Vegurinn í 1.800 metra hæð

Jónas var í Bandaríkjunum í mars að kynna sér öryggismál og stjórnun ferðamanna í þjóðgörðum. Meðal annars skoðaði hann Mount Renierfjall skammt fyrir utan Seattle í Washingtonfylki sem nær upp í þrjú þúsund metra hæð. „Þar er vegur sem nær upp í 1800 metra hæð og hann er opinn meira og minna allt árið. Á þessum vegi eru 15-20 metra snjógöng sem við keyrðum í gegnum. Forsvarsmenn svæðisins sögðu að ferðamenn hefðu verið að lenda í vandræðum og sögðu hagkvæmara fyrir þá að vinna í veginum og halda honum opnum. Fyrir vikið þurfti ekki í sífellu að kalla út björgunarsveitir svo ekki sé talað um það sem ávinnst með því að fækka slysum og mannslátum,“ segir Jónas.

LANDSBJÖRG MEÐ FJÖLDA TILLAGNA UM BÆTT ÖRYGGI

Ferðamenn sendi ferðaáætlun

Jónas telur að bæta megi öryggi ferðamanna með einföldum reglum og segir að Landsbjörg hafi fjölda tillagna þess efnis. Segir hann fjöldatakmarkanir á vinsælum áfangastöðum eina lausn en fleira sé hægt að gera. „Nú eru t.d. margir að ganga þvert yfir Ísland eftirlitslaust og þurfa ekki að fá leyfi. Einfalt væri ef Vatnajökulsþjóðgarður myndi setja reglur um að enginn færi í ferð án þess að skilja eftir ferðaáætlun og leigja neyðarsendi sem kostar 8 þúsund krónur á viku. Það er fullt af svona einföldum ráðum sem má beita til þess að auka öryggi ferðafólks,“ segir Jónas