Skógardagurinn mikli fór fram um helgina en þar er meðal annars keppt í Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Sigurvegari og Íslandsmeistari var Ingvar Örn Arnarson sem keppti fyrir Skógrækt ríkisins á Suðurlandi, hann bar sigurorð af Íslandsmeistara síðasta árs, Bjarka Sigurðssyni frá Klúku sem keppti fyrir Skógrækt ríkisins á Hallormsstað. Í þriðja sæti varð síðan Jökuldælingurinn Jón Björgvin Vernharðsson frá Möðrudal sem keppti fyrir sauðfjárbændur.
Keppt er í að fella lerkitré í Hallormsstaðarskógi, keppandinn ákvað í hvaða átt hann felldi tréð og setti niður pinna til viðmiðunar. Síðan var tréð kvistað 8 metra upp bolinn og þeim hluta skipt í tvo 4 metra búta, þessi keppnishluti fer fram á tíma og gildir að vera sem fljótastur, en verklagið er dæmt og refsistig eru gefin. Í seinni hlutanum fá keppendur tvo 30 cm búta og kljúfa þá hvorn um sig í fjóra jafna búta. Svo er eggi stillt upp á fjalhöggi og eiga keppendur að kljúfa eggið. Að lokum nota þeir keðjusög til að saga þrjár skífur af trjábol sem er á standi.